Sunnudagur, 4. febrúar 2024
Trump, Sesar og lýðveldin tvö
Flestir búast við sigri Donald Trump í haust og hann verði forseti Bandaríkjanna í annað sinn. Margir, einkum frjálslyndir og vinstrimenn, töldu heimsendi í nánd þegar Trump sigraði 2016 og varð forseti. Ekki urðu heimsslit en Bandaríkin breyttust og munu enn breytast nái glókollur aftur kjöri í haust.
Kunnur álitsgjafi, sjálfstæðiskrati í íslenska pólitíska litrófinu, Andrew Sullivan, mætti í viðtal hjá Freddie Sayers á Unheard. Sullivan óttaðist endalok lýðveldisins 2016 en viðurkennir nú að hafa skotið yfir markið. Viðtalið er merkileg játning. Samkynhneigður frjálslyndur er hlynntur flestum stefnumálum Trump, t.d. að takmarka straum innflytjenda og berjast gegn woke-hugmyndafræðinni sem stórskemmir samfélagið, eyðileggur æsku og brýtur niður gamalgróin lífsgildi.
Tilfallandi hefur fylgst með Sullivan frá dögum hans sem ritstjóri New Republic. Kennimark Sullivan er tepruleysi.
Sullivan ætlar svo sannarlega ekki að kjósa Trump í haust. Glókollur er geðveikur, segir Sullivan. Lýðveldið gæti enn fallið með kjöri hans. Sullivan býst engu að síður við afgerandi sigri Trump. Tilfallandi neðanmálsgrein er að geðveikir tímar kalla á menn með fáeinar lausar skrúfur.
Lýðveldi, res publica, er rómversk uppfinning. SPQR, senatið og Rómarlýður, er enn á skjaldarmerki Rómarborgar. Hugmyndir lifa samtímann sem ól þær. Bandaríkin við stofnun á 18. öld tóku sér til fyrirmyndar stjórnarhætti rómverska lýðveldisins. Öldungadeildin, senatið, er á Kapítóluhæð í Washington líkt og í Róm til forna. Fulltrúadeildin er bandarísk útgáfa af tríbúnal Rómarlýðs, plebbum.
Heimsveldi Rómverja stóð í þúsund ár. Frá 509 fyrir Krist til 476 eftir fæðingu frelsarans. Fyrstu 500 árin var Róm lýðveldi en seinni hlutinn er kenndur við keisara. Stofnanir lýðveldisins störfuðu áfram, keisarinn var primus inter pares, fremstur meðal jafningja.
Júlíusi Sesar er kennt um endalok lýðveldisins. Kjörsonur hans Ágústus telst fyrsti keisarinn.
Heimsveldi lifa þótt stjórnkerfið, lýðveldið, taki stakkaskiptum. Trump er í sama hlutverkinu, verði hann forseti 2025, og Sesar var í á síðustu öld fyrir Krist. Eftir Trump 2025-2029 eru Bandaríkin ekki lýðveldi nema að nafninu til. Heimsveldið Bandaríkin gæti haldið velli en lýðveldið tæplega.
Samlíkingin virðist langsótt. Tvö þúsund ár skilja að Róm til forna og land hinna frjálsu og huguðu í dag. Hugtakið sem tengir gerólíku tímabilin, lýðveldi, er ekki skilið á sama veg þá og nú, mætti andæfa.
En það er meira sem býr undir. Stjórnkerfi, hvaða nafni sem þau nefnast, hvíla á sameiginlegum skilningi þeirra sem búa við kerfið, nauðugir viljugir, annars vegar og hins vegar getu kerfisins til að krefjast hollustu þegnanna. Kommúnismi Sovétríkjanna er sögulegt nýlegt dæmi um stjórnkerfi sem hrundi. Of langt var á milli veruleikans og hugmyndafræðinnar sem réttlætti stjórnskipun Marx og Leníns.
Í Sovétríkjunum var of lítið frelsi til að stjórnskipunin fengi staðist til lengdar. Í Bandaríkjunum er ábyrgðalaust frelsi að ganga af hugmyndinni dauðri að lýðnum sé treystandi. Með vali á Trump sem forseta biðja kjósendur um leiðréttingu á pólitískum kjörum. Meint frelsi sýnist mörgum óreiða er kalli á styrka hönd að koma skikki á.
Hugmyndafræði bandaríska lýðveldisins, samkvæmt Sullivan hér að ofan, hvílir á þeirri meginforsendu að allir séu jafnir fyrir lögum - líka forsetinn. Í Bandaríkjunum eru ekki allir jafnir fyrir lögum. Yfir 10 milljónir þegnanna eru ólöglegir. Þeir eru réttlausir og lögin ná ekki til þeirra, hvorki til að refsa þeim né veita þeim löglausu réttlæti, sé á þeim brotið.
Woke-hugmyndafræðin er valkostur við hugmyndina um lýðveldi. Woke kennir að landamæri séu af hinu illa. En lýðveldi án landamæra er mótsögn. Ef hver sem er getur vappað inn og út úr lýðveldinu eftir hentugleikum verður ómögulegt að framfylgja lögum lýðveldisins. Án laga er óreiða.
Woke boðar að hugsun standi ofar efnislegum og hlutlægum veruleika. John getur skipt um kyn í hádeginu með hugdettu, orðið Mary síðdegis og fengið legskoðun daginn eftir. Ef hægt er að sannfæra nógu marga að hversdagslegur hlutur eins og veður sé í raun loftslagsbreytingar hoppar fólk unnvörpum á hamfaravagninn og trúir að andardráttur manna valdi hamfarahlýnun. Úr verða hverskyns bábiljur í opinberri stefnumótun sem hafa áhrif til hins verra á líf fólks. Sænsk stúlka með fléttur keyrir heim boðskapinn.
Líkt og í Sovétríkjunum nýlega og Róm til forna er hugmyndafræðin sem réttlætir stjórnskipun Bandaríkjanna samtímans á skjön við veruleikann eins og hann blasir við þorra almennings. Lýðurinn sér bjargvætt í glókolli sem kallar hlutina réttum nöfnum og spyrnir fæti við fáránleika. Trump er verkfæri raunheima að leiðrétta sýndarveruleika. Einhver álíka og Trump kæmi alltaf til sögunnar; geðveikir tímar kalla á menn með fáeinar lausar skrúfur.
Athugasemdir
Þðo ekki væri nema leiðina út úr "drallinu"
Helga Kristjánsdóttir, 5.2.2024 kl. 14:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.