Þriðjudagur, 5. september 2023
Sigur á vígvellinum, ráðherra rekinn
Varnarmálaráðherra Úkraínu er rekinn samtímis sem sigrar á vígvellinum eru tilkynntir. Í stríði fá menn heiðursmerki fyrir landvinninga, eru ekki látnir taka pokann sinn. Hljóð og mynd fara ekki saman.
Gagnsókn Úkraínu er þriggja mánaða, hófst 4. júní. Mannfallið er um 50 þúsund hermenn. Ógrynni hergagna hefur farið forgörðum. Sáralítið landsvæði hefur unnist.
Stjórnin í Kænugarði er komin að þolmörkum, segir Die Welt, útgáfa sem heilshugar styður Úkraínu. Economist styður einnig Úkraínu en segir sömu sögu. Selenskí og félagar eiga ekki lengur hug og hjörtu úkraínsku þjóðarinnar, stríðsþreyta gerir vart við sig.
Varnamálaráðherra Úkraínu var fórnað. Einhver varð að taka á sig ófarirnar á vígvellinum.
Kænugarður er að verða uppiskroppa með fallbyssufóður, menn til að senda á blóðvöllinn. Nýverið var tilkynnt um spillingu í öllum héruðum landsins þar sem herkvaðning skilar ekki tilætluðum árangri. Karlmenn kaupa sig í þúsundavís undan herþjónustu með fölskum læknisvottorðum.
Sigur Úkraínu er ekki í sjónmáli. Ekki heldur er rússneskur sigur á næsta leiti. Munurinn er sá að Rússar búa að fjórum til fimm sinnum meiri mannfjölda en Úkraína. Á meðan Nató-ríkin senda ekki hermenn í sléttustríðið er reikningsdæmið einfalt. Úkraínumenn þrýtur fyrr örendið en Rússum.
Hvers vegna er ekki samið um vopnahlé í stríði bræðraþjóðanna? Sitjandi valdhafar í Kænugarði annars vegar og hins vegar Kreml sjá fram á öngþveiti, óreiðu og upplausn ríkisins í óhagfelldum friði. Bæði ríkin búa að minningu um byltinguna 1917.
Valdaskákina verður að tefla til enda. Utanaðkomandi sjá tilgangsleysi mannfórna. Innherjar hildarleiksins aftur myrka tíð án sigurs.
Skiptir um varnarmálaráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Svo má minnast á söguna endalausu um F-16 herþoturnar sem sem kosta á bilinu 13 - 80 miljónir dollara eftir því hvaða búnaður fylgir og enginn úkraínumaður kann að fljúga.
Margoft hafa þær verið bara rétt ókomnar til Úkraínu
Grímur Kjartansson, 5.9.2023 kl. 07:57
Svo koma úraníum hertu skotfærin eins og í Írak..
Guðmundur Böðvarsson, 5.9.2023 kl. 16:35
Hvað varðar F-16 þoturnar þá dregst afhending þeirra þar til úkraínsku flugmennirnir hafa lært nógu mikið í ensku til að læra að fljúga þeim.
En ástandið er alvarlegra en það. Varaliðið er á þrotum og nú hafa Pólverjar tekið til við að senda úkraínska flóttamenn á herskyldualdri aftur til síns heima. Þeir munu vera um 80 þús. og um 163 þús í þýskalandi.
Mannvinirnir í ESB telja ekki eftir sér að fóðra hakkavélina í Úkraínu.
Ragnhildur Kolka, 5.9.2023 kl. 22:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.