Páll skipstjóri ritskoðaður á Vísi, síðan úthýst

Vísir.is neitar að birta aðsenda grein Páls skipstjóra Steingrímssonar. Blaðamaðurinn sem gaf skipstjóranum afsvar, Kolbeinn Tumi Daðason, skrifaði málsvörn sakborninga í byrlunar- og símastuldsmálinu, sem skipstjórinn vildi andmæla en fékk ekki.

Páll skipstjóri bað Vísi.is um að birta grein eftir sig 8. janúar. Skipstjórinn vildi svara rangfærslum í frétt Kolbeins Tuma frá 6. janúar, sem að stórum hluta byggði á Facebook-færslum Þórðar Snæs og Aðalsteins Kjartanssonar. Báðir eru sakborningar í sakamálarannsókn vegna byrlunar og símastuldar, en þar er skipstjórinn brotaþoli. Frétt Kolbeins Tuma gekk út á að skipstjórinn hefði hótað blaðamönnum, sem er rangt.

Grein skipstjórans birtist ekki. Eftir ítrekun frá skipstjóranum svaraði Kolbeinn Tumi með tölvupósti síðdegis 9. janúar. Hann skrifaði

Aðsendar greinar þar sem um persónulegar deilur er að ræða eða dómsmál getur tekið lengri tíma að afgreiða en aðrar vegna helgarfría starfsfólks.

Við metum það svo að einstökum Facebook-statusum sé eðlilegra að svara á sama vettvangi.

Kolbeinn Tumi gerði frétt úr ,,Facebook-statusum" sakborninganna Þórðar Snæs og Aðalsteins en neitar brotaþola, Páli skipstjóra, um andsvör. Páll bað Kolbein Tuma ekki um að skrifa frétt fyrir sig, eins og blaðamaðurinn gerði fyrir sakborninga. Skipstjórinn hafði þá einu ósk að birta aðsenda grein. En var neitað að tjá sig á vettvangi Vísis.is.

Kolbeinn Tumi blaðamaður skrifar í þágu sakborninga en neitar brotaþola um andsvar. Samt á það að heita að blaðamenn séu útverðir lýðræðisins. Þeir fá fjórðung launa sinna úr ríkissjóði. Í þágu lýðræðis og málfrelsis. 

Í reynd ritskoða blaðamenn fyrir sig prívat og persónulega sem og fyrir félaga og vini í starfsstéttinni sem hafa stöðu sakborninga í alvarlegu refsimáli.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kolbeinn Tumi tekur sér ritskoðunarvald yfir skipstjóranum. Í nóvember á liðnu hausti stóð Páll í stappi við blaðamanninn að fá grein birta á Vísi.is. Kolbeinn Tumi þjarkaði við skipstjórann um hve hátt hlutfall ritstjórnar Heimildarinnar væri grunaður um glæp. Páll sagði þriðjungur, byggði á ársskýrslu Heimildarinnar, en Kolbeinn Tumi fullyrti að aðeins fjórðungur ritstjórnar Heimildar væri sakborningar. Aftur ritskoðar blaðamaðurinn fyrir starfsfélaga sína á öðrum fjölmiðli. Samtrygging blaðamanna í framkvæmd.

Fjölmiðillinn Vísir.is lætur það gott heita að blaðamaður ritskoði aðsendar greinar. Á öllum alvöru fjölmiðlum erlendis er stífur aðskilnaður milli blaðamanna og þeirra sem veita aðsendum greinum viðtöku og ákveða hvort þær skuli birtar. Blaðamaður getur ekki verið óhlutdrægur þegar aðsend grein gerir aðfinnslur við skrif blaðamannsins. Fjölmiðill vandur að virðingu sinni starfar ekki með þessum hætti. Á Vísi.is gilda ekki heiðarleg vinnubrögð í þágu lýðræðis og upplýstrar umræðu.

Vísir.is er verkfæri blaðamanna að þjóna sinni lund, líkt og sumir aðrir miðlar, t.d. RÚV og Heimildin. Ríkisvaldið á ekkert með að fjármagna aðgerðasinna sem kalla sig blaðamenn. Um leið og blaðamenn af þessari sort fá tækifæri til meina þeir öðrum að taka til máls í fjölmiðlum, brjóta á tjáningarfrelsi annarra með því að virða jafnræðisregluna að vettugi.

Ef tilfallandi bloggari hefði ekki tekið upp á sitt einsdæmi að fjalla um byrlunar- og símastuldsmálið hefðu sakborningarnir alfarið stýrt fréttum af málinu. Þeir sem grunaðir eru um glæpinn halda þeirri firru fram að skipstjóranum hafi ekki verið byrlað, síma hans ekki stolið og að blaðamenn hafi ekki misnotað andlega veika eiginkonu hans. Aftur sýna gögn lögreglu, sem þegar eru komin í umferð hjá sakborningum og brotaþola, að skipstjórnum var byrlað, síma hans var stolið og hann afritaður á RÚV og að blaðamenn sýndu alvarlega andlega veikri konu fullkomið miskunnarleysi. Blaðamennirnir réðust á hjónaband Páls skipstjóra. Mikið veik eiginkona vann óhæfuverk; byrlaði eiginmanni sínum, stal síma hans og færði blaðamönnum.

Blaðamenn RSK-miðla, RÚV ásamt Stundinni og Kjarnanum, sem nú heita Heimildin, fullyrða að þeir sæti ofsóknum af hálfu lögreglu fyrir að skrifa fréttir. Fullyrðingin er rakinn þvættingur sem starfsfélagar sakborninga, aðrir blaðamenn, enduróma. RÚV birti enga frumfrétt úr síma skipstjórans, miðstöð glæpsins var á Efstaleiti. Þar voru fréttirnar skrifaðar til birtingar í Stundinni og Kjarnanum, samkvæmt skipulagi. Enda birtist þýfið í formi frétta í Stundinni og á Kjarnanum sama dag og á sömu klukkustund, þann 21. maí 2021. Skipulagið sýnir ásetning. Blaðamenn vissu að skipstjórinn yrði gerður óvígur og síma hans stolið áður en glæpurinn var framinn. Þóra Arnórsdóttir á RÚV keypti í apríl Samsung-síma til að afrita síma skipstjórans, - sem var byrlað í byrjun maí.

Furðuveröld sakborninga, um að þeir séu til rannsóknar fyrir að skrifa fréttir, á greiða leið í fjölmiðla en sjónarmið brotaþola eru ritskoðuð og úthýst af fjölmiðlum. Þetta er ekki boðlegt. 

Sannanlega skrifaði Kolbeinn Tumi frétt í þágu sakborninga þann 6. janúar. Tilfallandi gerði athugasemd og leiðrétti Kolbeinn Tumi eina villuna en aðrar stóðu eftir. Páll skipstjóri vildi taka til máls á sama vettvangi og falsfréttin birtist, á Vísi.is. En blaðamaðurinn Kolbeinn Tumi sagði nei, þú getur bara skrifað Facebook-færslu.

Í ljósi framferðis íslenskra blaðamanna, sumir eru sakborningar, formaður þeirra er skattsvikari, aðrir ritskoða og heilu ritstjórnirnar temja sér verklag aðgerðasinna, er ótækt að ríkisvaldið ausi fé í stéttvísa spillingu

Fréttaflutningur á Íslandi væri heiðarlegri, faglegri og sanngjarnari ef ríkisniðurgreiddir blaðamenn heyrðu sögunni til. Ríkislaun til blaðamanna ala á ábyrgðarleysi, ófaglegu vinnulagi og leiðir suma blaðamenn á braut afbrota. Eins og dæmin sanna.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Dögg Sverrisdóttir

Ég er á sama stað og Páll. Vísir.is birtir engar greinar um trans-málefni nema maður hylli málaflokki. Vísanir í rannsóknir og greinar útlendra sérfræðinga er einskis metið í augum Vísis manna.

Merkileg blaðamennska. Þetta gerist ekki á hinum Norðurlöndunum, þar mega alla konar málefni birtast á ábyrgð höfundar. Þeim færkkar blöðunum sem hægt er að lesa hér á landi.

Helga Dögg Sverrisdóttir, 16.1.2024 kl. 07:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband