Gáfu Rússar færi á Kúrsk?

Tilgáta er að Rússar hafi vitað með tveggja vikna fyrirvara að Úkraínuher undirbyggi árás á Kúrsk-hérað. Tvær vikur eru nægur tími til að flytja herlið á vettvang til að mæta innrásinni. En Rússar létu sér vel líka að í fyrsta sinn í Úkraínustríðinu yrði Rússland vettvangur stórátaka.

Myndbandsbloggarinn Alexander Mercouris, sem daglega fjallar um Úkraínustríðið, kemur tilgátunni á framfæri, byggir m.a. ónafngreindri heimild sem hann segir hafa sýnt sig trúverðuga. Sjálfur leggur Mercouris mátulega upp úr tilgátunni. Að hans áliti er hæpið af rússneskum yfirvöldum að leggja líf almennra borgara í hættu til að leggja gildru fyrir Úkraínuher.

Giskað er á að um 15 þúsund hermenn Úkraínu taki þátt í Kúrsk-aðgerðinni. Rússneska varnamálaráðuneytið segir um tvö þúsund særða og fallna. Séu tölurnar réttar er rússneska gildran að fá Úkraínumenn til að safna liði í eina hernaðaraðgerð til að höggva megi stór skörð í mannafla óvinarins. Tvö þúsund særðir og fallnir á einni viku af 15 þúsund er hátt hlutfall. 

Á móti kemur álitshnekkir Rússa er óvígur óvinaher leggur undir sig rússneskt land. CNN hefur eftir bandarískum herforingja að Kúrsk-aðgerðin hafi heppnast hingað til, nú sé spurningin hvort Úkraínuher hafi þanþol til að halda ávinningnum.

Annar myndbandsbloggari, sem einnig birtir daglega, er Macronomist. Hann segir víglínuna í Kúrsk of óljósa til að enn megi draga raunhæfar ályktanir af stöðu og horfum.

Þriðji myndbandsbloggarinn, Military Summary, birtir tvisvar á dag. Nálgun hans er að sá stríðsaðili tapar í Kúrsk sem þarf að flytja þangað herlið í því magni að það hafi áhrif á aðrar vígstöðvar.

Það er orðið ljóst, segir fjórði bloggarinn, War in Ukraine, að Kúrsk-aðgerðin er veðmál Selenskí og félaga. Tilgangurinn er ekki hernaðarlegur heldur pólitískur. Rússum er Kúrsk hérað ekki hernaðarlega mikilvægt og þeir voru tilbúnir að gefa það eftir. 

Á meðan allra augu eru á Kúrsk hafa Rússar náð árangri á öðrum vígstöðvum, einkum við Pokrovsk. Verði Rússar knúnir til að flytja herlið norður hægist á sókn þeirra. Ef Úkraínuher dregur mannskap norður er hætt við hraðari rússneskri sókn á meginvígstöðvunum.

Kúrsk-aðgerðin er takmörkuð. Um 15 þúsund hermenn Úkraínu glíma við 10 til 11 þúsund manna rússneskt lið. En aðgerðin getur haft veruleg áhrif. Í einn stað getur hún afhjúpað veikleika rússneska hersins en í annan stað vanhugsaða ævintýramennsku Úkraínuhers.

Kúrsk er sögufrægt hérað í stríðsannálum. Í seinni heimsstyrjöld árið 1943, einmitt í júlí og ágúst, reyndi þýski herinn, sem hafði farið halloka fyrir rauða hernum, að ná frumkvæðinu á austurvígstöðunum með snarpri gagnsókn. Kúrsk-aðgerðin 1943 misheppnaðist. Áður en mánuðurinn er úti liggur fyrir hvort Kúrsk-2024 breyti stríðsgæfunni í Úkraínustríðinu.

 


mbl.is Segjast hafa náð þúsund ferkílómetrum frá Rússum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Kenningarnar eru margar. Sumir segja að Úkraína hafi ætlað að ná Kúrsk kjarnorkuverinu á sitt vald og nota sem skiptimynt fyrir Zaporitsía kjarnorkuverið. Sú aðgerð misheppnaðist og mannfallið mikið. Hitt er hins vegar augljóst að engar samningaviðræður eiga sér stað meðan erlent herlið er á rússneskri jörð.

Ragnhildur Kolka, 14.8.2024 kl. 09:01

2 Smámynd: Grímur Kjartansson

Hingað til hefur gengið vel hjá Selensky að fá fjármagn því verið er að verjast innrás vondu rússana.
Að innrás inn í Rússland sé hernaðarlega vanrarstríð getur verið flókið að útskýra. Við þetta bætist umsvif úkraínu hers í Malí, Afríku og nýjustu fréttir um að þjóðverjar séu nú loks sannfærðir um að úkraínumenn hafi sprengt gasleiðsluna

Maður skildi ætla að erfiðara yrði að réttlæta fjáraustur til Úkraínu sama hver verður forseti í USA

Grímur Kjartansson, 14.8.2024 kl. 10:32

3 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Síðan hvenær telja menn að varnarstríð sjálfstæðrar þjóðar gegn innrásarseggjum beri að einskorðast við bardaga í eigin landi og að kappkosta verði að áreita ekki óvininn með því að stíga niður fæti í hans eigið land?

Það var virkilrga kominn tími til að Úkraínumenn hættu að taka mark á þessu rugli og reyni nú, að þvi er virðisst með góðum árangri, að færa áttakalínuna yfir í land illvirkjanna.  Og viti menn, nú heyrist annað hljóð úr horni.  Allir helstu styrktaraðilar Úkraínu lýsa því nú yfir, hver í kapp við annan, að vitaskuld sé Úkraínumönnum heimilt að beita öllum þeim vopnum sem þeir hafa til umráða, enda þeirra eign, í þessari óvæntu innrás þerra í Kúrsk.

Daníel Sigurðsson, 14.8.2024 kl. 19:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband