Hiti, kuldi og hamfaratrú

Á Austurlandi er hamfarahlýnun síðustu daga. Nánast á sama tíma er hamfaraúrhelli á Snæfellsnesi. Til að bæta gráu ofan á svart var nýliðinn júní kaldur á öllu landinu, einkum norðaustanlands, segir okkur Veðurstofan.

Ísland er lítil eyja á Atlantshafi norðanverðu. Skyldi ætla að á jafn litlu flatarmáli væri eins og eitt veðurkerfi sem mætti kalla íslenskt er gæfi upplýsingar um hvort fósturjörðin væri á leið í hamfaraskeið vegna kulda eða hlýinda. Nú eða að veðurfar væri tiltölulega stöðugt með smávegis frávikum annað veifið.

En sá sem leitar að íslensku veðurfari, stöðu og horfum, fer bónleiður til búðar. Ekki einu sinni grunnatriði eins og meðalhiti á landinu liggur á lausu. Meðalhiti er reiknaður og gefinn út á einstökum stöðum, t.d. Akureyri, Stykkishólmi og Reykjavík, en ekki landinu öllu.

Hvers vegna skyldi svo vera?

Jú, meðalhiti á Íslandi er merkingarlaus tala, skiptir ekki máli í neinu samhengi. Og er þess vegna ekki reiknuð og kynnt. Einfalt ætti að vera reikna meðalhita Íslands út en það þjónar engum tilgangi.

En bíðum við. Er ekki svo að á heimsvísu sé þróun hitafars okkur lifandi að drepa? Áður en spurningunni er svarað skal hyggja að hita- og kuldametum á henni móður jörð. Mesti hiti í heiminum nokkru sinni mældist í Kaliforníu, 56,7 °C,  og sá lægsti á Suðurskautinu, -89.2 °C. Þarna á milli eru um 145 gráður. Vatn sýður við hundrað gráður. Dettur einhverjum í hug að spyrja um sameiginlegan meðalhita Kaliforníu og Suðurskautsins?

Veðurkerfi Kaliforníu er annað en á Suðurskautinu. Kjánalegt að þurfa skrifa jafn augljósa staðreynd. En hún er kjarni málsins. Ísland stendur tæplega undir einu veðurkerfi. Jarðkringlan okkar hefur mörg veðurkerfi.

Er þá einhver merking í setningu eins og ,,heimurinn er að hlýna"? Nei. Það getur hlýnað í Kaliforníu, hiti verið stöðugur í Reykjavík en kólnað á Suðurskautinu. Útreikningur á sameiginlegum meðalhita þessara þriggja staða er tilgangslaus heilaleikfimi. Meðalhitinn upplýsir ekki um eitt eða neitt. Sagt með öðrum orðum: það er ekki til neitt sem heitir heimsveðurfar. Heimshlýnun er hugtak án innihalds. Svona eins og vísindalegur marxismi.

Áróðurinn um hamfarahlýnun á heimsvísu er hugmyndafræði en ekki vísindi. Tilfallandi er enginn sérfræðingur í loftslagsmálum en reynir að lesa sér til gagns. Það sem segir hér að ofan er útfærsla á grein Richard Lindzen sem er vísindamaður ólíkt Grétu Thunberg og bernsku hjörðinni sem fylgir henni. Lindzen á að baki 60 ára vísindaferil í rannsóknum á veðurfari. Loftslagsvísindi eru, eins og segir í greininni, nokkru yngri eða um 40 ára. Þau urðu vinsæl eftir fall kommúnismans og sækja flesta liðsmenn úr röðum vinstrimanna. Hugmyndafræði sem sagt, ekki vísindi. 

 


mbl.is „Ég hef aldrei séð annað eins veður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband