Leynisamstarf RÚV og Heimildarinnar

Leynilegt samstarf RÚV og Heimildarinnar, áður Stundin og Kjarninn, vekur spurningar um starfshætti fjölmiðla sem jafnan krefjast gagnsæis af öðrum og allt sé upp á borðum. Gögn sem rötuðu inn á fréttadeild RÚV voru ekki notuð af ríkisfjölmiðlinum. Fréttirnar fóru til birtingar í Stundinni og Kjarnanum.

Gögnin fengust úr stolnum síma Páls skipstjóra Steingrímssonar. Páli var byrlað 3. maí 2021 af þáverandi eiginkonu sinni sem stal síma hans á meðan hann lá á gjörgæslu á Landspítalanum í Fossvoginum. Konan, sem glímir við geðræna vanheilsu, rölti með símann yfir Bústaðarveg og afhenti starfsmanni RÚV á Efstaleiti. Í lögregluskýrslu er haft eftir konunni að kvenkyns fréttamaður hafi tekið við símanum. Tvær koma helst til greina, Rakel Þorbergsdóttir þáverandi fréttastjóri og kunningi konunnar frá Akureyri og Þóra Arnórsdóttir sem þá ritstýrði Kveik. 

Vitað er að stolni síminn komst í hendur Þóru, þótt Rakel hafi e.t.v. verið fyrsti viðtakandi. Þóra hafði keypt Samsung síma nokkru áður gagngert til að afrita síma skipstjórans. Hún var reglulega í sambandi við veiku konuna eftir að lögreglurannsókn hófst sumarið 2021. Þann 24. ágúst var Þóra samtals átta sinnum í símasamskiptum við konuna. Samkvæmt lögregluskýrslu ráðleggur Þóra í sms-skilaboðum til veiku konuna að hún skuli ,,breyta ÖLLUM lykilorðum alls staðar." Þóra er sakborningur í byrlunar- og símastuldsmálinu, eins og nærri má geta. Hún frumbirti enga frétt úr stolna símanum.

Gögnin sem konan færði RÚV 4. maí 2021 urðu uppistaða í fréttum Kjarnans og Stundarinnar þann 21. maí þegar miðlarnir tveir birtu samtímis fréttir um meinta skæruliðadeild Samherja. Blaðamennirnir skráðir fyrir fréttunum tveim eru Þórður Snær Júlíusson, Arnar Þór Ingólfsson og Aðalsteinn Kjartansson, allir núna á Heimildinni.

Þremenningarnir eru sakborningar líkt og Þóra. Þeir hafa aldrei gert grein fyrir hvers vegna þeir létu gott heita að fá heildsölufréttir af RÚV og birta sem eigið höfundarverk. Blaðamennirnir þrír fengu verðlaun Blaðamannafélagsins fyrir fréttir sem urðu til á RÚV, sem jafnframt útvegaði myndskreytingar; skjáskot úr síma skipstjórans.

Þórður Snær mun áhugasamur um að verða þingmaður Samfylkingar. Stefán útvarpsstjóri ku einnig velta fyrir sér framboði. DV fjallar um stjórnmáladrauma tvímenninganna í samhengi við leynilegt samstarf RÚV og Heimildarinnar og segir:

þessir tveir fjölmiðlamenn eiga fátt annað sameiginlegt en að miðlar þeirra hafa haft leynilegt samstarf um ýmis mál sem ekki hvað síst tengjast aðför að tilteknum fyrirtækjum þar sem málefni Samherja rísa hæst. Samstarf þetta vekur sífellt meiri furðu.

Þórður Snær er ritstjóri Heimildarinnar og Stefán stýrir RÚV. Það er í þeirra höndum að upplýsa almenning um hvað gerðist á bakvið tjöldin vorið 2021. Baktjaldamakkið varðar lögbrot, byrlun og þjófnaður koma við sögu í aðdraganda, en einnig samsæri um að blekkja almenning. Fréttirnar sem Stundin og Kjarninn birtu samtímis snemma morguns 21. maí 2021 eru báðar RÚV-fréttir.

Leyndarhyggja fer fjölmiðlum illa. Almenning tekur að gruna sitthvað misjafnt á ritstjórnum fjölmiðla sem starfa eins og Heimildin og RÚV.

.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband