Jóhannes réð Þorgeir í vinnu hjá Namibíumönnum

Jóhannes Stefánsson uppljóstrarinn i Namibíumálinu réð Þorgeir Pálsson ráðgjafa í vinnu hjá namibíska ríkisfyrirtækinu Fishcor. Þorgeir var í aðra röndina fulltrúi Ísfélagsins, sem Jóhannes ætlaði að skipta út fyrir Samherja sumarið 2016 að veiða namibískan kvóta.

Tilfallandi fjallaði síðustu helgi um Þorgeir og Jóhannes í tengslum við frétt Helga Seljan, þar sem nafn Jóhannesar var strokað út.

Upplýsingar um Þorgeir og stöðu hans liggja í málsskjölum Namibíumálsins. Þorgeir átti trúnaðarvin heima á Íslandi sem hann sendi upplýsingar og leitaði ráða hjá vegna stöðu mála þar syðra.

Í þeim tölvupóstum segist Þorgeir vera á launum hjá Fishcor en hann fór til Namibíu á vegum Ísfélagsins, m.a. vegna þess að þar starfar bróðir Jóhannesar. Hugmynd Jóhannesar, sem var starfsmaður Samherja, var að Ísfélagið kæmi inn í stað norðlensku útgerðirnar. Samherjamenn grunuðu Jóhannes um græsku. Auk þess að brjóta trúnað við atvinnuveitanda var hann orðinn kyndugur í háttum vegna áfengis- og fíkniefnaneyslu.

Þorgeir heimsótti Jóhannes á síðustu dögum hans í starfi hjá Samherja. Jóhannes hafði þá verið í Namibíu í átta ár, skrifar Þorgeir heim. Ítök Jóhannesar í namibísku stjórnsýslunni voru slík að Þorgeir fékk laun frá opinberri namibískri stofnun, Fishcor, á meðan hann vann skýrslu um mögulega aðkomu Ísfélagsins að veiðum og vinnslu í Namibíu.

Þorgeir greinir trúnaðarvini sínum á Íslandi frá sögum sem gangi um Jóhannes, að hann sé lítið í vinnunni vegna neyslu áfengis og fíkniefna. ,,Stundum hefur mér þótt hann tala eins og hann væri fullur," skrifar Þorgeir. Þá segir að Jóhannes hafi með sér ,,fylgdarmenn" en góðvinur uppljóstarans var málaliði, atvinnuhermaður. 

Vitnisburður Þorgeirs staðfestir að Jóhannes rak starfsemina í Namibíu eins og einvaldur. Hann var með öll viðskiptatengslin og með þau tök á namibísku stjórnsýslunni að hann gat ráðið Íslending í vinnu hjá namibískri ríkisstofnun.

Þegar Namibíumálið var kynnt til sögunnar, í Kveiks-þætti RÚV í nóvember 2019, var dregin upp sú mynd af Jóhannesi uppljóstrar að honum hefði verið fjarstýrt frá Eyjafirði og aðeins framkvæmt það sem honum var sagt að gera. Tölvupóstar Þorgeirs, sem skrifaðir voru þegar atburðirnir gerðust, sýna á hinn bóginn að Jóhannes fór sínu fram í trássi við fyrirtækið sem hann að nafninu til starfaði hjá. Uppljóstrarinn rak útgerðina í Namibíu eins og sitt einkafyrirtæki.

Enn er það svo að RÚV og samstarfsmiðillinn Heimildin, birta ekki fréttir sem sýna aðra hlið mála en þá falsmynd sem dregin var upp í nóvember 2019 af hálfu ríkisfjölmiðilsins i samvinnu við einvaldinn í Namibíu sem gerðist uppljóstari.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

RUV er rúið trausti. 

Heimir Lárusson Fjeldsted, 3.11.2023 kl. 12:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband