Föstudagur, 23. ágúst 2024
Menningarkristni og vísindi
Menningarstríðið er komið á það stig að jafnvel vantrúaðir á vesturlöndum halla sér að kristni. Vitfirrta vinstrið er komið svo langt inn í vúdú (manngert loftslag og trans) að gamaldags trú á föðurinn, soninn og heilagan anda er jarðbundin í samanburði.
Frægasti trúleysingi samtímans er án efa líffræðingurinn Richard Dawkins. Hann hefur í áratugi í bókum, greinum og fyrirlestrum herjað á trú almennt og kristna trú sérstaklega. Dawkins er síðdarwinisti, útskýrir jarðlíf og mennsku út frá þróunarkenningu Darwin. Ef einhver einn er ábyrgur fyrir vísindalegu guðleysi seinni ára er það Dawkins.
Dawkins er kominn á níræðisaldur og man tímana tvenna. Á sokkabandsárum hans og fram undir nýliðin aldamót var í menningu okkar gengið að vísu að sitthvað væri huglæg reynsla, s.s. tilfinningar, og annað hlutveruleiki. Menn geta fundið hitt og þetta í huga sér, sumt svarar til ytri veruleika en annað ekki. Maðurinn er þannig gerður, getur ímyndað sér hluti sem eru ekki. Vísindin voru, á uppvaxtarárum Dawkins, kirfilega á bandi þeirra sem sögðu að staðhæfingar um heiminn yrðu annað tveggja að vera röklega réttar, t.d. tveir plús tveir eru fjórir, eða staðfestar í ytri veruleika, með athugunum eða tilraunum, til að staðhæfingarnar teldust sannar.
Dawkins hefur áður komið við sögu í tilfallandi athugasemdum:
Hann afgreiðir trans-menninguna með þeim orðum að segist karl vera kona geti hann allt eins sagst vera hundur, þá líklega rakki fremur en tík.
Dawkins segir trans jaðra við geðveiki. Í viðtalinu vill hann ekki útiloka að í heila karls gætu leynst kvenlegir drættir. En að karl geti hoppað úr sínu líffræðilega kyni í andstætt kyn með tilfinningunni einni saman sé brjálæði.
Guðleysi Dawkins er byggt á vísindum hlutveruleikans, stundum kölluð náttúruvísindi. En nú segist Dawkins orðinn kristinn. Ekki persónulega trúaður á frelsarann og heilaga ritningu en kristinn engu að síður.
Dawkins segist menningarkristinn.
Hvað á líffræðingurinn við? Jú, menningarkristinn er sá sem telur trúarlegan grunn vestrænnar menningar mikilvægan. Fyrir fimm árum var haft eftir Dawkins að kristni, og trú almennt, væri ómissandi þáttur í siðferði samfélagsins.
Dawkins er sem sagt menningarlega og siðferðilega kristinn. En líklega ekki vísindalega kristinn. Enda er það enginn maður með öllum mjalla. Eða svo skyldi ætla.
En bíðum við. Frumkvöðlar vísindanna, Descartes og Newton, svo aðeins tveir séu nefndir, voru kristnir í merkingunni trúðu á guð. Einstein hafnaði ekki guði. Hugmyndin að vísindi og kristni samrýmist ekki er ný af nálinni.
Guðstrú og vísindi eru falskar andstæður. Vísindi fást við hlutveruleikann. Vísindin starfa í heimi röklegra sanninda annars vegar og hins vegar hlutlægra sanninda. Guð, samkvæmt skilgreiningu, er hvorki röklegur né hlutlægur.
Sannindi vísindanna eru alltaf með þeim fyrirvara að við vitum ekki betur. Fyrirvarinn er forsenda vísindalegra framfara. Vísindalegt guðleysi er aðeins þeirra sem sannfærðir eru um endanlegan sannleika. Það er trúarlegt sjónarhorn, ekki vísindalegt.
Efi og óvissa er hlutskipti mannsins. Fyrrum sefaði trúin en nú sækja menn líkn í vísindin. Skurðgoðadýrkun heitir sú iðja.
Athugasemdir
Var það ekki trúleysinginn Pascal sem sagði að það væri öruggara að veðja á guð ef svo ólíklega vildi til að í ljós kæmi að hann væri til.
Sumir hafa alltaf vaðið fyrir neðan sig.
Ragnhildur Kolka, 23.8.2024 kl. 09:47
Við þurfum a.m.k. tíu réttláta til að lifa af Dóm Guðs, því að fráhvarfið frá Kristnum dómi er algjört meðal Þjóðarinnar.
Guðmundur Örn Ragnarsson, 23.8.2024 kl. 11:50
Hann afgreiðir trans-menninguna með þeim orðum að segist karl vera kona geti hann allt eins sagst vera hundur, þá líklega rakki fremur en tík.
Dawkins segir trans jaðra við geðveiki.
Þarf ekkert að segja meira.
Sigurður Kristján Hjaltested, 23.8.2024 kl. 14:37
Jean Paul Sartre, höfundur existentialismans, fullyrti að: "án trúar sé allt leyfilegt" og vitnaði þar í rússneska rithöfundinn, Dostojevski.
Austurríski eðlisfræðingurinn, Anton Zeilinger sagði í nýlegu viðtali á svissnesku sjónvarpsstöðinni SRF að þeir sem héldu því fram að trú og vísindi séu ekki samrýmanleg hefðu ekkert vit á vísindum. Anton Zeilinger fékk Nóbels-verðlaunin 2022(?) fyrir rannsóknir á "Quantum entanglement", fyrirbrigði sem ég hvorki skil né kann að þýða, en það munu vera einhvers konar fjarhrif sem hann hefur sannað að eigi sér stað. Zeilinger sem er rammkaþólskur en hefur líka áhuga á búddískum fræðum.
Stærðfræðingurinn og Oxfordprófessorinn, John Lennox, er strangtrúaður og hefur aldrei farið í launkofa með það, þrátt fyrir aðvaranir um að það gæti haft áhrif á framaferli hans. Hann er á svipuðum aldri og Richard Dawkins og hefur háð marga orðaglímuna við hann o. fl. trúleysingja, hefur hann ekki látið þá vaða neitt ofan í sig.
Hörður Þormar, 23.8.2024 kl. 14:46
Hörður Þormar minnist á skammtaflækjuna. Kannski er ég einn af fáum sem skil það fyrirbæri og veit um íslenzkt orð yfir það.
Skammtaflækja er þýðing á orðinu "quantum entanglement". Án þess að vera alveg viss um hver kom fyrstur með þýðingu á þessu vísindaorði er ég nokkuð viss um að Þorsteinn Þorsteinsson, lífefnafræðingur frá Húsafelli eigi heiðurinn af því íslenzka orði.
Í bókinni "Samstilling lífs og efnis í alheimi", sem kom út árið 1995 á vegum Heimspekistofu dr. Helga Pjeturss eru bæði vísindaritgerðir sem lúta að þessu og einnig yfirlit um helztu kenningar og afrek dr. Helga Pjeturss fyrir utan jarðfræðina.
Þar á Þorsteinn frá Húsafelli ágæta ritgerð þar sem hann kynnir og fjallar um hugtakið skammtaflækja, "quantum entanglement".
Sérstaklega ber hann saman uppgötvanir dr. Helga snemma á 20. öldinni og svo skammtafræðina og hvernig dr. Helgi var sannspár en Albert Einstein ekki, þegar hann sagði:"Guð kastar ekki teningum". Þessi setning Einsteins var mótbára hans við skammtafræðinni, sem hann aldrei sættist við.
Ef ég ætti að útskýra skammtaflækjuna veit ég ekki hvort það tækist. Maður þarf helzt að vera fullmenntaður í þessu, en grunnatriðin tel ég að ég skilji þó að einhverju leyti, og kannski alveg.
Skammtaflækjan í vísindum lýsir því hvernig agnir geta verið staddar á fleiri en einum stað í einu, að því er virðist, og það gengur í berhögg við hefðbundin vísindi Einsteins og fyrirrennara hans. Skammtafræðin hefur komið með algjörlega nýjar víddir inní eðlisfræði, stjörnufræði og skyldar greinar. Innan skammtafræðinnar eru framfarir einna örastar í eðlisfræðitengdum vísindum.
Skammtaflækjan afsannar jafnvel kenninguna um að ekkert fari hraðar en ljósið, því samkvæmt henni geta upplýsingar borizt á engum tíma frá einum stað til annars. Það gjörbreytir skilningi á alheiminum.
Því er það svo að vísindamenn vinna hverjir í sínu horni oft að því að þróa áfram kenningar, og vinna eftir tilgátum annarra vísindamanna.
Ég átti mikið og langt samtal við Hrafn Arnórsson, sem er eðlisfræðingur, einmitt um þetta, en hann var skólabróðir minn í MK. Hann er bróðir Þóru forsetaframbjóðanda, og einnig þekki ég annan bróður þeirra.
Kenningar dr. Helga Pjeturss um efniskennt framlífi á öðrum hnöttum byggist á þeirri þversögn sem skammtafræðin leysir, og þó eru þessi mál ekki sönnuð, því þótt eindir geti ferðazt hraðar en ljósið er ekki hægt að sanna að slíkt eigi við um fólk, eða sálir, eða að sálin sé yfirleitt til, sem ekki er fínt að viðurkenna sem vísindamaður. Það er svo að persónulegum smekk hvers og eins hvort vísindafólk eða annað trúir á einn guð (eða Guð), eða marga guði eða enga. Vísindafólk er varla vanttrúaðara eða trúaðra en annað.
Það hefur nú verið einn helzti þröskuldurinn við kenningar dr. Helga Pjeturss að samkvæmt Einstein fer ekkert hraðar en ljósið. Nema nú er það orðið sæmilega viðurkennt að þær kenningar Einsteins séu úreltar, lýsi ekki veruleikanum nægilega vel. Skammtafræðin kemur þar inní.
En húmanistar hafa fært afstæðið yfir á svið þar sem það á ekki heima, það er að segja líffræði mannsins. Líffræði mannsins er eins og líffræði dýra almennt hrein og klár, tvö kyn, sé um spendýr að ræða. Hitt er huglæg upplifun. Þó er það svo að í menningunni er hægt að gera eitthvað að lögum sem er húmanískt, byggist ekki á hefðbundinni líffræði eða því augljósa. Einvaldurinn í landinu getur krafizt þess að allir samþykki að svart sé hvítt og bleikt sé blátt. Trúin flytur fjöll, er ekki rétt að segja það?
Þegar krafan um umburðarlyndi fer að yfirgnæfa annað, þá verða þessir árekstrar. Vinstrimenn og jafnaðarmenn telja sig vera með siðferðislega yfirburði yfir alla aðra. Stolt Kamala Harris og Demókratarnir í Bandaríkjunum telja Repúblikana og jafnvel kristna menn nokkurskonar risaeðlur.
Ingólfur Sigurðsson, 23.8.2024 kl. 15:36
Fasaflétta er orðið sem Þorsteinn frá Húsafelli bjó til. Mig misminnti, enda mörg ár síðan ég las bókina, en þetta rifjaðist upp.
Maður notar orðið ekki í daglegu tali. Skammtaflækja er því mín hráa þýðing, og ekki eins gott orð.
Raunar hitti ég hann síðar við útskrift stúlku úr Söngskólanum í Reykjavík, Hönnu Olgeirsdóttur, hann er sveitungi hennar úr Borgarfirði, þá talaði ég við hann og hann var þá búinn að finna annað orð yfir þetta sem hann nefndi við mig, en því miður man ég ekki nákvæmlega hvaða orð það var, hvort það var fasasvið eða eitthvað slíkt. Minnir endilega að fyrri hlutinn hafi verið eins.
En fasaflétta er mjög gott orð hjá honum. Efnið fasast inn og út úr rúmi og tíma. Orðið er betur myndað en hið enska orð, sem lýsir því að hinir útlendu vísindamenn þreifuðu fyrir sér í myrkri og uppgötvuðu þetta, en Þorsteinn, þessi íslenzki vísindamaður, hann hafði betri undirstöðu til að standa á, því hann þekkti fræði dr. Helga Pjeturss fyrir.
Þetta er nefnilega flétta; skipulögð bygging en ekki flækja, tilviljanakenndar hendingar. Það er þó ekki fyrr en síðar sem það verður uppgötvað almennilega.
Ingólfur Sigurðsson, 23.8.2024 kl. 18:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.