Sunnudagur, 2. júní 2024
Svarti svanurinn Halla Tómasdóttir
Kynrænt sjálfræði reið ekki feitum hesti frá forsetakosningunum 2024. Stuðningsmenn Baldurs yfirgáfu hann í massavís til að hindra framgang Katrínar á Bessastaði. Kynrænt sjálfræði er lagaheitið á transmenningunni sem Katrín innleiddi með lögum 2019 og Baldur er fulltrúi fyrir, bæði í Reykjavík og Berlín.
Náttúruvernd fékk einnig á kjaftinn. Halla Hrund er 21stu aldar útgáfa af Sigríði í Brattholti. Halla Hrund ætlaði að beita neitunarvaldi á einkavæðingu Landsvirkjunar, líkt og Sigríður kom í veg fyrir að Gullfossi yrði sökkt í byrjun síðustu aldar. En nei, stuðningsmenn Höllu Hrundar, líkt og bakland Baldurs, töldu brýnast að Katrín yrði ekki forseti. Lagði Katrín þó á sig eyðimerkurgöngu að Ok, litlu jökulnefnunni sem hávaðafólkið í hamfarakórnum kallar til vitnis um manngerða hlýnun jarðar.
Sigurvegarinn, Halla Tómasdóttir, er fulltrúi viðskipamenningarinnar. Hún var formaður Viðskiptaráðs og fundarstjóri á Baugsdeginum kortéri fyrir hrun. Græða yfir daginn, grilla á kvöldin. Nú heitir það reyndar að ,,uppfæra viðmið".
Í vísindaheimspeki er til hugtakið svarti svanurinn. Það vísar til óvæntrar niðurstöðu sem byltir skilningi manna á fyrirbærum er áður þóttu fullnumin. Á yfirborðinu átti Katrín að verða forseti. Undirmál kosningabaráttunnar, þar sem þjóðarsálin geymir sig og kannanir nema ekki, voru: Við viljum ekki Katrínu drottningu, þótt hún sé alls góðs makleg.
Halla hefur alla burði til að verða góður og farsæll forseti. Hún er heimsvön eiginkona og tveggja barna móðir. Hálfsextug tekur hún við embætti og lætur það vonandi ekki af hendi fyrr en á níræðisaldri. Þjóðhöfðingjar eiga að sitja lengi og eldast fallega.
Halla: Mér líður ótrúlega vel | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sjálfstæðisflokkurinn og Mogginn með Friðjón í broddi fylkingar komu snilldarlega í veg fyrir að stalínistinn Katrín yrði næsti forsreti. Takk kærlega!
Júlíus Valsson, 2.6.2024 kl. 22:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.