Æra, augu og þögn Aðalsteins

Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður og varaformaður Blaðamannafélags Íslands stefndi tilfallandi fyrir meiðyrði. Við aðalmeðferð fyrir héraðsdómi á mánudag mætti tilfallandi, einnig Aðalsteinn. Tilfallandi gaf skýrslu fyrir dómi en Aðalsteinn kaus að þegja.

Í upphafi aðalmeðferðar spurði dómari hvort upphafsmaður málsins, stefnandi, gæfi skýrslu fyrir dómi. Nei, svaraði lögmaður Aðalsteins, Gunnar Ingi Jóhannsson.

Valkvætt er að gefa skýrslu fyrir dómi. Tilgangur skýrslugjafar er að sá sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni, ærumeiðingu í þessu tilfelli, útskýri hvað raski hugarrónni, hvernig og hvers vegna. Aðalsteinn krefst 2 milljóna króna í miskabætur fyrir meidda æru. Fjárkrafan gefur til kynna að meintur miski sé verulegur. Maður með setningasmíði að atvinnu ætti að geta sett í orð hver tilfinningin sé að fá andsvör á opinberum vettvangi.

Vitnaskýrslur fela í sér að málsaðili sest í vitnastúku gengt dómara og svarar spurningum eigin lögmanns og lögmanni gagnaðila. Þá á dómari það til að spyrja nánar út í einstök efnisatriði. Áður en vitnið talar sínu máli er það áminnt um sannsögli. Vandast nú málið Aðalsteini.

Réttarhaldið stóð í fjórar klukkustundir og hálfri betur. Allan tímann sat Aðalsteinn við hlið Gunnars Inga lögmanns. Og þagði.

Hvers vegna mætir maður, sem stefnir öðrum fyrir dóm, og leggur það eitt af mörkum að þegja? Jakob Bjarnar skrifaði samantekt á réttarhaldinu í Vísi og sagði eftirfarandi um aðkomu Aðalsteins:

Páll [skipstjóri] vék þá að því að Aðalsteinn hefði staðhæft að hann hefði aldrei haft gögnin undir höndum og það hlyti þá bara að vera að einhver hafi skrifað fréttina fyrir hann. Við þetta ranghvolfdi Aðalsteinn augum en hann hafði sig að öðru leyti í engu frammi meðan málflutningur fór fram.

Hvers vegna mætir Aðalsteinn fyrir rétt í eigin dómsmáli og vinnur það eitt til afreka að hringla augunum? Hvers vegna gaf hann ekki vitnaskýrslu, sagði frá sinni hlið málsins?

Jú, vitanlega, Aðalsteinn vildi ekki svara spurningum um vitneskju sína um byrlunar- og símastuldsmálið. Ekki frekar en hann gerði í yfirheyrslu lögreglu. Hann vildi ekki svara hvernig fréttin 21. maí 2021 í Stundinni, sem Aðalsteinn er skrifaður fyrir, varð til. Fréttin vísaði í gögn úr síma Páls skipstjóra Steingrímssonar, sem var byrlað 3. maí 2021. Á meðan skipstjórinn var meðvitundarlaus í öndunarvél var síma hans stolið og færður til afritunar á RÚV. Það var skipulag.

RÚV var einmitt starfsstöð Aðalsteins þangað til þrem dögum fyrir byrlun skipstjórans. Í hádeginu 30. apríl 2021 skipti blaðamaðurinn um vinnustað, fór af RÚV á Stundina. Áður en vistaskiptin urðu hafði yfirmaður Aðalsteins á RÚV, Þóra Arnórsdóttir, keypt Samsung-síma, samskonar og Páls skipstjóra. Þóra fékk á símann númerið 680 2140. Númer skipstjórans er 680 214X. Aðeins munar síðasta tölustaf. Í almennum yfirlitum yfir inn- og úthringingar er tveim síðustu tölustöfum símanúmera sleppt af persónuverndarástæðum. Brotamenn beita persónuvernd til að hylja slóðina. Á RÚV var vitað áður en Aðalsteinn skipti yfir á Stundina að sími skipstjórans var væntanlegur til afritunar. Það var skipulag.

Í dómssal hefði Aðalsteinn verið spurður um þessi atriði. Einnig hefði hann verið spurður um þá tilviljun að hann, sem blaðamaður á Stundinni, og Þórður Snær á Kjarnanum, hringdu í Pál skipstjóra með tíu mínútna millibili 20. maí 2021. Aðalsteinn viðurkenndi í símtalinu við skipstjórann að hafa ekki gögn undir höndum. Morguninn eftir birtist sama fréttin í tveim útgáfum á Stundinni annars vegar og hins vegar Kjarnanum. Í fyrirsögn beggja frétta var ,,Skæruliðadeild Samherja". Myndskreytingar í báðum fréttum eru skjáskot úr síma skipstjórans. Hvernig gat sama fréttin ratað á tvo óskylda fjölmiðla og birst á sömu klukkustund sama morguninn? Það var skipulag. 

Aðalsteinn vildi ekki svara spurningum. Hvorki hann né aðrir grunaðir blaðamenn eiga frásögn um atburðarásina vorið 2021 sem heldur vatni. Þögnin er eina vörnin. Vitnaskýrsla í dómssal hefði afhjúpað blaðamanninn. Aðalsteinn veit að hann hefur á röngu að standa. Blaðamaðurinn þegir og hringlar augunum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Loftsson

Fróður sá þykist

er fregna kann

og segja ið sama.

Eyvitu leyna

megu ýta synir

því er gengur um guma.

Birgir Loftsson, 21.3.2024 kl. 19:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband