Sunnudagur, 14. júlí 2024
Jesú í Berlín og Moskvu en ekki Washington
England og Spánn keppa í dag um Evrópumeistaratitilinn í knattspyrnu í höfuðborg Þýskalands. England hefur ekki unnið stóran titil í íþróttinni síðan 1966, bráðum mannsaldur. Telegraph, veraldleg bresk útgáfa lítt kunn fyrir trúarákefð, segir kristna knattspyrnumenn meira áberandi í landsliðshópi Englands en löngum áður. Nefndir til sögunnar eru Marc Guéhi, Bukayo Saka, Eberechi Eze og Ivan Toney.
Fréttin ræðir vaxandi kristni meðal enskra knattspyrnumanna. Miðlæg eru kristin samtök, Sports Chaplaincy UK, sem sinna andlegri leiðsögn íþróttamanna. Samtökin segjast hafa tengsl við 160 þúsund félög og 30 milljónir einstaklinga. Nokkuð öflugt sé haft í huga að fyrirtækið er ekki nema liðlega þrítugt.
Tilfallandi var ókunnugt um kristniboð meðal íþróttamanna og aukinn trúaráhuga. Burtséð frá knattspyrnuleiknum í dag er áhugavert að velta fyrir sér hvað valdi. (Innan sviga, áður en horfið er frá fótbolta, er þess að geta að Spánverjar eiga kristna innan sinna raða er signa sig ótt og títt að hætti kaþólikka).
Úkraínustríðið er með trúarstef, sem ekki fer hátt. Utanríkisráðherra Póllands, RadosÅ‚aw Sikorski, gerði kristna stefið að umtalsefni í ræðu eftir leiðtogafund Nató í Bandaríkjunum. Sikorski er menntaður í Bretland og Bandaríkjunum og var breskur ríkisborgari áður en hann varð fyrst pólskur ráðherra, árið 2006. Sikorski á bandaríska eiginkonu, Önnu Applebaum, sem er kunnur blaðamaður og sagnfræðingur. Sikorski er, með öðrum orðum, vel læs á engilsaxneskan menningarheim. Líkt og títt er um pólska stjórnmálamenn er utanríkisráðherranum ekki um það gefið að Rússland eflist. Í sögulegu samhengi veit sterkt Rússland á veikt Pólland. Orðhvatur álitsgjafi myndi e.t.v. segja Sikorski haldinn stæku Rússahatri. Tilfallandi segir það eitt að sá pólski sé gagnrýninn á rússnesk áhrif.
Sikorski er sem sagt mættur á fyrrum heimavöll, hugveituna American Enterprise Institute, sem iðulega er kennd við nýhægrið eða kaldastríðshægrið. Eftir að hafa lesið yfir áheyrendum þau mörgu mistök sem gerð voru eftir að kalda stríðinu lauk, einkum og sér í lagi að leyfa Rússlandi að eflast, snýr pólski utanríkisráðherrann sér að goðsögnum sem Pútínstjórnin hefur með árangri selt á vesturlöndum.
Fyrsta, og líklega þá mikilvægasta, mýtan er að Rússland undir Pútín sé bólverk kristinna gilda er uxu frá gyðingdómi.
Veraldlega vestrið óttast ekki áhrif rússnesku réttrúnaðarkirkjunnar sem slíkrar. Sú kirkjudeild er miðaldaarfur, líkt og sú kaþólska (sem þorri Pólverja aðhyllist), heldur hitt að Rússland og Pútín forseti standi fyrir eitthvað sem vestrið hefur að stórum hluta glatað.
Hvað gæti það verið? Tilfallandi gisk er að trúarleg, og þá um leið siðferðileg, afstæðishyggja í vestrinu sé í þann veginn að ganga sér til húðar. Þar liggi skýring óttans við meint kennivaldi Kremlarherra.
Undir merkjum menningarlegu afstæðishyggjunnar var kristnum trúar- og siðferðisgildum varpað fyrir róða. Án þeirra óx og dafnaði, síðasta mannsaldur eða svo, sérviskuleg hópsálarhugmyndafræði sem kennir að mannkynið sé tvískipt, í drottnara og fórnarlömb. Inngildingin, svo notað sé tískuorð hópsálanna, snýst um að úthýsa úr mannlegu samfélagi drottnurum til að fórnarlömbin fái loksins, loksins Paradísarheimt.
Hugmyndafræðin lofsyngur botnfallið. Mestu fórnarlömbin eru verðugust. Aumingjavæðing og ofgnótt haldast í hendur. Hópsálin dýfir ekki hendi í kalt vatn. Ofsóttir eiga það inni að drottnarar skaffi þeim lífsgæðin.
Einn þráður í kristni er aumingjagæska. Nietzsche gerði þeim þræði skil. Sá þýski hlóð þó ekki undir hópsálina, öðru nær. Verðugur er sá sem lætur ekki múginn teyma sig á asnaeyrunum.
Burtséð frá persónulegri trúarsannfæringu, t.d. ensku landsliðsmannanna, er ekki líklegt að kristni, í merkingunni almennt vaxandi trúarákefð, móti vestræna menningu næstu áratuga. Né heldur að Pútín fái ímynd krossfarariddara.
Í loftinu liggja þó menningarleg veðrahvörf. Er ráðandi viðmið sýna veikleikamerki er afturhvarf til eldri gilda fyrsta viðbragðið. Jesú gæti dúkkað upp í Berlín eða Moskvu en borgin hans er Jerúsalem, sem samtíð Snorra Sturlusonar taldi miðpunkt heimsins. Pólitísk, menningarleg og enn að nokkru leyti efnahagsleg miðja heimsins liggur í vestri.
Gildi sem blífa eru iðulega tengd einstaklingum, samanber heimstrúarbrögðin. Yfirfært á samtíma okkar eru það stjórnmálamenn sem gefa hugmyndastefnum nafn. Í nótt var reynt að ráða af dögum mann sem fyrir undarlega rás atburða er kominn á helgistall. Sést á því að bæði heimsmiðlarnir og héraðsfréttamiðlar á Fróni nota ekki orðið banatilræði. Dauði og Trump eru gerðar andstæður, jafnvel af þeim sem leggja mesta fæð á manninn, sem eru talsmenn hópsálarinnar.
Athugasemdir
Vestrænir femínistar tóku margskonar arf frá Þriðja Ríkinu, og þá helzt þá sannfæringu að Evrópumaðurinn væri drottnari og herra jarðarinnar, en einnig innrætingaraðferðir og fórnarlambahugmyndir, sem nú aðeins eru heimfærðar á konur.
Annaðhvort ná trúlaus Vesturlönd að umbylta fólkinu sem þangað flyzt, eða að trúlaust Vesturlönd munu verða kúguð af fólkinu sem yfirtekur Vesturlönd alveg með tímanum, því til að halda stöðu sinni þarf aukinn mannfjölda.
Ekki er nóg með að fæðingum fækki í Evrópu og fólkið eldist og deyi út. Arnar Sverrisson hefur ritað um að heimskan eykst í Evrópu, greindarvísitalan minnkar með nýjum kynslóðum. Menntakerfið er úr sér gengið og niðurnjörvað í woke siðfræði, þar sem afbragðsnemendum er refsað og þeir flæmast úr skólum, en það eru jafnan ungir karlmenn. Eftir standa lélegustu nemendurnir og miðlungs, konurnar jafnan.
Gott dæmi er Bretland. Það þurfti indverskan mann til að standa sig sæmilega sem forsætisráðherra. Kvenréttindin hafa gert innfædda menn að börnum í anda, eins og Boris Johnson.
Vesturlönd eru í svo miklum vanda og djúpum skít, að erfitt er að sjá hvar vonin ætti að vera.
Jafnvel Trump gengur ekki nógu langt. Hugmyndafræði hans seinkar aðeins hnignuninni, stöðvar hana ekki. Jafnvel Pútín er ekki raunveruleg björgun, ef hans áhrifa nytu við myndi aðeins líka hægja á hnignuninni.
Svo mikil hefur eyðileggingin orðin á evrópskri menningu, því sú hugmynd að jafna stöðu allra, merkir í raun hið danska landslag, að fletja allt út. Andlegu stórmennin fá ekki að blómstra. Ekki er tekið mark á þeim.
Þjóðfélögin í Vestrinu í afturför.
En margt ágætt er í pistli þessum.
Ingólfur Sigurðsson, 15.7.2024 kl. 01:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.