Reiði og fyrirgefning, sjálfsvirðing og hefnd

,,Ef fyrirgefning er svar við (flest)öllu því sem aflaga fer, er hún ekki svar við neinu," skrifar Sólveig Anna Bóasdóttir prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Háskóla Íslands í grein sem fjallar um ofmat samtímans á fyrirgefningunni annars vegar og hins vegar vanmat á mikilvægi reiðinnar, sem Sólveig kallar gremju.

Greinin er tólf ára gömul en hefur, af ástæðum tilfallandi ókunnugum, fengið nýdreifingu á netinu. Það sem segir í síðustu efnisgreinum þessa bloggs, um hefnd og samfélagsmiðla, er ekki gagnrýni á Sólveigu Önnu, enda voru samfélagsmiðlar ekki þeir sömu fyrir rúmum áratug og þeir eru nú. 

Sólveig Anna les það úr tíðarandanum að krafa sé höfð í frammi að þolendur fyrirgefi misgjörðamönnum sínum. Við það, segir Sólveig Anna, getur tapast sjálfsvirðingin. Þolandinn fær tvöfalda útreið. Verður fyrst fyrir tjóni af völdum geranda og glatar sjálfvirðingunni í framhaldi vegna kröfu samfélagsins um að fyrirgefa. Gildi réttlátrar reiði/gremju er að með henni heldur þolandinn stoltinu - eða virðingu fyrir sjálfinu.

Hugmyndin um fyrirgefningu finnst í þekktum eingyðistrúarbrögðum, líkt og Sólveig Anna rekur. Í okkar menningu er fyrirgefningin með kristnar rætur. Í athyglisverðum efnisgreinum ræðir höfundur valdahlutföll þolanda og geranda í samhengi við fyrirgefninguna. Sólveig Anna gerir því skóna að þar kenni mismunar. Sögulega, t.d. á miðöldum, gat sá einn fyrirgefið sem hafði vald yfir þeim er hlaut. Þannig gat leiguliði aldrei vænst, hvaða þá krafist, að lénsherra bæðist fyrirgefningar. Leiguliða, sem galt ekki landsskuldina, gat aftur verið miskunnuð óskilvísin við sér æðri.

Það má skilja boðskap Sólveigar Önnu á þann veg betra sé að burðast með gremju í stað þess að fyrirgefa. Þannig haldi maður sjálfsvirðingunni. Langvinn gremja er þó tæplega farsælt hugarástand og gerir menn fremur smærri í sniðum en stærri. 

Misgjörð sem særir stolt þarf meiri leiðréttingu en að neita gerandanum um fyrirgefningu. Það vissu heiðnir menn og fyrstu kynslóðir kristinna Íslendinga. Til að sefa gremjuna þurfti annað tveggja hefnd eða miskabætur og þær oftast ríflegar.

Hefnd er enn stunduð af þolendum sem eru minnimáttar gerendum. Ekki hefnd til líkamstjóns, eins og karlar tíðkuðu í Íslendingasögum og Sturlungu, oft eftir vélráð kvenna, heldur á samfélagsmiðlum. Blóðhefnd til forna og mannorðsatlögur á samfélagsmiðlum eru tvær útgáfur óopinbers réttarvörslukerfis. Í þúsund ár er maðurinn samur við sig, hvað sem líður menningu og trú.

Tilfallandi telur að fyrirgefning og gremja/reiði séu tvær hliðar sömu myntar. Í báðum tilvikum er um að ræða tilfinningar í brjósti hvers manns. Einstaklingurinn velur hvorn kostinn hann tekur.  Í Svínfellingasögu valdi Ögmundur bóndi gremju fram yfir fyrirgefningu og deyddi 17 ára fósturson sinn Guðmund og bróður hans. Ögmundur galt manngjöld fyrir bræðurna, varð eignalítill og héraðsrækur. Sjálfsvirðingin fólst í valinu. Sjálfgefið er að viðhorf samfélagsins skipta máli. Tilfinningar eru persónulegar en útrás þeirra samfélagslegt málefni að því marki sem þær varða aðra. Ögmundur var 13du aldar maður. Tilfallandi gisk er að hann hefði í dag valið fyrirgefninguna.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Gremja, reiði, hatur og hefnd, þetta vaknar oft eða alltaf sé miðað við væntingar þess sem fyrir verður. Sólveig Anna Bóasdóttir er sennilega hluti af kvennakirkjunni og femínismanum. Sjá má að hún hefur haldið erindi fyrir slíka hópa.

Konur fyrri alda bjuggust við óréttlæti og ójafnvægi. Því var ekki jarðvegur fyrir reiði, heift og gremju eða hefndarþorsta í garð karlkynsins. Nauðganir eða annar yfirgangur - þær urðu að sætta sig við þetta eins og hvert annað hundsbit - og lifðu það af.

Ég býst nú samt við að gremjan og hennar skyldmenni hafi gert vart við sig.

Það er áhugavert að kirkjan hefur með kvennaguðfræðinni úthýst fyrirgefningunni.

Kirkja nútímans á Íslandi er umbreytt frá toppi til táar, konur eru við völd frá neðstu stöðum til þeirra æðstu. Konur eru jafnvel í meirihluta þar sem annarsstaðar opinberlega.

Þjóðkirkjan íslenzka á fátt sameiginlegt með lútherskunni eða kaþólskunni eða Biblíunni, núorðið.

Hún á flest sameiginlegt með satanismanum, sem kennir að upphefja egóið í hæsta veldi, og að reiðast sé á manns hlut gert. Satanismi nútímans kemur frá frönsku byltingunni, mannhyggjunni, að setja manninn í öndvegi, sál mannsins.

Þjóðkirkjan í dag er ekki þessar fáeinu íhaldssömu hræður sem engu ráða.

Jú það var hluti af heiðnum trúarbrögðum að hefna sín, en þau eru í raun flóknari en svo.

Svo mikið af lýsingum á heiðnum trúarbrögðum kemur frá óvinum þeirra, klerkum og valdastéttum eftir kristnitökuna víða um heim.

Í heiðnum trúarbrögðum eru bæði guðir sem kenna fyrirgefningu og hefndarskyldu.

Hefndarskyldan býður uppá vítahring hefnda.

Sjálfsvirðing er einnig háð væntingum. Væntingar konu fyrr á tímum voru aðrar en væntingar karla. Væntingar þræla og ambátta ekki þær sömu og væntingar stríðsmanna eða lénsherra.

Nútíminn er ein allsherjar upplausn. Það vantar auðmýktina. Þegar reynt er að brjóta fólk til hlýðni með refsingum sem hafði sjálfsvirðingu byggða á fyrri gildum eða væntingum, þá vaknar hefndarþorstinn og hefndarskyldan.

Mæðraveldið er góð lýsing á nútímanum.

Mæðraveldin til dæmis í Afríku voru oft mikil grimmdarveldi og mestu þjóðfélög grimmdarinnar og morðæðisins.

Mæðraveldin eru ekki kristin.

Mæðraveldi Þjóðkirkjunnar? Á yfirborðinu kristilegt?

Ingólfur Sigurðsson, 9.8.2024 kl. 12:20

2 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Jesús sagði:

Og þegar þér eruð að biðja, þá fyrirgefið, ef yður þykir nokkuð við einhvern, til þess að faðir yðar á himnum fyrirgefi einnig yður misgjörðir yðar.

Ef þér fyrirgefið ekki, mun faðir yðar á himnum ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar. (Mk. 11:25-26).

Jesús sagði:

Biðjið svona: Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. (Mt. 6:12).

Þá sagði Jesús á krossinum:

Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra. (Lk. 23:34).

Guðmundur Örn Ragnarsson, 9.8.2024 kl. 13:24

3 Smámynd: Grímur Kjartansson

Það er mannskemmandi að hafa alltaf allt á hornum sér
Þó svo að einhver geri illilega á hlut þinn þá er alltaf hægt að líta til baka og sjá að eitthvað jákvætt hafi komið út úr því fyrir þig.

Sem persónulegt dæmi get ég nefnt að ég missti vinnuna sem aftur varð til þess að ég gat sinnt móður minni betur síðasta árið sem hún lifði

Grímur Kjartansson, 10.8.2024 kl. 03:26

4 Smámynd: Baldur Gunnarsson

Eitt er reiði, annað bræði. Hugtakið ,,réttlát reiði" varð ekki til að ófyrirsynju. Reiðin hreinsar musterið, sem kunnugt er. Bræðin gerir oss óleik. 

Baldur Gunnarsson, 12.8.2024 kl. 13:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband