Sunnudagur, 3. september 2023
Helga Vala, RSK-sakamálin og töfrar þagnarinnar
Helga Vala hættir á þingi fyrir Samfylkinguna og opnar lögfræðistofu. Ég mun taka upp þráðinn í sakamálum, mér finnast þau spennandi og skemmtileg," segir þingmaðurinn um skyndilega afsögn sína.
Hér er eitthvað málum blandið.
Hvernig veit Helga Vala að hún fái vinnu við sakamál? Atvinnuglæpamenn eru með lögmenn á sínum snærum, fylgir starfinu. Ekki bíða þeir eftir lögmennsku þingmanns. Óorðnir afbrotamenn kaupa sér ekki fyrirfram lögfræðiþjónustu.
Þá eru eftir þeir sem eru grunaðir um glæp en bíða ákæru og réttarhalda. Þar eru fremstir í flokki blaðamenn RSK-miðla (RÚV, Stundin og Kjarninn/Heimildin). Í byrlunar- og símastuldsmálinu er vitað um fjóra blaðamenn sem sakborninga og sá fimmti gæti bæst við.
Blaðamennirnir eru þöglir sem gröfin og fjölmiðlar meðvirkir að halda fréttaumfjöllin í lágmarki. Eftir ákæru er ekki lengur hægt að þegja. Málsgögn verða opinber.
Sjálft er RÚV ekki formlega á sakabekk en stappar nærri. Þrír, mögulega fjórir, starfsmenn RÚV verða að líkindum ákærðir. Miðstöð glæpsins og skipulag var á Efstaleiti. Helga Vala útskýrir hvers vegna skrifborðslögmenn henti illa í slík mál. Þigmaðurinn segir sig klæðskerasniðinn í sakamál þar sem opinber málafylgja er áhrifaríkari en lögvörnin.
Já, þetta er leikhús, svona það sem snýr að almenningi. Ég held að menntun mín hafi nýst vel þarna, bæði lögfræðin og leiklistin. Að kunna að beita röddinni, þekkja töfra þagnarinnar, hafa presens og ná valdi á salnum. Sem raunar á líka við í dómsal.
Sem stendur umlykja ,,töfrar þagnarinnar" RSK-sakamálið. En það styttist í að ,,presens" skipti máli. Höfuðatriði er að ,,ná valdi á salnum." Verður Helga Vala einn verjendanna í einu stærsta sakamáli seinni ára? Kæmi ekki á óvart.
Í öllu falli er knýjandi ástæða fyrir þingmann að hætta störfum í miðjum klíðum. Kannski eru meginástæður brotthvarfsins átök á bakvið tjöldin í Samfylkingunni. Helga Vala tapaði formennsku í þingflokknum og ekki fengið hljómgrunn innan flokksins, þykir of pírataleg í upphlaupsmálum. Hún trekkir ekki atkvæði með leikrænum töfrum. Kannski að hún axli sín skinn södd pólitískra lífdaga.
Tilfallandi taldi að Helga Vala væri á leið í hælisiðnaðinn. Í viðtalinu þvertekur hún fyrir það. Hún er fullviss að fá næg verkefni til að reka lögmannsstofu og þarf ekki atbeina hælisútgerðarinnar. Við skulum sjá til. Þingmenn eru vanir að reiða sig á skammtímaminni almennings.
Það liggur fiskur undir steini. Hver hann er kemur fyrr en seinna á daginn. Víst er að þingmaðurinn kemur ekki til dyranna eins og hann er klæddur. Leikarar bregða sér í ólík hlutverk eftir hvaða handrit er sviðsett hverju sinni.
Í viðtalinu segist Helga Vala ,,fylgja hjartanu". Unglingar og þeir sem rétt eru byrjaðir í barneign nota þennan talsmáta. Ekki harðsvíraðir stjórnmálamenn, - nema leikritið kalli á tilfinningasemi.
Helga Vala segir sig frá þingmennsku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Stór hluti, ef ekki allir, þátttakenda í byrlunarmálinu eru hallir undir Samfylkinguna og Lára V hugsanlegt vitni. Tilgáta Tilfallandi er því mjög trúleg.
Ragnhildur Kolka, 3.9.2023 kl. 11:45
Og lögfræðingurinn sem tekur sæti Helgu var skipuð í sína stöðu hjá Reykjavíkurborg án auglýsingar
Persónuverndarfulltrúi Reykjavíkurborgar | Reykjavik
Grímur Kjartansson, 3.9.2023 kl. 18:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.