Heimsþorpið klofnar á Íslandi, Clinton sniðgengin

Hillary Clinton, þá forsetafrú, sendi frá sér bók 1996 um að til að ala börn þyrfti þorp. Undirtitill: barnalærdómur fyrir fullorðna. Bókin var ætluð bandarískum lesendum. Titill bókarinnar var óbein tilvísun til Marshall MacLuhan sem kynnti hugmynda um stafræna heimsþorpið þegar 1964. Stafrænn heimur gerir alla eins. Samanber Þokkabót, litlir kassar á lækjarbakka.

Við lok kalda stríðsins verður óformlegt samkomulag milli frjálslyndra og vinstrimanna á vesturlöndum um dagrenningu heimsþorpsins. Íhaldsmenn af gamla skólanum voru skeptískir en buðu engan valkost. Heimurinn skyldi endurskapaður á vestræna vísu. Tækni, menning og lýðræði ættað úr vestri yrði hlutskipti heimsþorpsins.

Clinton-hjónin, Bill og Hillary, og Obama forseti klöppuðu þorpssteininn. Bush-feðgarnir voru sama sinnis. Vestræna elítan fylgdi í humátt á eftir.

En nú bregður svo við að heimsþorparar á Íslandi, rithöfundar þekktir fyrir vinstrimennsku, ætla að sniðganga Hillary spámann sinn til áratuga.

Hvað gerðist? Hvers vegna hlaupa út undan sér villingarnir til vinstri? Jú, það er klofningur í söfnuðinum.

,,Heimsþorpið verður múslímsk martröð," skrifaði tilfallandi fyrir níu árum. Um miðjan síðasta áratug var orðið bert að þótt vestræn tækni ryddi sér til rúms um allar trissur heimsbyggðarinnar fylgdu ekki í kjölfarið vestrænir siðir og enn síður lýðræði og vestrænt gildismat. Vesturheimskir bjuggu til hugtakið arabíska vorið sem var án innihalds. Árið 2016, með Brexit og kjöri Trump, afhjúpuðust brestirnir. Heimsþorpið var byggt á sandi. 

Clinton er á móti vopnahlé í Gaza, segja íslenskir klyfberar vinstrimennskunnar, og skal sniðgangast. Vopnahlé í Gaza er kóði fyrir stuðning við Hamas hryðjuverkasamtökin. Hamas efndi til fjöldamorða á konum, börnum og gamalmennum 7. október, slátraði um 1400 og tók yfir 200 gísla. Í kjölfarið réðst Ísraelsher inn í Gaza til að uppræta hryðjuverkasamtökin. Hamas þarf vopnahlé og vinstrimenn á Íslandi hlýða kallinu, bæði rithöfundar og háskólaborgarar. Þeim er umhugað að hryðjuverkasamtökin nái vopnum sínum og efni til nýrra fjöldamorða í landinu helga, vestræna verkefninu fyrir botni Miðjarðarhafs.

Hvur þremillinn? Var ekki vinstrið sameinað um vestrænt heimsþorp? Ætti söfnuðurinn ekki að dásama Ísrael, eina vestræna fjölræðisríkið í arabíska og múslímska menningarheiminum? Neibb, það skal ekki dásama heldur ósama [bin landen]. Vænn hluti safnaðarins er steinaldarsinnar, og hefur alltaf verið, studdi Pol Pot á áttunda áratug síðustu aldar, Osama Bin Laden um aldamótin og nú Hamas. 

Tveggja áratuga gamalt bréf frá Osama fær dreifingu síðustu daga, á TikTok og Guardian. Þar mærir Osama mannhatur, einkum er það beinist að Ameríku og gyðingum. Vinstrimenn knéfalla, læka og deila.

Þjóðverjar þekkja afleiðingar mannvonsku klædda í fábjánahugmyndafræði. Í Die Welt skrifar Alan Posener

Þeir, sem ekki verja rétt gyðinga til þjóðríkis, við núverandi aðstæður, yfirgefa fyrstu og mikilvægustu varnarlínu siðmenningar okkar. Af þeirri ástæðu, umfram sögulega sekt, er öryggi Ísraelsríkis tilvistarrök okkar. 

Posener ræðir frumhatrið, hvernig það fyrir um átta áratugum birtist í Auschwitz, fyrir um 20 árum í árásinni á tvíturnana í New York og núna með fjöldamorðunum 7. október í Suður-Ísrael. Frumhatrið á sterk ítök í vestrænni menningu. Gleðigangan í heimsþorpinu á 21stu öld var blekking. Gleðin er yfirvarp til að kollsteypa tvö þúsund ára arfi gyðingdóms og kristni.

Þeir frjálslyndu kveikja um síðir á perunni sem alltaf tírði í höfði íhaldsmanna þótt ekki væri ljósmagninu til að dreifa. Steinaldarvinstrimenn eru á hinn bóginn njörvaðir við frumheimskuna; tala tungum en skilja ekkert.

Velkomin í heim raunsæis á mannlegt eðli, gæti verið titill næstu bókar Hillary Clinton.

 

 


mbl.is Tugir höfunda sniðganga Iceland Noir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Vonandi tírir ledgerðin ekki í höfði íhaldsmanna!

Helga Kristjánsdóttir, 18.11.2023 kl. 19:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband