Miðvikudagur, 21. febrúar 2024
Þórður Snær játar: veika konan stal síma Páls
Ritstjóri Heimildarinnar, Þórður Snær Júlíusson, birti á föstudag leiðara um byrlunar- og símastuldsmálið. Þórður Snær er sakborningur í málinu sem og þrír blaðamenn hans. Fimmti maðurinn á ritstjórn Heimildarinnar, Helgi Seljan, er ekki ótengdur málinu. Réttarstaða hans er ókunn.
Tilfallandi fjallaði um leiðarann og dró ályktanir um líklega málsvörn Þórðar Snæs þegar málið kemst á formlega dagskrá. Líklega hafa blaðamennirnir, sem eru sakborningar, lúslesið texta leiðarans í próförk og gert sér far um að neita öllu sem gæti leitt til sakfellingar. Blaðamennirnir hafa aðgang að þeim gögnum sem lögreglan hefur veitt sakborningum og brotaþolum aðgang að. Vörn blaðamannanna er að neita næstum öllu. En bara næstum.
Þannig neitar leiðarinn að Páli skipstjóra hafi verið byrlað og hafnar að sími hans hafi verið afritaður. En svo kemur þessi merkilega játning Þórðar Snæs í leiðaranum:
Konan, sem stóð í skilnaði og grunaði mann sinn um framhjáhald, hefur gengist við því að hafa tekið símann hans, og skilað honum síðan nokkrum dögum síðar.
Þórður Snær viðurkennir, tekur gott og gilt, að síma Páls skipstjóra hafi verið stolið og verið í þjófahöndum í nokkra daga. Þetta gerir ritstjórinn eftir langa og ítarlega yfirlegu á þeim málsgögnum sem eru í umferð. Þórði Snæ hefði verið í lófa lagið að neita stuldi á síma skipstjórans, sagt að það væri ,,bara kenning". Svona eins og það sé ,,bara kenning" að jörðin sé hnöttótt.
Athyglisvert.
Ritstjóri Heimildarinnar kemst að þeirri niðurstöðu að ekki sé lengur hægt að neita að síma skipstjórans hafi verið stolið. Vakna þá spurningar um hvernig samskiptum blaðamanna og þáverandi eiginkonu Páls hafi verið háttað. Lögreglan hefur ekki veitt aðgengi að upplýsingum um samskiptin í maí 2021. En gögn frá ágúst og október varpa ljósi á tök blaðamanna á konunni.
Blaðamenn átta sig á sumarið 2021 að lögreglan er komin á sporið. Þeir kappkosta að hylja slóðina. Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV, og einn sakborninga, er í samskiptum við konuna yfir sumarið. Þann 24. ágúst sendir Þóra veiku konunni þau skilaboð að hún sé með mann á sínum snærum sem vilji komast í síma konunnar. Hér er ekki um að ræða síma skipstjórans heldur einkasíma konunnar. Þóra skrifar:
Hann vill helst ekki hittast (mjög varkár maður, skiljanlega) en spyr hvort þú treystir honum fyrir símanum einn dag?
Blaðamennirnir hafa það áhrifavald yfir konunni að geta farið fram á einkasíma hennar í heilan dag. Áður höfðu þeir fengið stolinn síma skipstjórans frá konunni. Nú er það einkasími konunnar sem blaðamenn þurfa að komast yfir. Til hvers? Varla til skoða einkagögn konunnar. Ekki ætluðu blaðamenn að skrifa fréttir um innihald síma konu sem glímir við geðræn veikindi. Nei, þeir vildu afmá upplýsingar um fyrri samskipti við konuna. Það er eina röklega skýringin.
Yfirburðastöðu sína gagnvart konunni héldu blaðamenn áfram að nýta sér þá um haustið. Tölvupóstur sem konan skrifaði 3. október ber það með sér. Viðtakendur eru Lára V. Júlíusdóttir lögfræðingur, Þóra Arnórsdóttir, Aðalsteinn Kjartansson og Ingi Freyr Vilhjálmsson. Aðalsteinn og Ingi Freyr eru sakborningar og blaðamenn á Heimildinni, báðir áður á Stundinni. Texti tölvupóstsins er eftirfarandi:
Sæl Lára.
Ég gef hér með Þóru Arnórsdóttur og Aðalsteini Kjartanssyni umboð til að ná í símkortin mín til þín ef þau óska eftir því að fá þau í hendur ásamt öðru efni sem þú kannt að hafa frá mér
Lára var skilnaðarlögfræðingur veiku konunnar. En þann 3. október var skilnaður við Pál skipstjóra ekki á dagskrá. Lögreglan hafði boðað konuna í yfirheyrslu í fyrsta sinn. Lára tók að sér að fylgja konunni í yfirheyrsluna, sem fór fram 5. október. Af þeirri yfirheyrslu er undarleg saga. Lára stöðvaði frásögn konunnar í miðjum klíðum og fór með hana afsíðis. Konan kom grátandi tilbaka eftir yfirhalningu lögmannsins og sagði fátt. En þann 3. október, tveim dögum fyrir yfirheyrslu, þurftu blaðamenn að komast yfir símkort konunnar, sem átti tvo einkasíma. Til hvers þurftu blaðamenn símkortin? Jú, vitanlega, til að eyða upplýsingum.
Upplýsingarnar sem lögreglan hefur gert að gögnum málsins eru aðeins toppurinn á ísjakanum.
Lögreglan veit að sími Páls skipstjóra fór ekki einu sinni heldur tvisvar á Efstaleiti dagana 4. til 6. maí. En þessar upplýsingar eru ekki í þeim gögnum sem eru í umferð. Gögn málsins og gögn lögreglu eru ekki sami hluturinn.
Við skulum rifja upp atburðarásina vorið 2021. Páli var byrlað 3. maí en komst til meðvitundar 6. maí. Hvað gerir miðaldra hvítur karlmaður þegar hann vaknar á framandi stað og vill átta sig á lífinu og tilverunni eftir að hafa verið í dái? Nú, auðvitað, hann kveikir á símanum, tékkar á skilaboðum og kannar heiminn á fjöl- og samfélagsmiðlum.
Páll skipstjóri er vel tæknilæs. Hann er vanur að stýra skipum út á rúmsjó og þarf að kunna eitt og annað fyrir sér í stafrænum upplýsingakerfum. Páll sá að átt hafði verið við símtækið á meðan hann var meðvitundarlaus. Eftir að hann komst á lappir og varð ferðafær leiddi grunurinn til kæru til lögreglu 14. maí. Skipstjórinn vissi ekki hver stal og í hvaða tilgangi en var sannfærður um að eitthvað væri gruggugt við símtækið.
Sex dögum síðar voru Þórður Snær, þá á Kjarnanum, og Aðalsteinn Kjartansson, þá á Stundinni, svo vinsamlegir að staðfesta grun skipstjórans. Þeir hringdu í hann á tíu mínútna millibili, þýfguðu hann um fréttir sem þeir voru með í höndunum, sem líklega voru að mestu skrifaðar á RÚV. Stjórnandi aðgerða á Efstaleiti sagði tvílembingunum hvenær þeir ættu að hringja og ákvað hvenær átti að birta. Kvenleg smásmygli er á aðgerðaráætluninni þegar fínstillt var hvenær blaðamenn skyldu hringja í skipstjórann. Daginn eftir, 21. maí, birtust fréttirnar í Kjarnanum annars vegar og hins vegar Stundinni. Allt samkvæmt áætlun. Skipulagið á RÚV, birtingar í Stund og Kjarna.
Hvað gerir lögreglan þegar staðfest er 21. maí að stolin gögn úr síma skipstjórans eru í höndum óvandaðra? Jú, hún leitar uppi ferðalag símans í þjófahöndum. Tvær leiðir eru til þess.
Í fyrsta lagi var sími Páls með staðsetningarbúnað. Hægt var skoða símtækið og sjá hvar það var hverja mínútu. Á daginn kom að símtækið hafði farið inn á Efstaleiti, höfuðstöðvar RÚV, dagana 4. til 6. maí. Ekki einu sinni heldur tvisvar.
Í öðru lagi getur lögreglan fengið upplýsingar hjá símafyrirtækjum um staðsetningu einstakra síma, hvar þeir eru hverju sinni. Símafyrirtæki geyma þessar upplýsingar í tilskilinn tíma og hægt er að fletta þeim upp vegna sakamálarannsóknar. Lögreglan getur einnig fengið upplýsingar um síma blaðamanna og fengið staðfest hvort þeir voru í nágrenni síma skipstjórans.
Bingó. Lögreglan er með þessar upplýsingar en þær eru ekki orðnar að gögnum málsins. Þórður Snær játar að konan hafi stolið símanum og hafi verið með hann í nokkra daga. Í leiðaranum viðurkennir Þórður Snær að lögbrot hafi verið framið, bara ekki af blaðamönnum Kjarnans. Undanskyldir þar með eru blaðamenn Stundarinnar og RÚV. Viljandi eða óviljandi vísar ritstjórinn á aðra blaðamenn sem málsaðila.
Fyrir liggur að blaðamennirnir fengu gögn símans sem urðu að fréttum samtímis í Kjarnanum og Stundinni þann 21. maí. Miðlæg aðgerð hefst með byrlun og lýkur með birtingu. Blaðamennirnir héldu að þar með væri allt klappað og klárt. En svo var ekki. Páll kærði 14. maí og lögreglan hóf rannsókn þegar Kjarninn og Stundin staðfestu stuld á gögnum með því að birta fréttir úr símanum.
En hvers vegna þurfti andlega veika konan að dröslast með símann í tvígang upp á Efstaleiti? Jú, blaðamennirnir klúðruðu fyrstu afrituninni. Urðu að endurtaka leikinn. Kölluðu til liðs annan blaðamann sem kunni eitthvað aðeins meira fyrir sér í að afrita síma. Lögreglan gat einnig flett honum upp.
Ekki beittustu hnífarnir í skúffunni sakamennirnir sex.
Athugasemdir
Þetta er nú aldeilis orðið efni í stórglæpamynd.
Sigurður I B Guðmundsson, 21.2.2024 kl. 09:08
Sammála fyrri ræðumanni. Gott að heldur þessu máli á lífi. Hættan er sú að það dagi uppi í skúffu lögreglunnar. Þetta er jú sama lögregla og klofnaði í tvö lið í tilviki barnaræningja og stolinna barna fyrir bara örfáum vikum síðan: Lögreglumenn sem vildu framfylgja lögum og úrskurðum dómstóla, og lögreglumenn sem láku gögnum í flóttamann til að forðast lögin og úrskurði dómstóla.
Geir Ágústsson, 21.2.2024 kl. 20:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.