Miðvikudagur, 27. mars 2024
Endurkoma Stasi, löggæsla hugarfarsins
Stasi, austur-þýska leynilögreglan á tíma kommúnisma, rak umfangsmikið net uppljóstrara sem njósnuðu um nágranna og vini, jafnvel ættingja. Eftirlit með hugsun þegnanna auðveldaði stjórn á hegðun þeirra.
Hugmyndafræðin að baki Stasi, aðeins ein skoðun leyfileg, fær endurnýjun lífdaga í vestrinu. Nú undir þeim formerkjum að barist sé gegn hatursorðræðu.
Skosk löggjöf sem tekur gildi 1. apríl (við hæfi) gerir ráð fyrir að börn geti kært foreldra sína fyrir hatursorðræðu. Stöðluð eyðublöð auðvelda fólki að kæra meðborgara sína fyrir skoðanir sem stuða. Kærendum er tryggt nafnleysi. Dálkahöfundur Telegraph, Suzanne Moore, rekur helstu þættina í löggjöfinni sem veitir lögreglu víðtækar heimildir til að rannsaka og ákæra brot er teljast óæskileg tjáning.
Skoski þjóðarflokkurinn, SNP, er höfundur löggjafarinnar. Flokkurinn sameinar þjóðernissinna og vinstrimenn og er ráðandi stjórnmálaafl í Skotlandi.
Leit að hatri gerir ekki annað en að auka það, skrifar Moore. Hatur er tilfinning, líkt og ást. Opinber stefnumótun er gefur sér að tilfinningar borgaranna séu á forræði ríkisvaldsins stuðlar að andrúmslofti tortryggni og svikabrigsla. Löggjöf sem gerir meint hatur refsivert er sniðmát fyrir skoðanakúgun. Jaðarhópar samfélagsins valdeflast. Þeir líta á allt sem ekki fellur að þeirra sérvisku til marks um hatur og andstyggð. Engin umræða, aðeins lögreglurannsókn, ákæra og dómur.
Vegurinn til vítis er varðaður góðum áformum, segir orðskviðan. Löggjöf sem ætlað er að vernda minnihlutahópa fyrir hatursorðræðu gæti á yfirborðinu virst góðmennska. En það er öðru nær. Opinber löggæsla hugarfarsins er gjaldþrotayfirlýsing mannréttinda. Fái ríkisvaldið valdheimildir að rannsaka og ákæra borgara fyrir skoðanir er tómt mál að tala um hugsanafrelsi að ekki sé talað um réttinn til að tjá hug sinn.
Minnsti minnihlutinn er einstaklingur með sjálfstæða skoðun. Samfélag án frjálsra skoðanaskipta er alræði, Stasiland.
Athugasemdir
Nú snýr Taggard sér við í gröfinni.
Ragnhildur Kolka, 27.3.2024 kl. 08:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.