Sunnudagur, 22. október 2023
Darwinismi fórnarlambanna
Þeir hæfustu lifa af, er hugsun ættuð frá Charles Darwin um miðja 19. öld. Náttúruval heitir kenningin og er ætlað að lýsa þróun lífs á jörðinni. Það lífsform sem best stenst samkeppni í náttúrunni eignast fleiri afkvæmi en þau lífsform sem búa að minni aðlögun. Afleiðingin er að sumar tegundir deyja út en þær hæfustu lifa af. Segir kenningin.
Lítt þekkt staðreynd, en mun þó vera sönn, er að 99% af öllum lífstegundum í sögu jarðlífsins eru útdauðar. Að segja ,,sumar" tegundir lifa af er rangmæli; þær deyja út. Nema þetta eina prósent sem fékk happadrættismiða.
Um aldamótin 1900 var komin til sögunnar samfélagsútgáfa af náttúruvali Darwins, félagslegur darwinismi. Sú útgáfa skipti fólki í æðri og óæðri tegundir. Reykurinn úr ofnunum í Auschwitz-Birkenau var óbein, ef ekki bein, afleiðing af félagslegum darwinisma.
Í okkar samtíma er orðin til enn ein útgáfan af kenningunni um náttúruval. Það má nefna útgáfuna öfugan darwinisma eða, eins og gert er í fyrirsögn, darwinisma fórnarlambanna.
Kjarninn í darwinisma fórnarlambanna er að þeir samfélagshópar sem geta útmálað sig sem mestu förnarlömbin munu erfa landið, þeirra verði almættið. Hugsunin að baki er að fátt veki meiri andstyggð meðal nútímamannsins en vanlíðan. Normið, nýja guðspjallið, er vellíðan. Andstaða þess er vanlíðan sem skal úthýsa með öllum tiltækum ráðum úr mannlífinu.
Vanlíðan er hlutskipti mannsins. Erfiði er vanlíðan sem þjónar tilgangi. Eftir strit við að stinga upp kartöflugarð eða yrkja ljóð fylgir ánægja, - að því gefnu að sæmilega hafi tekist til. Þessi sjálfsögðu sannindi um tilveru mannsins fara fyrir ofan garð og neðan darwinisma fórnarlambanna.
Nýja guðspjallið byggir á trúarsetningu um himneskt jarðlíf velmegunar og ánægju. Eins og nærri má geta er trúarkenningin vestræn út í gegn. Það er aðeins á vesturlöndum sem efnahagsleg velsæld er komin á það stig að einhverjum dytti í hug að dreifa mætti jafnt lífsánægjunni. En það er ekki hægt. Lífsánægja er hugarástand sem verður aldrei til með samfélagsverkfræði.
Sérviskuhópar af margvíslegu tagi hafa sprottið fram og keppast við að lýsa sjálfa sig sem mestu fórnarlömbin er fari á mis við vellíðan er skuli vera almenn mannréttindi. En það eru ekki mannréttindi að líða vel í eigin skinni. Maður þarf sjálfur að leggja eitthvað af mörkum.
Sérviskuhóparnir krefjast ekki aðeins efnahagslegrar velmegunar heldur sálarró sem fylgir því að vera ekki andmælt. Afnám hugsana- og málfrelsis er sameiginlegt einkenni félagslegs darwinisma og darwinisma fórnarlambanna. Í báðum tilfellum er æðsta boðorðið pólitísk rétthugsun. Herraþjóðin og fórnarlömbin eru tvær hliðar á sömu mynt.
Félagslegur darwinismi er mannvonska. Darwinismi fórnarlambanna er heimska. Í sögu ismanna frá Darwin myndu sumir segja að skárra sé heimskt samfélag en mannfjandsamlegt. Það er ekki huggun harmi gegn. Mannvonskan vex upp úr heimsku.
Athugasemdir
Og við manninn sagði hann (Guð): Af því að þú hlýddir röddu konu þinnar (Kvennaverkfall) og ást af því tré, sem ég bannaði þér, er ég sagði: Þú mátt ekki eta af því, þá sé jörðin bölvuð þín vegna.
Með erfiði skalt þú þig af henni næra alla þína lífdaga. Þyrna og þistla skal hún bera þér, og þú skalt eta jurtir merkurinnar. Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn.
Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa! (1.Mós. 3:17-19).
Nú er ég glaður í þjáningum mínum yðar vegna. Það, sem enn vantar á þjáningar Krists, uppfylli ég með líkamlegum þjáningum mínum til heilla fyrir líkama hans, sem er kirkjan. (Kól. 1: 24).
Guðmundur Örn Ragnarsson, 22.10.2023 kl. 11:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.