Kennarar, menntun og siðareglur

Kennari menntar nemendur, sagði í fyrstu grein siðareglna kennara. Greinarnar voru tólf og tíunduðu meginhlutverk stéttarinnar. Siðareglunum var breytt fyrir tveim árum, haustið 2022.

Nýju siðareglurnar eru tuttugu undir fjórum kaflaheitum. Verðbólgan í regluverkinu er ekki til að auka gæðin heldur skrifa inn í siðareglur viðhorf sem eru andstæð menntun.

Kennari ,,menntar og stuðlar að alhliða þroska" segir í nýju útgáfunni. Menntun er stórt orð en hefur í skólasamhengi hefðbundna merkingu. Aftur er ,,alhliða þroski" til muna víðtækara og býr ekki að sömu hefð og ,,menntun." Orð með óljósa merkingu hafa þann kost að þau má nota út og suður.

Nýju reglunar leggja meira á kennara að því er virðist. Það er eitt að mennta en annað að ,,stuðla að alhliða þroska". Ef um væri að ræða sama hlutinn væri hann ekki tvítekinn. Það er ekki háttur kennara að leggja á sig meiri vinnu án þess að ræða fyrst kaup og kjör. Hér liggur fiskur undir steini.

Markmiðið er ekki að hlaða aukinni ábyrgð á axlir kennara. ,,Alhliða þorski" er þvert á móti afsláttur af menntun. Kennari getur tekið hvaða efni sem er til kennslu undir formerkjum ,,alhliða þroska." Til þess er leikurinn gerður. Menntun er gjaldfelld en hugdettur leiddar í öndvegi.  

Í nýju siðareglunum kemur orðið ,,fjölbreytileiki" tvisvar fyrir en aldrei í þeim eldri. Þar kemst upp um strákinn Tuma. Fjölbreytileiki er annað orð yfir lífsstílskennslu sem er allt annað en menntun. Lífsstíll er einn í dag en annar á morgun; lestur og reikningur breytast ekki dag frá degi.

,,Alhliða þroski" og ,,fjölbreytileiki" eru orð ættuð úr hugarheimi aðgerðasinna sem hafa að markmiði að bjarga heiminum. Menntun er aftur möguleiki einstaklingsins að bjarga sjálfum sér, verða maður meðal manna. Heimsbjörgin hefur fyrir sið að fórna einstaklingnum í þágu æðra markmiðs. Útkoman er alltaf ömurleg.  

Grunnskólakennarar standa höllum fæti í umræðunni. Ástæðan er bág frammistaða íslenskra nemenda í alþjóðlegum samanburði. Einboðið er að þegar forysta kennara vinnur skipulega að stefnubreytingu, sem innleiðir hugdettur og lífsstílskennslu á kostnað menntunar, verður árangurinn ekki upp á marga fiska.

Kennarar ættu að einbeita sér að menntun en láta lönd og leið hugdettu- og lífsstílskennslu. Kennarar sem ætla sér að bjarga heiminum eru vanalega fangar sérvisku sem tekur takmarkað tillit til mennsku og mannlífs.

Hér er skjal með siðareglum kennara. Eldri siðareglur eru neðst í skjalinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Dögg Sverrisdóttir

Í kjarabaráttu grunnskólakennara virðist erfitt að finna viðmiðunarstétt á almenna markaðnum. Forsvarsmenn KÍ hafa ekki getað svarað því og heldur ekki þeir kennarar sem ég hef spurt. Hvaða stétt á almenna markaðnum stuðlar að alhliða þroska barna líkt og foreldrar? Hef ekki fundið hana. Kennarar gera lítið úr starfi sínu með svona breytingum.

Helga Dögg Sverrisdóttir, 29.7.2024 kl. 08:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband