Sakborningafrétt á RÚV, fréttamaður í felum

RÚV sagði í hádegisfréttum í gær tíðindi af byrlunar- og símastuldsmálinu, kallaði það raunar skæruliðamál. Sakborningar voru tíundaðir,  blaðamennirnir Aðalsteinn Kjartansson, Arnar Þór Ingólfsson, Ingi Freyr Vilhjálmsson, Þórður Snær Júlíusson og Þóra Arnórsdóttir.

Um nýjasta liðsmann fréttastofu RÚV, Inga Frey Vilhjálmsson, sagði þetta:

Lengst af var talið að sakborningarnir væru fjórir en Ingi Freyr var upplýstur um stöðu sína sem sakborningur í mars 2023.

Hvers vegna var ekki sagt að Ingi Freyr er nýráðinn fréttamaður á RÚV? Bæði Vísir og mbl.is sögðu frá en RÚV þegir.

Fréttin á RÚV er á fagmáli kölluð ekki-frétt. Ekkert nýtt er í fréttinni, aðeins sagt að lögreglurannsókn standi enn yfir og ekkert sé að frétta. Ekki-fréttir urðu til á öld prentmiðlunar og þjónuðu þeim tilgangi að fylla upp í autt pláss dagblaða.

Stafrænir fjölmiðlar þurfa ekki að fylla upp í autt pláss. Það yrði aðeins einni frétt færra, enginn tæki eftir að ekki-frétt vantaði. Fréttin er vikugömul, það kemur fram í textanum. Einhverra hluta vegna var fréttin skrifuð og birt í gær. Eina fréttnæma atriði ekki-fréttarinnar er að sakborningur fær starf á fréttastofu ríkisfjölmiðilsins. En það efnisatriði var ritskoðað úr fréttinni.

Hvers vegna er ráðning Inga Freys feimnismál á fréttastofunni? Jú, með mann grunaðan í lögreglurannsókn á fréttastofu verða allar fréttir um sakamál tortryggilegar og eftir því ótrúverðugar. Sakborningur á ritstjórn fjölmiðils er alltaf líklegur til að láta fréttamat litast að réttarstöðu sinni. Sama gildir um samstarfsfélaga. Vanhæfi birtist hér í sinni skýrstu mynd.

Furðulegt háttalag hunds um nótt kemur fyrir í spæjarasögu Sherlock Holmes. Hundurinn gelti ekki að óvelkomnum gesti. Fréttastofa RÚV geltir ekki en birtir frétt sem opinberar óviðunandi og ólíðandi ástand, að grunaður um glæp fái dagskrárvald á ríkisfjölmiðli. Opin spurning er hvort ekki-fréttin sé skrifuð til að afhjúpa ófremdarástand RÚV eða hvort um er að ræða fingurbrjót.

Hreiðar Örn Sigurfinnsson fréttastjóri RÚV svaraði fyrirspurn sem var beint að honum og sagði síðdegis í gær:

Ingi Freyr er með tímabundna ráðningu hjá RÚV og því ekki ráðinn til starfa á grunni auglýsingar. Að öðru leyti hefur RÚV ekki forsendur til að svara spurningum þínum.

Ef fréttastjórinn siðprúði fer með rétt mál varpar það ljósi á hörmungarstöðu Heimildarinnar. Ingi Freyr var þar í föstu starfi en hættir til að fá tímabundna vist á RÚV. Vel að merkja, RÚV leikur oft þann leik að ráða tímabundið, auglýsa síðar stöðuna og fastráða þann lausráðna með þeim rökum að hann sé með reynslu í starfið.

Ingi Freyr býr ekki að neinni reynslu í ljósvakamiðlun. Stefán útvarpsstjóri taldi aftur nauðsynlegt að ráða blaðamann Heimildarinnar. Var mannaráðningin endurgjald fyrir greiða er Stundin/Heimildin tók við Helga Seljan? Helgi varð persona non grata á RÚV eftir að lögreglurannsókn hófst á byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar, stuldi á síma hans og afritun.

Í stað þess að fjölmiðlar upplýsi afbrot og siðlausa háttsemi í samfélaginu skjóta þeir skjólshúsi yfir grunaða menn. Í hinu orðinu segjast fjölmiðlar hornsteinar lýðræðis. Á Efstaleiti eru á sveimi skringilegar hugmyndir um lýðræðið.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Það verður varla hreinsað út í Efstaleiti öðruvísi en með að leggja starfsemina niður-en toto-. Spilling og hilmingar eru svo alls ráðandi. 

Ragnhildur Kolka, 25.6.2024 kl. 10:17

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Maður vill fá sitt gamla RÚV til baka sem endaði 2008 þegar þulurnar voru reknar og þetta skipulag byrjaði. Maður vill Spaugstofuna, Af fingrum fram, og þannig þætti, ekki Með okkar augum eða eitthvað fjölmenningarefni.

Ef ekki er hægt að treysta stofnuninni RÚV fyrir að sjá um innra hlutleysi eins og gert er ráð fyrir verður ríkisstjórnin að setja lög, hægrimenn fái 4-8 ár og vinstrimenn það sama. Það myndi þýða að skipt yrði um starfsfólk á 4-8 ára fresti frá grunni.

Ekki lízt mér á að leggja RÚV alfarið niður. En margt er hægt að gera, og róttækt þarf það að vera.

Ingólfur Sigurðsson, 25.6.2024 kl. 14:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband