Þórður Snær: byrlun og símastuld á ekki að rannsaka

Fyrir fjórum dögum skrifaði Þórður Snær ritstjóri Heimildarinnar (áður Stundin og Kjarninn) um byrlunar- og símastuldsmálið, þar sem fimm blaðamenn eru sakborningar. Ritstjórinn skrifaði á X, áður Twitter.

Þórður Snær má vita að eftirspurn er eftir upplýsingum frá honum um atburðarásina í lok apríl og fram að 21. maí árið 2021. Helstu staðreyndir eru kunnar:

  • Í apríl 2021 kaupir Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV Samsung síma, samskonar og Páls skipstjóra Steingrímssonar. Þóra fær á símann númerið  680 2140, en símanúmer Páls er  680 214X
  • 30. apríl hættir Aðalsteinn Kjartansson fyrir hádegi hjá Þóru á Kveik. Eftir hádegi er hann kominn í vinnu á Stundinni, segist ekki hættur ,,rannsóknablaðamennsku." Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri RÚV skrifar til Aðalsteins á Facebook að hún voni að ,,RÚV pásan verði stutt."
  • 3. maí er Páli skipstjóra byrlað heima á Akureyri. Daginn eftir er flogið með skipstjórann á gjörgæslu Landsspítalans í Fossvogi, skáhallt á móti höfuðstöðvum RÚV á Efstaleiti. Þáverandi eiginkona Páls byrlaði og stal síma skipstjórans. Stafrænn búnaður í síma Páls sýnir að farið var með hann á Efstaleiti til afritunar. Símanum er skilað á sjúkrabeð skipstjórans sem var meðvitundarlaus.
  • 14. maí kærir Páll skipstjóri til lögreglu að sími hans hafði verið í þjófahöndum á meðan hann var milli heims og helju. Grunsemdir vöknuðu eftir að hann komst til meðvitundar og skoðaði símann sinn. Skipstjórinn er ágætlega tæknilæs.
  • 20. maí hringir Þórður Snær í Pál skipstjóra kl. 14:56. Ellefu mínútum síðar, kl. 15:07, hringir Aðalsteinn í skipstjórann. Páll bjóst við að einhverjir blaðamenn myndu gera vart við sig, farinn að þekkja vinnubrögðin eftir marga glímuna við þá á opinberum vettvangi. Skipstjórinn tók símtölin upp og sendi til lögreglu enda jafngilda þau sakbendingu. Erindi blaðamanna var að spyrja um persónuleg gögn sem þeir sögðust hafa komist yfir og varða samskipti skipstjórans við vinnufélaga. Í reynd voru símtölin formsatriði. Á Efstaleiti var búið að skrifa fréttina.
  • 21. maí snemma morguns birta Kjarninn og Stundin sömu fréttina í tveim útfærslum. Skæruliðadeild Samherja kemur fyrir í báðum fyrirsögnum. Þórður Snær og Arnar Þór Ingólfsson eru skráðir höfundar fréttar Kjarnans en frétt Stundarinnar er merkt Aðalsteini. Kvenleg smásmygli er á skipulaginu. Texti fréttanna er með austfirsku yfirbragði.
  • 5. október mætir fyrrum eiginkona Páls í fyrstu yfirheyrsluna. Blaðamenn átta sig á að lögreglan er komin á sporið. Blaðamenn gera ýmsar ráðstafanir en engar til að upplýsa sakamálið.
  • 14. febrúar 2022 fá fjórir blaðamenn stöðu sakborninga: Þórður Snær, Aðalsteinn, Þóra og Arnar Þór. Fjórmenningarnir eru boðaðir í yfirheyrslu lögreglu en mæta ekki fyrr en sex mánuðum síðar, í ágúst. Síðar fær Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður á Stundinni/Heimildinni einnig stöðu sakbornings.

Ofanritað eru þekktar staðreyndir. Samhengi þeirra er ekki upplýst. Þórður Snær er óopinber talsmaður sakborninga, hann talar en hinir þegja. Færsla Þórðar Snæs á X (Twitter) fyrir fjórum dögum er í sjö hlutum. Í stað þess að útskýra samhengi þekktra staðreynda, skrifar ritstjórinn sjö sinnum að byrlun og símastuld eigi ekki að rannsaka. Starfshættir blaðamanna komi engum við nema þeim sjálfum. Það er mótsögn að halda fram að blaðamenn þjóni almannahagsmunum annars vegar og hins vegar að þeir upplýsi ekki refsimál er þeir hafa vitneskju um. Blaðamenn hafa ekki sérstaka heimild til að stunda afbrot við að afla frétta.

Sakborningar og blaðamenn nálgast fréttaefni frá ólíkum forsendum. Sakborningur í hlutverki blaðamanns getur aldrei talist trúverðugur. 

Í aukavinnu er Þórður Snær verktaki á RÚV, mætir vikulega að ræða viðskipti- og efnahagsmál í útvarpi. Í vor gaf Stefán Eiríksson útvarpsstjóri út reglur um meðferð upplýsinga er varða ,,lögbrot og/eða aðra ámælisverðra háttsemi í starfsemi RÚV." Reglurnar taka til starfsmanna RÚV sem og verktaka og hafa skýran tilgang:

Markmið reglnanna er að stuðla að því að upplýst verði um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi RÚV.

Þórður Snær ætti að taka hvatningu Stefáns útvarpsstjóra, panta tíma hjá lögreglu og segja það sem hann veit um atburðina í apríl og maí fyrir þremur árum. Blaðamenn eiga að upplýsa, ekki hylma yfir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband