Selenskí opnar á friðarsamninga

Til skamms tíma hafnaði Selenskí Úkraínuforseti öllum friðarviðræður við Rússa. Annað hljóð er komið í strokkinn. Glenn Diesen, norskur stjórnmálafræðingur, sem gerir sér far um að fylgjast með stríðinu, telur mögulegt að friðarsamningar komist á dagskrá.

Friðarvilji í Kænugarði eykst í hlutfalli við æ erfiðari stöðu Úkraínuhers á vígvellinum. Í allt sumar hopar stjórnarherinn víglínuna sem er um þúsund km löng. Undanhaldið er ekki hratt og enn sem komið skipulagt en gæti orðið hratt og óskipulagt með skömmum fyrirvara.

Áður en haustið gengur í garð er raunhæft að Rússar komist að ánni Dnjepr sem sker Úkraínu í tvennt. Tilgáta er að Rússar ætli sér allt land austan ár. Önnur tilgáta er að Pútín hafi augastað á Úkraínu með manni og mús. Þegar hafa Rússar gert fimm héruð í Austur-Úkraínu stjórnskipulega rússnesk. Óhugsandi er að þessi héruð verði á ný úkraínsk í friðarsamningum, nema kannski vesturhluti Kherson sem enn er á valdi stjórnarhersins.

Rússar þvertaka ekki fyrir friðarsamninga en setja sterka fyrirvara. Peskov talsmaður Pútín segir að enn sé óljóst hvort vestrænir bakhjarlar Selenskí vilji í raun frið. Úkraína og Rússland höfðu náð saman um meginatriði friðarsamnings í mars 2022 en Bandaríkin, Bretland og Nató beittu í raun neitunarvaldi, sögðust yfirgefa Selenskí skrifaði hann undir. Rússar bíða eftir skilaboðum úr vestrinu um friðarvilja.

Rússar munu ekki flýta sér að samningaborðinu á meðan þeim gengur flest í vil á vígvellinum. Selenskí á einnig óhægt um vik. Sterk öfl í Úkraínu vilja ekki undir nokkrum kringumstæðum gefa Rússum eftir úkraínskt land.

Það eykur ekki baráttuþrek úkraínska hersins að forsetinn þreifi fyrir sér um frið. Herskyldan er ekki vinsæl í Garðaríki, margur verður nauðugur dáti. Til hvers að fórna lífinu núna ef uppgjafarfriður er á næsta leyti?

Úrslitavaldið um friðarsamninga liggur í Washington. Ástandið þar er aftur hlaðið óvissu sem kenna má við þrjú nöfn, Biden-Harris-Trump. Bandarísk leiðsögn verður bæði mótsagnakennd og ótrúverðug fram yfir forsetakosningarnar í nóvember og ekki traustvekjandi fyrr en eftir embættistöku nýs forseta í ársbyrjun 2025. Opin spurning er hvort úkraínski herinn hafi úthald til áramóta.  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Tiada Ukraina geti s'est að samningaborði þarf þingið að fella úr gildi løg sem banna friðarsamkomulag. Þessi løg voru bara PR-stunt, en eru engu að síður enn í gildi. 

Ragnhildur Kolka, 27.7.2024 kl. 08:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband