Miðvikudagur, 6. september 2023
Mútumálið á Selfossi og glæpir RSK-miðla
Meint mútumál Heimildarinnar gerist á Selfossi fyrir þrem árum. Tveir vinir til langs tíma, Tómas Ellert Tómasson þáverandi bæjarfulltrúi og Leó Árnason fjárfestir, hittast. Tómas Ellert tekur ljósmynd af texta sem varpað er á skjá á fundinum. Fyrirsögnin á textanum er ,,Efni: minnispunktar og samkomulag."
Heimildin opnaði málið á föstudag. RÚV birti frétt (og mynd af skjátextanum) á sunnudagskvöld. Mbl.is fjallar um málið í fyrradag, sjá viðtengda frétt, og aðrir miðlar sömuleiðis. Málið þykir fréttaefni sem almenningur þarf að fá vitneskju um.
Gott og vel. Um hvað snýst meint mútumál? Tómas Ellert segist hafa fengið tilboð um fjárstuðning fyrir framboð sitt gegn því að hann beitti sér fyrir að Árborg/Selfoss félli frá forkaupsrétti á Landsbankahúsinu í miðbæ Selfoss en þar á Leó fjárfestir hagsmuna að gæta. Jafnframt er upplýst að sveitarfélagið hafi fallið frá forkaupsrétti áður en fundur félaganna tveggja var haldinn. Langsótt er að gera tilboð um mútur fyrir eitthvað sem þegar er orðið að veruleika.
Lesendur geta sjálfir metið hvort hér sé á ferðinni mútugjöf, skjátextann má lesa í frétt RÚV. Í textanum er talað um vinnuhóp og að undirritaðir verði leiðandi í skipulagsvinnu. Ekki segir i textanum hverjir séu í vinnuhópnum né heldur hverjir ætla að undirrita. Tómas Ellert og Leó segja báðir að fundurinn hafi verið tveggja manna.
Ef það er svo, eins og Tómas Ellert lætur í veðri vaka, að félagarnir tveir hittist reglulega og skrifi minnispunkta um samtölin ætti honum að vera í lófa lagið að leggja fram álíka fundargerðir/minnispunkta/samkomulag fyrir og eftir nóvemberfundinn 2020. Almenningur sæi samhengi vináttunnar og hvort samsæri gegn almannahagsmunum sé reglulega á dagskrá eða stakt tilfelli.
Hvaða álit hefur Tómas Ellert á nánum félaga sem biður hann um að svíkja trúnað við almenning? Móðgaðist hann ekkert við tilboðið? Tómas Ellert átti að fá eina til tvær milljónir fyrir viðvikið. Lítil fjárhæð miðað við hagsmuni. Landsbankahúsið fór á 360 milljónir kr. Gaf Tómas Ellert til kynna að hann væri falur fyrir lítið fé?
Tómas Ellert er einn til frásagnar um meint tilboð um mútur. Skjátextinn er eina skriflega heimildin. Einbeittan ásetning þarf til að lesa mútugjöf inn í textann. Eina sem undarlegt er við fundinn er að tveir menn, æskufélagar, setji á skjávarpa texta um umræðuefni sitt. Er annar hvor þeirra eitthvað vanfær? Ef umræðuefnið hefur orðið að samkomulagi, undirrituðu, ætti sá texti að vera til, í tölvupósti til dæmis.
Eftirfarandi er haft eftir Tómasi Ellerti í Heimildinni:
Íslandi er stundum líkt við Sikiley, hér er nándin svo mikil og menn þora ekki að stíga fram. En ég er bara þannig gerður að ég er kjarkaður, ég óttast engan og ekkert og hef aldrei gert.
Engu að síður þurfti Tómas Ellert að safna kjarki í þrjú ár til að ,,stíga fram." Mýfluga verður að úlfalda á skemmri tíma. Minnir svolítið á Jóhannesarguðspjallið síðara. Kannski var Tómas Ellert að hugsa um Namibíu þegar hann sagði Sikiley.
Namibíu- og Selfossmálin eiga fleira sameignlegt en einstaklinga sem fá opinberun um spillingu löngu eftir að hún fór fram. Ingi Freyr Vilhjálmsson blaðamaður Heimildarinnar skrifar Selfossfréttina. Bróðir hans Finnur Þór Vilhjálmsson er saksóknari hjá héraðssaksóknara og rannsakaði Namibíumálið, sem Ingi Freyr fylgdi úr hlaði, þá blaðamaður á Stundinni. Nú er Selfossmálið komið til héraðssaksóknara. Fer Finnur Þór fyrir rannsókninni? Bræðurnir unnu líka að Sjólamálinu, Ingi Freyr skrifaði fréttir og Finnur Þór saksótti. Bræður í glæpum komu heim með öngulinn i rassinum úr báðum veiðiferðunum, kenndum við Namibíu og Sjólaskip. Fer á sömu lund með Selfossmálið? Geta blaðamenn með rétt fjölskyldutengsl pantað þjónustu héraðssaksóknara til að gera vafasamar fréttir trúverðugar?
En, sem sagt, meint mútumál á Selfossi þykir frétt í öllum fjölmiðlum landsins. Fréttamat er huglægt, rétt eins og siðleysi er huglægt ástand.
Víkur þá sögunni að glæpum sem blaðamenn RSK-miðla (RÚV og Heimildin) eru grunaðir um aðild að, hafa stöðu sakborninga í lögreglurannsókn. Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað, síma hans stolið og hann afritaður. Sakarefnin eru byrlun, þjófnaður og brot á friðhelgi einkalífs, ekki aðeins Páls heldur einnig Örnu McClure lögfræðings. Þáverandi eiginkona Páls, sem glímir við alvarleg andleg veikindi, var leiksoppur blaðamannanna, sem m.a. hirtu af henni símkort þegar fela átti samskiptaslóðina.
Mútumálið á Selfossi er tittlingaskítur í samanburði við glæpina gegn Páli skipstjóra. Fjölmiðlar velta sér upp úr tittlingaskítnum en stunda ákaft þögnina um stórglæpinn. Hver ætli sé skýringin á því?
Er það svo, eins og Tómas Ellert, höfundur Selfossmálsins, segir: ,,hér er nándin svo mikil og menn þora ekki að stíga fram"? Spurt á mannamáli: eru blaðamenn upp til hópa siðlausir hugleysingjar, sem nýta sér bágindi annarra, drykkjuskap og geðveiki, og slá sig í leiðinni til riddara? Bíta síðan höfuðið af skömminni er þeir úthluta sjálfum sér verðlaun fyrir óhroðann og kalla blaðamennsku.
Héraðssaksóknari hefur rannsókn á meintu mútumáli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Greinilega traustir vinir.
Ragnhildur Kolka, 6.9.2023 kl. 15:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.