Laugardagur, 24. ágúst 2024
Verðbólga, DNA og krónan
Seljandi vöru og þjónustu hækkar verðið í trausti þess að kaupendur kippi ekki að sér höndunum. Kaupendur, sem hafa ekkert að selja nema vinnuaflið, hækka launataxta til móts við verðlagshækkun. Með verkföllum ef ekki vill betur.
Fyrirkomulagið, sem lýst er hér að ofan, kallast víxlhækkun og var við lýði á Íslandi öll lýðveldisárin og fram að þjóðarsáttinni 1990. Víxlhækkun verðlags og launa er í erfðamengi íslenska vinnumarkaðarins, eins og Sigurður Ingi fjármálaráðherra vakti athygli á og fékk bágt fyrir, einkum frá vinstrimönnum.
Þjóðarsáttin 1990 þurrkaði ekki upp verðbólguerfðamengið, það tekur tíma. 34 ár eru ekki langur tíma í hagsögunni.
Heimska er ríkari erfðaþáttur í samfélaginu en verðbólga. Viðreisn og margir í Samfylkingu vilja skipta út íslensku krónunni til að ná niður verðbólgu. Skipta út víxlhækkun verðlags og launa fyrir víxlhækkun launa og atvinnuleysis.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.