Fimmtudagur, 14. september 2023
Sigríður Dögg: 2 daga þögn fjölmiðla
Formaður Blaðamannafélags Íslands og fréttamaður RÚV, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, játaði með einhliða yfirlýsingu á Facebook að hafa ekki talið fram tekjur af húsnæði í útleigu á Aírbnb. Eftir yfirlýsinguna ríkir þögnin ein á fjölmiðlum.
Hvers vegna er þögnin stórundarleg? Jú, Sigríður Dögg sjálf sagði eftirfarandi í uppslætti á Vísi fyrir tíu mánuðum
Einhliða yfirlýsingar ekki heiðarlegt svar við erfiðum málum
Nánar útskýrði formaður Blaðamannafélags Íslands í fréttinni:
Það segir sig sjálft að stöðuuppfærsla eða einhver yfirlýsing eins og þetta er alltaf bara einhliða. Þetta er voðalega þægileg leið ef þú ert hræddur við að koma og reyna að svara spurningum, þá er þetta kannski auðveldasta leiðin en þetta er ekki heiðarlegasta leiðin, sagði Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélagsins.
Hvers vegna er Sigríður Dögg hrædd og gefur út einhliða yfirlýsingu? Hvers vegna eru fjölmiðlar hræddir og óheiðarlegir og þegja með formanni stéttafélags blaðamanna?
Áður en formaðurinn birti yfirlýsinguna sýndu fjölmiðlar málinu áhuga, t.d. mbl.is og Mannlíf. DV birti Facebook-færslu Sigríðar Daggar en síðan ekki sögunni meir. Engin eftirfylgni, aðeins einhliða útskýring gerandans. Mannlíf segir ástæðuna samúð með formanninum. Samúð með ófaglegri og óheiðarlegri blaðamennsku er játning um að fjölmiðlar séu tæki til að blekkja, hylma yfir og þar með stuðla að lögbrotum.
Mörgum spurningum er ósvarað um skattsvik Sigríðar Daggar. Hve lengi stóðu undanskotin? Hve há var fjárhæðin sem hún stóð ekki skil á? Hver var sektarfjárhæðin sem Sigríður Dögg varð að greiða? Hvers vegna sveik hún undan skatti? Finnst formanni Blaðamannafélags Íslands að skattsvikarar eigi að sitja átrauðir áfram í trúnaðarstöðum?
Í yfirlýsingu sinni segist Sigríður Dögg ekki hafa notið sérstakrar fyrirgreiðslu hjá skattrannsóknastjóra. Það felur í sér að hún hefur gert samanburð á meðferðinni sem hennar mál fékk hjá skattinum og öðrum sambærilegum málum. Hvernig lítur sá samanburður út?
Mörgum spurningum er ósvarað. En það spyr enginn Sigríði Dögg formann félags blaðamanna og fréttamann á RÚV. Stöðuuppfærslan á ein að nægja. ,,En þetta er ekki heiðarlegasta leiðin," eins og Sigríður Dögg og Vísri sögðu fyrir tíu mánuðum. Ganga blaðamenn til verka með óheiðarleika að leiðarljósi? Undanskot Sigríðar Daggar eru hluti af stærra máli, 25 milljarða skattsvikum í Airbnb-útleigu. Á að þegja um það uppgjör? Verður ekki spurt um hve mikið innheimtist af skipulögðu skattsvindli af tillitssemi við formann Blaðamannafélags Íslands?
Fjölmiðlar grafa sína eigin gröf með því að þegja yfir óþægilegum málum blaðamanna. Tveggja daga þögnin er hávær og verður háværari er dögunum fjölgar. Fjölmiðlar glata trúverðugleika sínum þegar þeir taka hagsmuni blaðamanna fram yfir almannahag. Upplýsingar um skattsvik blaðamanns í æðstu trúnaðarstöðu stéttarfélags blaðamanna eiga erindi til almennings. Blaðamenn sem ekki sjá þessa einföldu faglegu staðreynd eru almannatenglar í þjónustu sérhagsmuna og ómarktækir eftir því.
Athugasemdir
Dómharka hefur gjarnan svona boomerang áhrif.
Ragnhildur Kolka, 14.9.2023 kl. 21:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.