Fælingarmáttur ofsókna Seðlabanka og RÚV

Tveir opinberir starfsmenn ,,á gólfinu" lögðu á ráðin um hvernig mætti hámarka skaða Samherja þegar gerð var húsleit hjá útgerðinni 27. mars 2012. Starfsmennirnir voru Helgi Seljan fréttamaður á RÚV og Ingibjörg Guðbjartsdóttir forstöðumaður gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands.

Húsleitin var gerð samtímis í höfuðstöðvum Samherja á Akureyri og útstöðinni í Reykjavík. Ingibjörg stýrði aðgerðum og hringdi í Helga Seljan í miðjum klíðum. Frétt kom á RÚV 21 mínútu eftir að húsleit hófst, myndatökumenn RÚV voru á staðnum. Um kvöldið var Kastljós með Helga sem stjörnufréttamann. Hann þakkaði sjálfum sér að hafa hrundið af stað húsleitinni og flaggaði fölskum pappírum til að blekkja áhorfendur. Ingibjörg hjálpaði Helga að skrifa texta fréttainnslagsins. Það sýna tölvupóstar á milli þeirra, þar sem Helgi kallar sjálfan sig ,,eltihrelli". Ingibjörg, sem hafði viðurnefnið ,,Hrunbjörg" í Seðlabankanum notaði Helga til að sýna fram á sekt án dóms og laga. Helgi notaði Ingibjörgu til að fá uppslátt og blaðamannaverðlaun.

Sögu eltihrellis og Hrunbjargar, Helga og Ingibjargar, er að finna í nýrri bók Björns Jóns Bragasonar, Seðlabankinn gegn Samherja. Svo það sé strax sagt: hvorki Helgi né Ingibjörg eru aðalpersónur bókarinnar. En aðkoma hrellis og Hrunbjargar sá til þess að tiltölulega hversdagsleg rannsókn snerist upp í ofsóknir.  Höfundurinn, Björn Jón, skrifar sögu máls með mörgum persónum og leikendum. Hann styður mál sitt gögnum og viðtölum. Bókin er vönduð umfjöllun um stórt mál og mikilvægt. Skýrt kemur fram hve illa fer þegar kappsamir embættismenn með barnaskóladómgreind hætta sér út í fen stjórnmála og siðlausrar blaðamennsku. Ferðalag sem endar með hryllingi.

Seðlabankamálið er upptakturinn að tvöföldum öðrum hryllingi sem tilfallandi hefur margoft fjallað um; Namibíumálið sem hófst 2019 og byrlunar- og símastuldsmálið frá 2021. Siðblindir blaðamenn siga viljugu ákæruvaldi á saklaust fólk og fyrirtæki (les: Samherja) og taka lögin í sínar hendur ef svo ber undir. Helgi Seljan lærði ekkert af Seðlabankamálinu. Hann forherðist í þeim ásetningi að valda miska undir þeim formerkjum að verið sé að upplýsa.  Hrunbjörg aftur hvarf til útlanda eftir fyrsta slag við Norðlendinga.

Seðlabankamáli Samherja lauk með fullum sigri norðlensku útgerðarinnar. Sannfærandi rök, sem tilgreind eru í bókinni, útskýra að tæplega átti að fara í aðgerðina gegn Samherja og aldrei í beinni útsendingu RÚV. Það var ekkert tilefni til að halda að útgerðin héldi skipulega aftur gjaldeyri á tíma gjaldeyrishafta. Út á það gekk sakarefnið. Helgi Seljan og RÚV lögðu til opinbera réttlætingu á aðgerðinni. Metnaður Ingibjargar og yfirmanna hennar í Seðlabankanum var að sýna vinnuveitendum sínum, ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur með Steingrím J. sem skipstjóra, auðsveipni og hollustu.

Ingibjörg var rassskellt á fyrsta fundi með Þorsteini Má forstjóra Samherja. Fundurinn fór fram í Seðlabankanum 9. júlí 2009, þrem árum fyrir húsleitina. Í forsæti sat Svein Harald Öygard þáverandi seðlabankastjóri. Ingibjörg, sem áður starfaði hjá Straumi-Burðarás fjárfestingabanka í útrás og hruni, hafði í frammi ásakanir um misferli sem ekki stóðust. Líklega sat flengingin í Hrunbjörgu. Næst skyldi hún gera þannig aðsúg að Samherja að engum vörnum yrði komið við. Almenningi skyldi talin trú um sekt þótt engin gögn sönnuðu áburðinn.

Helgi Seljan og Ingibjörg náðu saman 20. febrúar 2012, rúmum mánuði fyrir húsleitina. Helgi var með í höndum einskins verðan pappír, excel-útprent, sem hann kallaði skýrslu. Síðar, í leyndri upptöku, kom á daginn að Helgi hafði átt við pappírinn, í raun falsað gögn. Ríkisfjölmiðillinn telur ekki eftir sér falsanir og lygi. Siðleysið vatt upp á sig og náði hámarki með byrlun og stuldi tæpum áratug síðar. Ingibjörg á hinn bóginn var með á teikniborðinu aðför að Samherja. Hrunbjörg sagði fátt á fundinum með Helga, segir í bókinni, en gerði hann fréttagraðan. Hann fékk ekkert frá henni en hún gaf undir fótinn og Helgi böggaði ótt og títt næstu daga og vikur.

Með pungtak á Helga og RÚV vissi Ingibjörg að hún yrði ekki niðurlægð líkt og á fundinum sumarið 2009. RÚV er fjölmiðlaafl sem ryður brautina í opinberri umræðu. Almenning þyrsti í blóð eftir hrun, einkum þeirra sem áttu eitthvað undir sér. Seðlabankinn var undir hælnum á Steingrími J. og Jóhönnu sem vildu skapa sér pólitíska stöðu til að bylta kvótakerfinu.

Daginn eftir húsleitina kynnti Steingrímur J. viðamestu breytingar á kvótakerfinu frá árinu 1990. Það hentaði að flaggskip íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja væri í skotlínu ákæruvaldsins á sama tíma og vinstristjórnin reiddi hátt til höggs í málefnum atvinnugreinarinnar. Hér fléttuðust saman siðlaus blaðamennska og þýlynd embættisfærsla í þágu stjórnmálaafla sem ætluðu sér að umturna landinu.

Már Guðmundsson var seðlabankastjóri þegar húsleitin fór fram. Löngu síðar, þegar öllum var ljóst að málið var löðrandi í siðleysi, dómgreindarbresti og vankunnáttu, setti Már nafn sitt undir greinargerð. Seðlabankagreinargerðin, frá febrúar 2019, segir að húsleitin hjá Samherja hafi haft ,,töluverð fælingaráhrif."

Kannski urðu færri undanbrögð frá gjaldeyrishöftum vegna húsleitarinnar. Enginn veit. Kannski svíkja pípulagningamenn síður undan skatti ef bakari er hengdur fyrir smið. En það er ekki hlutverk ríkisstofnana í lýðræðisríki að velja sér skotmörk til að koma pólitískum skilaboðum á framfæri. Réttarríkið skal starfa samkvæmt lögum og reglum, ekki pólitískum hentugleikum.

Eftir aðför Seðlabanka að Samherja í samvinnu við RÚV opnuðust flóðgáttir fyrir siðblinda blaðamenn að slá sig til riddara með falsfréttum og þiggja verðlaun fyrir. Í bókinni Seðlabankinn gegn Samherja má lesa hvernig Helgi Seljan, auðvitað, hver annar, í slagtogi við starfsfélaga réðst á mannorð og lífsviðurværi manns sem var þeim óþægur ljár í þúfu. Innræti hýenublaðamanna verður ekki ýkt. Tilfallandi blogg um það síðar.

 

 


mbl.is „Hlægilegt en líka grafalvarlegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ef einhver á skilið verðlaun fyrir vandaða rannsóknarvinna þá er það Björn Jón Bragason. Fyrri bók hans um Seðlabankann fyllti mig hryllingi á framferði bankans og þá ekki síður réttarkerfisins. Þessi bók bætir um betur enda opinberar hún enn frekar illviljan á bakvið einelti. Nú felur Helgi Seljan sig í heitum faðmi Heimildarinnar en Hrunbjörg. Já hún Hrunbjörg. Hún var verðlaunuð af bankanum með uppfærslu í alþjóðakerfið. En það er alþekkt aðferð til að umbuna fyrir vanhæfi-og siðleysi. 

Ragnhildur Kolka, 3.3.2024 kl. 10:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband