Carbfix og tilræðið gegn heilbrigðri skynsemi

Hlutfall koltvísýrings, CO2, í andrúmslofti er 420 ppm. Mælieiningin ppm stendur fyrir hlutfall af milljón. Til að átta sig á samhengi er útöndun meðalmannsins á CO2 um 40.000 ppm (já, 40 þúsund). Hér er auðvitað komin skýring á hvers vegna blóm dafna þegar talað er við þau. Koltvísýringur er aðalfæða plantna.

Tré, blóm og aðrar plöntur taka til sín koltvísýring úr loftinu til vaxtar og viðgangs. Án CO2 er ekkert líf á jörðinni. Skógræktin útskýrir ljóstillífunina prýðilega:

Með ljóstillífun taka plönturnar koltvísýring (CO2) úr andrúmsloftinu, nota kolefnisatómin (C) og losa sig við súrefnishlutann (O2) aftur út í andrúmsloftið. Kolefnisatómin verða þá byggingarefni plantnanna. Trjábolir, greinar og rætur trjánna myndast að verulegu leyti úr kolefni.

Eru lesendur með á nótunum? Koltvísýringur er lífsnauðsynleg loftegund jarðlífinu. Við öndum henni út (40 þús. ppm per fráöndun)  og lofttegundin er aðalfæða plantna. Sveltimörk plantna eru um 150 ppm koltvísýrings. Ef hlutfall CO2 fellur niður fyrir 150 ppm er úti um líf á jörðinni. Kjöraðstæður plantna eru tífalt hærri en sveltimörkin,  um 1500 ppm. Koltvísýringi er oft dælt inn í gróðurhús til að örva vöxt.

Ef menn vilja síður trúa tilfallandi bloggara þá hafa nær 2000 vísindamenn skrifað upp á yfirlýsingu um að koltvísýringur sé lífgjafi jarðarinnar. Það er engin loftslagsvá vegna koltvísýrings í andrúmslofti, segir í yfirlýsingunni. Þvert á móti, jörðin verður grænni alþjóð til hagsbóta. Og sannanlega hefur jörðin grænkað með hækkandi koltvísýringi. En fáar fréttir eru af þeirri þróun.

Það sem meira er: óhugsandi er að manngerður koltvísýringur valdi loftslagsvá eða hamfarahlýnun. Samkvæmt tölum frá Evrópusambandinu eru 750 gígatonn koltvísýrings í umferð í náttúru jarðkringlunnar. Af þessum 750 gígatonnum ber maðurinn ábyrgð á 29 gígatonnum, eða 4 prósent af öllum koltvísýringi í umferð. Maðurinn ber einfaldlega sáralitla, 4%, ábyrgð á koltvísýringi andrúmsloftsins.

En allt í lagi, gefum okkur að þótt maðurinn beri litla ábyrgð á CO2 í andrúmslofti þá sé áhyggjuefni að hlutfall CO2 í andrúmslofti hafi aukist úr um 320 ppm árið 1960 í 420 ppm í ár. Það væri þegnskapur af okkur mannfólkinu að hamla þessari þróun, þótt í örlitlu sé. Til að koma í veg fyrir hamfarahlýnun. Er það ekki?

Nei, engin þörf er á því. Tvöföldun á koltvísýringi, CO2, í andrúmslofti, úr 420 ppm í 840 ppm, myndi aðeins hækka meðalhita jarðar um eina gráðu á selsíus eða svo. Enginn tæki eftir breytingunni. Vísindamennirnir William Happer og Richard Lidnzen staðfesta báðir að tvöföldun á CO2 breytir sáralitlu. Ástæðan er eðlisfræði, kallast mettun.

Víkur þá sögunni að Carbfix, sem er íslenskt fyrirtæki, og ætlar að flytja til Íslands iðnaðarkoltvísýring frá Evrópu og dæla niður, í fljótandi formi, í íslensk berglög við Hafnarfjörð. Hér er um að ræða viðskipti upp á milljarða króna til að taka lífsnauðsynlega loftegund og binda hana í berglög.

Hugmyndafræði, ekki vísindi, er forsendan fyrir viðskiptamódeli Carbfix. Hamfaratrú vegna koltvísýrings í andrúmslofi er opinber stefna Evrópusambandsins. Kosturinn í augum ESB er að það má skattleggja í nafni hugmyndafræðinnar. Lykilorðið er losundarheimild. Iðnfyrirtæki kaupa það sem áður var ókeypis, að láta frá sér koltvísýring. 

Talsmaður fyrirtækisins útskýrir viðskiptahugmyndina:

Markaðurinn sem Carbfix horfir hvað helst til eru iðnfyrirtæki sem geta ekki komið í veg fyrir losun sína með orkuskiptum og þurfa að kaupa dýrar losunarheimildir í evrópska losunarkvótakerfinu (ETS). Með því að fanga losun sína og láta binda hana varanlega í jörðu geta fyrirtækin dregið úr losun í andrúmsloftið og þannig komist hjá því að kaupa losunarheimildir.

Verslun með losunarheimildir eru eins og aflátsbréf kaþólsku kirkjunnar á miðöldum. Í stórum stíl keyptu menn syndaaflausn ósvífinna presta spilltrar stofnunar. Þangað til einn góðan veðurdag að þýskumælandi munkur fletti upp í heilagri ritningu og fann ekki stafkrók um að hægt væri að kaupa sig frá syndinni. Einhver ætti að fletta upp í bók náttúrunnar og segja gáfnatröllunum í Brussel að koltvísýringur sé forsenda lífs á jörðinni. Eins og á miðöldum ræður ferðinni hagkvæm heimska. Lýðurinn skal strita og trúa á meðan valdhafar kenna að hvítt sé svart og fleyta rjómann.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Þessar 8 málsgreinar af formála eru ónauðsynlegar, vegna þess að: "Hugmyndafræði, ekki vísindi, er forsendan fyrir viðskiptamódeli Carbfix."

Ekki bara hugmyndafræði: trúarbrögð.

Þú hefur tekið eftir því að þeir segja alltaf: "þessi trúir ekki á loftslagið."

Þeir láta ekki af þessu fyrr en fólk fer í stórum stíl að hafna þeim.  Sem er smám saman að gerast - þó það sé alltof hægt.  Og pólitíksuarnir eru enn trúaðir, vegna þess að þeir umgangast ekki venjulegt fólk.

Ef þeir umgengjust venjulegt fólk þá hefðu þeir ekki allir samþykkt að láta gelda alla sem hafa náð 15 ára aldri eða tekið þátt í styrrjöld við Rússa fyrir okkar hönd.

Og margt fleira.

Ásgrímur Hartmannsson, 16.7.2024 kl. 10:40

2 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Svo satt og rétt Páll.

Hef haldið þessu sama fram í mörg ár.

Sigurður Kristján Hjaltested, 16.7.2024 kl. 13:33

3 Smámynd: booboo

Getur verið að vísindakennningar Carbfix um að fljótandi koltvísýringurinn muni skyndilega breytast í berg í iðrum jarðar vera sannar? Hafa "vísindamenn" ekki oft haft rangt fyrir sér?

Verður koltvísýringurinn hreinn eða blandað þungamálmum og jafnvel geislavirkum efnum? Hver á að fylgjast með því og er það hægt?

Ef niðurdæling í jörðu á Íslandi er að sögn Carbfix án áhættu, hvers vegna gera stórfyritækin það ekki á heimaslóð? Treystum við stórfyritækjum sem svífast einskis í nafni fjármagnsins og treystum svokölluðum vísindamönnum Carbfix sem horfa á lofslagsmál sem trúarbrögð?

booboo , 16.7.2024 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband