Laugardagur, 29. júní 2024
Pútín-áhrifin 2016 og 2024
Er Trump náði kjöri til forseta Bandaríkjanna árið 2016 sem Pútín Rússlandsforseti sagður ábyrgur. Um líkt leyti, t.d. í Brexit-kosningunum sama ár og í þingkosningum víða í Evrópu um miðjan síðasta áratug, var Pútín sagður dularfullt afl að tjaldabaki. Allt kjörtímabil Trump var forsetinn strengjabrúða húsbóndans í Kreml, samkvæmt ríkjandi umræðu.
En nú ber svo við að sáralítið er skeggrætt um áhrifa Rússlandsforseta á kosningar á vesturlöndum. Kosningar eru í Bandaríkjunum í haust og næstu daga eru þingkosningar Bretlandi og Frakklandi. Af fréttum að dæma hefur Pútín misst áhrifavaldið í vestrinu er hann naut þar til fyrir skemmstu.
Pútín hafði aldrei nein þau tök á stjórnmálamenningu vesturlanda að orð hans og gjörðir skiptu máli í almennum kosningum í vestrinu. Né heldur gat hann töfrað fram fylgi við þennan eða hinn frambjóðandann. Engu að síður voru fréttamiðlar uppfullir af efni þar um, að Pútín á bakvið tjöldin væri örlagavaldur vestrænna stjórnmála.
Nú þegar rússneskur her er á vígaslóð í Úkraínu ætti fréttaspuninn um áhrifavald Pútín í vestrænum ríkjum að vera í yfirgír. Fyrst Úkraína, síðan Pólland, þá Þýskaland og loks Frakkland og Bretland í kippu, væri rauður þráður. En fáir reyna sig við spunagerðina og enn færri trúa.
Íslandsvinurinn Nigel Farage í Bretlandi, sem líklega mun tryggja verstu kosningaúrslit Íhaldsflokksins í manna minnum, gerði vestræn mistök í Úkraínu að umtalsefni, sjá hér og hér. Farage fær það eitt bágt fyrir að Rishi Sunak forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins ásakar Íslandsvininn um friðþægingarstefnu gagnvart Pútín. Hvers vegna er Farage ekki kjöldreginn sem vígður og smurður Moskvuagent? Tjargaður síðan og fiðraður og kastað út í ystu myrkur?
Er blekkingin um Pútín-áhrifin á vestræn stjórnmál svo fullkomlega gengin sér til húðar að menn nenna ekki lengur þykjustuleiknum sem tröllreið húsum nánast í gær? Og hvernig í veröldinni stóð á því að margir prýðilega greindir trúðu spunanum? Pútín býður ekki upp á neina hugmyndafræðilega útflutningsafurð, líkt og kommúnistar fyrrum. Í hugmyndafræði er sá rússneski fermingarpiltur, sveitalegur í þokkabót.
Hvers vegna var búin til goðsögnin um áhrifavald Kremlarbónda á vestræn stjórnmál um miðbik síðasta áratugar? Hvað var að gerast í alþjóðastjórnmálum? Jú, það verkefni að gera Úkraínu að Nató-ríki var komið á framkvæmdastig. Stjórnarbylting var gerð í Kænugarði í febrúar 2014, að vestrænu undirlagi. Úkraínudeilan, sem varð að fullveðja stríði fyrir tveim árum, krafðist yfirmáta öflugs andstæðings. Þannig varð til Pútín-grýlan.
Mýtan um áhrif Pútín á vestræn stjórnmál er hönnuð raðlygi til að þjóna hrokafullri stefnu um að alþjóðavæða heimsbyggðina. Stefnan beið skipbrot í Írak, Sýrlandi, Afganistan og nú síðast í Úkraínu. Átthagarnir eru ofar í vitund almennings en heimsþorpið.
Í vestrinu blasir við pólitísk upplausn. Viðtengd frétt um að vinstrifrjálslynda útgáfan New York Times krefjist afturköllunar á forsetaframboði Biden er ein birtingarmynd upplausnarinnar. Örvænting Macron í Frakklandi, að efna til skyndikosninga, er önnur; sú þriðja er fyrirsjáanlegt stórtap Íhaldsflokksins breska. Jafnvel á litla Íslandi sjást sömu vísbendingar - Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 15 prósent fylgi.
Pútín ber enga ábyrgð á vestrænum stjórnmálum. Aftur er lygafabrikkan um ofurvald Kremlarbónda yfir vestrænni siðmenningu hluti skýringarinnar á ráðleysinu í vestri. Átthagapólitíkin sem Pútín stendur fyrir er andstæða vestrænnar alþjóðahyggju. Þar liggur hundurinn grafinn.
New York Times vill að Biden hætti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Allir sem féllu flatir fyrir Davos og Zelensky leiksýningunum eru nú á útleið. Allt frá Finnlandi til Nýja Sjálands. Lygarnar um dominoáhrif ef Rússland sigrar Ukrainu virka ekki lengur frekar en covid-bólusetningarnar og Namibiumúturnar. Þeir sem koma í staðinn verða að passa sig á að falla ekki í sömu gryfjuna.
Ragnhildur Kolka, 29.6.2024 kl. 13:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.