Sunnudagur, 24. mars 2024
Hliðarveruleiki RÚV, tvö dæmi
Fjölmiðlar geta búið til hliðarveruleika, talið fólki trú um það sem ekki er. Lúmskar fréttir og sífelld endurtekning er efniviðurinn í hliðarveruleikann.
Fyrir tveim dögum bjó RÚV til frétt, drög að þeim hliðarveruleika að sigur Íslands á Ísrael í fótbolta sé kvenfjandsamlegt athæfi sem þjóðin ætti að skammast sín fyrir eiga aðild að.
Fréttaspuni RÚV fléttar saman tveim algjörlega óskyldum hlutum. Stríði Ísraela gegn hryðjuverkasamtökum Hamas í Gasa annars vegar og hins vegar niðurfelldri rannsókn á nauðgunarkæru á hendur íslenskum landsliðsmanni í knattspyrnu. Í þessum tveim málum, segir RÚV, sé ,,femínísk vídd sem við hljótum að þurfa að velta fyrir okkur." Vídd er lykilorð. Við eigum ekki að skilja samhengi hlutanna eins og það blasir við heldur fara í krákustíg inn í vídd hliðarveruleika.
Lævísi RÚV felst í tvennu. Í fyrsta lagi að bera saman appelsínur og epli, réttarvörslukerfið á Íslandi er sett í samhengi við stríðið í Gasa. Í öðru lagi er hugtakið ,,femínísk vídd" látið ná yfir hryðjuverkamenn Hamas. Blóðþyrstir fjöldamorðingjar eru sagðir konur og börn. Tilgangur RÚV er að smíða átyllu til að fordæma. Efstaleiti verður ekki kápan úr klæðinu. Fólki kaupir ekki að hryðjuverkamenn hafi ,,femíníska vídd" en gleðst yfir árangri íslenska landsliðsins í knattspyrnu, sem Stígamót valdi ekki að þessu sinni.
Víkjum þá á öðru dæmi um hliðarveruleika RÚV. Þar má með sanni segja að RÚV hafi haft erindi sem erfiði, enda um að ræða ótal fréttir og legíó endurtekninga yfir langt árabil á sömu ósannindunum.
Fyrir ellefu dögum birti RÚV frétt með fyrirsögninni ,,Dómari í Samherjamálinu neitar að segja sig frá því." Fyrsta efnisgreinin í meginmáli er svohljóðandi:
Namibíski dómarinn Moses Chinhengo hefur neitað að segja sig frá Samherjamálinu svokallaða í Namibíu sem snýr að meintum glæpum fyrirtækisins Samherja þar í landi.
Enginn sem tengist Samherja, hvorki lögaðilar né einstaklingar, eru fyrir rétti í Namibíu. Af því leiðir er ekki um neina meinta glæpi norðlensku útgerðarinnar að ræða. RÚV trúir eigin hliðarveruleika, að réttað sé yfir Samherja í Namibíu.
Tilfallandi fjallaði um Namibíumálið í fyrrasumar og byggði á namibískum heimildum:
Nú stendur yfir dómsmál þar syðra. Enginn Samherjamaður er sakborningur og enginn lögaðili tengdur útgerðinni á sakabekk. Aðalsakborningurinn er Bernhard Esau fyrrum sjávarútvegsráðherra. Í þriggja daga gamalli frétt útgáfunnar Namibian er sagt frá skýrslugjöf Esau í dómssal.
RÚV og Heimildin, RSK-miðlar, vitna reglulega í Namibian en ekki kemur stakt orð um yfirheyrslur yfir Esau. Hvernig víkur því við að aðalsakborningurinn í Namibíumálinu, sem RSK-miðlar kalla alltaf Samherjamálið, er ekki fréttaefni þeirra íslensku miðla sem sérhæfa sig í málinu?
Skýringin er vitanlega sú að skýrslugjöf Esau fyrir dómi sýnir svart á hvítu að Samherji var fórnarlamb en ekki gerandi í sakamálinu sem nefnist Fishrot þar syðra.
Í fréttinni kemur fram að yfirmenn opinberrar stofnunar, Fishcor, seldu Samherja kvóta en stungu undan greiðslum sem Samherji innti af hendi. Samherji var í góðri trú, keypti kvóta af opinberri stofnun.
Namibísk lög gera ráð fyrir að Fishcor selji kvóta og noti afraksturinn í uppbyggingu innviða og þróunaraðstoðar innanlands.
Hliðarveruleiki RÚV er að réttarhöldin í Namibíu séu yfir Samherja. Það eru hrein og klár ósannindi. En með því að klifa á lyginni sí og æ vonast ríkisfjölmiðillinn til að telja andvaralausum áheyrendum að hvítt sé svart.
RÚV er rotin stofnun sem ætti að leggja niður.
Athugasemdir
Því fyrr því betra.
Sigurður Kristján Hjaltested, 24.3.2024 kl. 11:33
Svo ekki sé minnst á hvað dagskráin er orðin klén..
Guðmundur Böðvarsson, 24.3.2024 kl. 13:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.