Hatursbylgja í Skotlandi, Rowling til bjargar

Í fyrstu viku mánaðarins fékk lögreglan í Skotlandi á áttunda þúsund haturskærur að leysa úr. Þann 1. apríl tóku ný lög gildi þar í landi sem banna hatur og fordóma í garð minnihlutahópa s.s. aldraðra, öryrkja, trúarsafnaða, trans-fólks og einstaklinga með óhefðbundna kynhneigð.

Lögin ala á innbyggðri samkeppni minnihlutahópa, hver sé sá ofsóttasti. Ef aldraðir hafa vinninginn má búast við auknum ríkisframlögum til málaflokksins. Aðrir minnihlutahópar verða að spýta í lófana, finna fleiri dæmi um hatur í sinn garð til að tryggja sér opinber framlög.

,,Fólk notar lögin í pólitískum tilgangi og til að jafna sakir," segir fulltrúi lögreglunnar í samtali við Telegraph. Haldi fram sem horfir verða hatursglæpir stærri brotaflokkur í ár í Skotlandi en allir aðrir brotaflokkar samanlagt, segir sama heimild. Tilfallandi fjallaði um löggjöfina áður en hún kom til framkvæmda og sagði m.a.

Skosk löggjöf sem tekur gildi 1. apríl (við hæfi) gerir ráð fyrir að börn geti kært foreldra sína fyrir hatursorðræðu. Stöðluð eyðublöð auðvelda fólki að kæra meðborgara sína fyrir skoðanir sem stuða. Kærendum er tryggt nafnleysi. Dálkahöfundur Telegraph, Suzanne Moore, rekur helstu þættina í löggjöfinni sem veitir lögreglu víðtækar heimildir til að rannsaka og ákæra brot er teljast óæskileg tjáning.[...]
Leit að hatri gerir ekki annað en að auka það, skrifar Moore. Hatur er tilfinning, líkt og ást. Opinber stefnumótun er gefur sér að tilfinningar borgaranna séu á forræði ríkisvaldsins stuðlar að andrúmslofti tortryggni og svikabrigsla. Löggjöf sem gerir meint hatur refsivert er sniðmát fyrir skoðanakúgun. Jaðarhópar samfélagsins valdeflast. Þeir líta á allt sem ekki fellur að þeirra sérvisku til marks um hatur og andstyggð. Engin umræða, aðeins lögreglurannsókn, ákæra og dómur.

Fyrsta vikan með nýja haturslöggjöf staðfestir að lög sem banna hatur og fordóma vinna gegn tilgangi sínum. Þau hvetja til að menn finni hatur í ranni náungans og kæri til lögreglu.

Haturslöggjöf er beitt til að kveða í kútinn óvinsælar skoðanir. Í stað umræðu er lögreglu sigað á þann sem vogar sér að andmæla ríkjandi rétttrúnaði hverju sinni.

Rithöfundurinn JK Rowling berst gegn nýju löggjöfinni á þeim forsendum að lögin banna sjálfsögð sannindi, að líffræði en ekki tilfinningar ákveða kyn. ,,Karlar geta ekki orðið konur með tilfinningunni einni saman," skrifar Rowling og bætir við, handtakið mig.

Transhugmyndafræðin hefur fyrir satt að segist karl kona megi hann fara sem slík inn í búningsklefa kvenna vopnaður göndli gegn fermingarstúlkum. Hatursglæpur sé að banna líffræðilegum körlum að valsa inn í rými sem ætluð eru konum, hvort heldur búningsklefa, salerni, mæðradeild eða kvennafangelsi. Að ekki sé talað um kvennaíþróttir þar sem karlar í búningi kvenna gera sig gildandi, hirða verðlaun í kvennaflokkum og þykjast menn að meiri. 

Rowling og fleiri konum ofbýður siðleysið, frekjan og yfirgangurinn og segja kyn skipta máli, sé ekki hugarfar heldur líffræðileg staðreynd sem beri að virða. Samkvæmt nýju skosku lögunum elur rithöfundurinn á hatri og fordómum og ætti að sæta rannsókn, ákæru og dómi. 

Skoska lögreglan þorir ekki að handtaka Rowling fyrir hatursorðræðu. Rowling er búsett í Edinborg og nafntoguð um allan heim sem höfundur Harry Potter-bókanna. Hún er of stórt nafn til að miðaldalög um hugsanaglæpi nái til hennar. Verði skoskur barnakennari ákærður fyrir að andmæla transhugmyndafræðinni er spurt; hvers vegna ekki Rowling? Eru ekki allir jafnir fyrir lögum?   

Ríkisvald sem hyggst stýra hugarfari borgaranna endar sem annað tveggja, alræði eða markleysa.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

En svo er í góðu lagi að hata fólk sem býr í Ísrael

Grímur Kjartansson, 14.4.2024 kl. 10:15

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Það hefur blasað við öllu heilbrigðu fólki að þetta yrðu afleiðingar löggjafar um hatursorðræðu. Alltaf túlkunaratriði um smáatriði sem óstöðugir myndu spila upp. Fjöður og hæna í æðsta veldi. 

Ragnhildur Kolka, 14.4.2024 kl. 14:21

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

........Og hana nú!

Helga Kristjánsdóttir, 15.4.2024 kl. 01:28

4 Smámynd: Baldur Gunnarsson

,,Hatur er tilfinning, líkt og ást." 

Og líkt og ást er hatur eðlileg tilfinning og jafnvel réttmæt. Því það er eðlilegt og réttmætt að hata það sem ógnar því sem maður elskar. 

Ég elska sannleikann. Þess vegna hata ég lygina.   

Baldur Gunnarsson, 16.4.2024 kl. 10:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband