Laugardagur, 17. febrúar 2024
Þórður Snær varpar sök á Þóru og Helga Seljan
Málsvörn sakborninga í byrlunar- og símastuldsmálinu er efni í tveggja síðna leiðara Þórðar Snæs ritstjóra á Heimildinni. Fimm blaðamenn eru sakborningar, allir nema einn á Heimildinni. Kjarninn í máli Þórðar Snæs er að lögreglan hafi engar sannanir um aðild blaðamanna Heimildarinnar (áður Stundin og Kjarninn) að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar.
Þórður Snær hefur ekki öll gögn lögreglu undir höndum, aðeins þau sem lögreglan hefur veitt sakborningum og brotaþolum aðgang að. Af því leiðir eru fullyrðingar ritstjórans ómarktækar. Í leiðinni eru þær upplýsandi um vegferðina sem Þórður Snær á fyrir höndum í dómskerfinu.
Tilfallandi hefur séð töluvert af gögnum lögreglu, þau sem eru í umferð. Nokkur munur er á þeim gögnum og framburði Þórðar Snæs í leiðara Heimildarinnar.
Þórður Snær viðurkennir að mögulega hafi lög verið brotin þegar blaðamenn fengu efni sem birtist samtímis í Stundinni og Kjarnanum 21. maí 2021 og eru úr síma skipstjórans. Þórður Snær skrifar
Í umfjölluninni var tiltekið að gögnin hefðu borist frá þriðja aðila og blaðamenn því engin lög brotið. Blaðamenn mega ekki, samkvæmt lögum, upplýsa um heimildarmenn sína.
Hver gæti þessi þriðji aðili verið? Aðeins tveir koma til greina. Þriðji aðilinn gæti verið þáverandi eiginkona Páls skipstjóra, sem er andlega veik. Hún hefur játað að hafa byrlað eiginmanni sínum og stolið síma hans. Sé þriðji aðilinn veika konan þurfum við að trúa að konan hafi farið á tvo óskylda fjölmiðla, Stundina og Kjarnann, og látið þeim í té sama innihaldið úr síma skipstjórans og séð til þess að blaðamenn skrifuðu upp úr símanum sambærilegar fréttir. Þá hafi veika konan skipulagt að fjölmiðlarnir skyldu birta efnið samtímis þann 21. maí. Andlega veik kona væri sem sagt jafnoki tveggja ritstjórna. Tilfallandi hefur ekki stórt álit á andlegu atgervi RSK-blaðamanna. En þessi saga er heldur ótrúverðug.
Seinni möguleikinn er að þriðji aðilinn sé starfsfólk RÚV. Í leiðaranum nefnir Þórður Snær Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks á RÚV í framhjáhlaupi. Hún er sakborningur líkt og hann sjálfur. Þóra og RÚV frumbirtu enga frétt úr síma skipstjórans. Þóra fékk réttarstöðu sakbornings um leið og ritstjóri Heimildarinnar, um miðjan febrúar 2022. Þóra hélt stöðu sinni hjá RÚV þrátt fyrir að vera grunuð um glæp. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttastjóri gáfu út sérstaka traustsyfirlýsingu 20. febrúar 2022 og sögðu m.a.
Einn þáttur í þessu sjálfstæði fjölmiðla er að þeir geti tekið við slíkum upplýsingum í trúnaði án þess að þurfa að gera grein fyrir hvaðan eða frá hverjum þær stafi [...] jafnvel þótt um sé t.d. að ræða einkagögn sem fjölmiðlum eru fengin.
Þarna játa Stefán og Heiðar Örn, fyrir hönd Þóru, að hún hafi tekið við einkagögnum. En sjálf birti Þóra enga frumfrétt á RÚV. Stundin og Kjarninn sáu um birtingu. Hér bendir allt til skipulags. Þóra fær síma skipstjórans og afritar. Þáverandi samstarfsmaður Þóru er Helgi Seljan, sem nú er á Heimildinni eftir óvænt starfslok á Efstaleiti í ársbyrjun 2022. Greinarnar tvær í Stundinni og Kjarnanum eru með sömu höfundareinkennum, ,,skæruliðadeild" kemur fyrir í báðum fyrirsögnum. Tilviljun? Nei, varla.
RÚV vélaði með afritun. Frumgerð fréttanna í Stundinni og Kjarnanum varð til á Efstaleiti. Spurningar sem lagðar voru fyrir Þórð Snæ í lögregluyfirheyrslu gefa sterka vísbendingu um að lögreglan viti verkaskiptinguna á milli fjölmiðlanna þriggja, RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, RSK-miðla. Þórður er m.a. spurður hver ráði birtingu á efni í útgáfunni þar sem hann er ritstjóri.
Þrem dögum áður en Páli skipstjóra var byrlað skipti Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður um starf. Fyrir hádegi 30. apríl 2021 var hann samstarfsmaður Þóru og Helga á RÚV en eftir hádegi sama dag er hann orðinn blaðamaður á Stundinni. Ekki þó hættur ,,rannsóknablaðamennsku", eins og hann sagði rogginn á Vísi. Aðalsteinn er skráður höfundur skæruliðafréttarinnar í Stundinni 21. maí 2021. Tilviljun? Nei, varla.
Tilfallandi hefur fylgst með íslenskum fjölmiðlum í bráðum hálfa öld. Engin dæmi eru um að blaðamaður hafi skipt um vinnustað í hádegishléi. Kaupin gerast ekki þannig á blaðamannaeyrinni. Fyrir byrlun og stuld var búið að ákveða verkaskipti milli RÚV annars vegar og hins vegar Stundarinnar og Kjarnans. Það þurfti að stilla upp liðinu.
Skipulag sem sagt.
Stefán útvarpsstjóri hélt verndarhendi yfir Þóru þótt hún yrði sakborningur í febrúar 2022. En ári seinna, í janúar 2023, kemur annað hljóð í strokkinn. Lögregla sendi Stefáni fyrirspurn um Samsung-síma með númerið 680 2140 og spurði hver keypti þann síma og hvenær. Þetta er símtækið sem notað var til að afrita síma skipstjórans. Eftir undanbrögð varð Stefán útvarpsstjóri að viðurkenna að Þóra hefði keypt símann fyrir Kveik í apríl 2021. Páli var byrlað í maí. Dagar Þóru á RÚV voru taldir. Snubbótt fréttatilkynning RÚV segir 6. febrúar 2023 að Þóra sé hætt. Tilviljun? Nei, varla.
Í leiðaranum í Heimildinni segir Þórður Snær ekkert um Helga Seljan og fátt um Þóru. Skipulagið gekk út á að Þóra og/eða Helgi Seljan yrðu ,,heimildarmenn" fyrir fréttum Stundarinnar og Kjarnans. Þegar í febrúar 2022 sá lögreglan í gegnum þennan málatilbúnað. Í greinargerð lögreglu segir
Í þessu máli er engin þörf á að fjalla um heimild fjölmiðlamanna til að vernda heimildarmenn sína. Lögreglan veit hver heimildarmaðurinn er. Heimildarmaðurinn er X.
X er þáverandi eiginkona Páls skipstjóra. Þórður Snær vill meina að heimildarmenn séu Helgi Seljan og/eða Þóra Arnórsdóttir á RÚV, þar sem veika konan fór með síma skipstjórans á Efstaleiti. Blaðamaðurinn Þórður Snær vill gera aðra blaðamenn að heimildarmönnum í veikri von að þeir njóti friðhelgi. Ritstjórinn áttar sig ekki á að í leiðinni sakbendir hann á Þóru og Helga. Gögn málsins og kringumstæður útiloka að ,,þriðji aðilinn" geti verið einhver annar en starfsmaður RÚV.
,,Blaðamenn mega ekki tjá sig um uppruna gagna sem þeir hafa undir höndum samkvæmt ákvæðum laga sem fjalla um vernd heimildarmanna," skrifar Þórður Snær í leiðaranum.
Lögin sem Þórður Snær vísar til, Lög um vernd uppljóstrara, voru ekki sett til að blaðamenn mættu níðast á andlega veiku fólki. Ekki heldur heimila lögin stuld á einkagögnum. Þá er ekki ákvæði um að byrlun sé lögmæt aðferð til að komast yfir gögn. Enn síður leyfa lögin að blaðamenn séu heimildarmenn annarra blaðamanna og njóti þar með friðhelgi í refsimálum.
Leiðari Þórðar Snæs í Heimildinni gefur til kynna að hann undirbúi að Þóra Arnórsdóttir og/eða Helgi Seljan taki stærsta skellinn þegar dómskerfið tekur til við að vinna úr byrlunar- og símastuldsmálinu. Leiðarinn fer nærri að nafngreina þau sem ,,þriðja aðilann."
Þórður Snær kann hvorki heiðarlega blaðamennsku né lögfræði. Ef hann kynni faglega blaðamennsku og væri löghlýðinn borgari hefði hann ekki stöðu sakbornings.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.