Sigríður Dögg ver Moggamann, vantar nýja vini

Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður Blaðamannafélags Íslands tekur upp hanskann fyrir blaðamann Morgunblaðsins, Stefán Einar Stefánsson, eftir að að honum var sótt fyrir vasklega framgöngu við að þýfga forsetaframbjóðendur um erindi þeirra á Bessastaði. Sigríður Dögg hlaut formannskosningu með fulltingi RÚV-ara og Heimildarmanna, eða sakborningabandalagsins.

Ónýtt blaðamannafélag tekur aldrei til varna fyrir blaðamenn Morgunblaðsins, segir Viljinn og má til sanns vegar færa. Hingað til hefur bakland Sigríðar Daggar og hún sjálf fundið Morgunblaðinu allt til foráttu. En nú ber nýrra við. Hvers vegna? Jú, ástæðan er hamingjuskipti á fjölmiðlamarkaði sem lítt eru kunn almenningi. Innherji eins og formaður BÍ les skriftina á veggnum og leitar nýrra vina.

RÚV er komið í dauðaspíral og verður ekki þaðan bjargað. Framundan á Efstaleiti er löng dauðahrygla. Maríumál Sigrúnar síðustu tíu daga sýna svo ekki verður um villst að RÚV er höfuðlaus her. Einn millistjórnandi RÚV tók af dagskrá frétt Maríu Sigrúnar um lóðaspillingu Reykjavíkurborgar í þágu olíufélaganna en sá næsti setti hana inn. Skipstjórinn á skútunni, Stefán útvarpsstjóri, er hvergi sjáanlegur en kippir í strengi á bakvið tjöldin. Stefán er viðriðinn ráðhússpillinguna, var borgarritari og staðgengill Dags borgarstjóra olíuörláta. Í ofanálag er Stefán búinn að gefast upp á að stjórna Efstaleiti, ætlar ekki að sækja um er skipunartími hans rennur út að ári.

Krafa á alþingi um að RÚV rannsaki þöggunartilburði á frétt sem sannanlega átti erindi til almennings verður ekki auðveldlega sniðgengin. Viðbúið er að á stjórnarfundi RÚV verði útvarpsstjóri krafinn skýringa. Trúverðugar skýringar liggja ekki á lausu. Stefáni verður ekki kápan úr klæðinu að humma málið fram af sér. Það er orðið of stórt. Ítarleg opinber skýring á atburðarásinni þarf að koma fram.    

Millistjórnendur vita að nýr samningur menntamálaráðuneytis og RÚV leiðir til tekjuskerðingar sem aftur kallar á uppsagnir næsta haust og vetur. Þeir sem koma illa undan Maríumáli Sigrúnar vita hverjum klukkan glymur, undirmenn þeirra einnig. Það veit á hjaðningavíg innanhúss er niðurskurðarhnífurinn fer á loft.

Þegar lögreglurannsókn lýkur á byrlunar- og símastuldsmálinu verður aðild RÚV skjalfest í dómsgögnum. Sími Páls skipstjóra Steingrímssonar var afritaður á Efstaleiti. Þóra Arnórsdóttir fyrrum ritstjóri Kveiks keypti Samsung-síma, sams konar og skipstjórans, sem var til reiðu fyrir byrlun og stuld. Þá voru starfsmenn Kveiks, Þóra og Helgi Seljan, í reglulegum samskiptum við þáverandi eiginkonu skipstjórans, sem sá um byrlun og stuld.

Namibíumál RÚV liggur heiladautt hjá héraðssaksóknara. Það mál er höfundarverk Þóru, Helga og Aðalsteins Kjartanssonar frá 2019. Drykkjuraus ógæfumanns varð átylla fyrir herför að saklausu fólki. Þegar héraðssaksóknari gefur út dánartilkynningu Namibíumálsins verður spurt um ábyrgð RÚV.

Í stuttu máli: engar góðar fréttir við sjóndeildarhring RÚV, aðeins stormar og illviðri svo langt sem augað eygir. Liðsstyrkur RÚV verður æ minna virði, og það veit Sigríður Dögg.

Heimildin, áður Stundin og Kjarninn, er hin meginstoð Sigríðar Daggar. Þar starfa fjórir, mögulega fimm, sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu. Heimildinni er haldið uppi af auðmönnum sem kaupa magnáskrift til að fá frið fyrir hælbítum eins og Helga Seljan, Þórði Snæ og Aðalsteini Kjartanssyni. Vígtennur félaganna eru aftur orðnar bitlausar. Heimildin kemur út vikulega í jarðafarabúningi. Aðrir fjölmiðlar snerta ekki á fréttum grunaðra um glæp enda trúverðugleiki sakborningablaðamanna í ruslflokki.

(Innan sviga um Heimildina. Hvernig dettur blaðamönnum í hug að þeir komist upp með að þegja í hel sakamál þar sem þeir sjálfir eru grunaðir? Ritstjórn Heimildarinnar veit nákvæmlega hvað gerðist í maí 2021 þegar skipstjóranum var byrlað, hvernig afritun á síma hans var háttað og hvernig gögnin rötuðu frá Efstaleiti til Stundarinnar og Kjarnans. Hvers vegna upplýsa þeir ekki málið? Það er hlutverk blaðamanna að halda almenningi upplýstum, eina réttlætingin á tilveru þeirra. En þeir þegja og stefna bloggara, ekki einu sinni heldur tvisvar fyrir dómstóla, í þeim tilgangi að þagga niður í honum. Tilfallandi segir fréttir sem blaðamenn krefjast að liggi í þagnargildi vegna einkahagsmuna þeirra sjálfra. Blaðamaður sem þegir frétt, að ekki sé sagt stórfrétt, er eins og læknir sem neitar að liðsinna stórslösuðum. Háttsemin brýtur fagleg grunngildi. Fagmennskan er fyrir neðan allar hellur, að ekki sé talað um siðferðið og fyrirlitninguna á rétti almennings til upplýsinga um mikilsverð mál. Fyrir lifandi löngu áttu blaðamennirnir að játa og upplýsa aðkomu sína að málinu. En þeir kusu flótta frá réttvísinni að hætti sakamanna.)

Sigríður Dögg þarf sem sagt nýja vini til að haldast í embætti formanns Blaðamannafélags Íslands. En enginn blaðamaður með sjálfsvirðingu leggur lag sitt við formanninn. Sigríður Dögg varð uppvís að skattsvikum á síðasta ári. Hún neitar að gera grein fyrir umfangi skattsvikanna, segir það sitt einkamál. Þar er hún komin í flokk með sakborningunum á Heimildinni. Vegna skattsvikanna varð Sigríður Dögg að hætta á fréttastofu RÚV. En hún situr keik sem formaður blaðamanna - raunar einkum þeirra sem komast í kast við lögin og halda hvorki faglegu né siðferðilegu máli. 


mbl.is Ömurlegt að ráðist sé gegn fjölskyldum blaðamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Að það skuli vera fréttnæmt að formaður Blaðamannafélagsins komi blaðamanni til varnar, þegar ráðist er að honum með svívirðingum, er merki um hve djúpt þessi samtök eru sokkin. SDA og co hafa leitt félagið fram á bjargbrúnina. Nú horfa þau í hyldýpið og lýst ekki á. Ef ekki væri fyrir miskunnarleysi þeirra um menn og málefni væri þeim vorkunn, en þau svifust einskis og sitja nú í súpunni. Sífellt fleiri átta sig á að vinnubrögð þeirra eru óheiðarleg (þökk sé þér Páll).

Það þarf ekki nema eitt rotið epli í tunnuna til að eyðileggja allt innihaldið.

Líklega eru rotnu eplin í BÍ fleiri en eitt en þau þarf að uppræta. Sigríður Dögg er að uppgötva að hreinsunarstarfið er hafið.

Ragnhildur Kolka, 11.5.2024 kl. 10:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband