Úkraína fái Nató-aðild, Rússar landvinninga

Starfsmannastjóri Stoltenbergs framkvæmdastjóra Nató, Stian Jenssen, viðraði í norskum fjölmiðli, Verdens Gang, þá hugmynd að ljúka Úkraínustríðinu með eftirgjöf á úkraínsku landi gegn Nató-aðild þess hluta Úkraínu er eftir verður.

Frétt Verdens gang fór eins og eldur í sinu um vestræna fjölmiðlaheiminn. Úkraínumenn ná ekki upp í nef sér af hneykslun; þýskur herforingi botnar hvorki upp né niður í starfsmannastjóra Stoltenberg. Kannski er verið að kanna undirtektir? Mögulega að veita innsýn í stöðumatið í Brussel.

Hugmyndin er komin til umræðu og hverfur ekki svo glatt þaðan í bráð.

Christoph Wanner fréttamaður Die Welt í Moskvu segir rússneska ráðamenn taka hugmyndina mátulega hátíðlega. Hann hefur eftir Medvedev, fyrrum forseta Rússlands, að Úkraínumenn verði að flytja höfuðborg sína frá Kænugarði vestur til Lviv, sem einu sinni hét Lemberg - en spyrja í leiðinni Pólverja hvort það sé við hæfi. Þar vísar Medvedev til ágirndar Pólverja á úkraínsku landi. Lemberg var pólsk borg á millistríðsárum liðinnar aldar.

Réttlæting Rússa á innrásinni fyrir hálfu öðru ári var yfirvofandi Nató-aðild Úkraínu sem myndi ógna öryggishagsmunum Rússlands. Einnig var á dagskrá að verja rétt rússneskumælandi minnihluta í Úkraínu. Nú þegar hafa Rússar lagt undir sig Suður- og Austur-Úkraínu. Gagnsókn Úkraínu, sem hófst 4. júní, breytir lítt víglinunni. Frétt í Newsweek hermir að klofningur sé í ríkisstjórn Úkraínu um hvort skuli halda áfram gagnsókninni eða viðurkenna staðreyndir vígvallarins og þyrma mannslífum.

Samkvæmt talningu BBC hafa Rússar að lágmarki misst 25 þúsund hermenn á vígvellinum. BBC telur ekki vopndauða Úkraínumenn en tölur sveiflast á bilinu 150 til 250 þúsund. Rússar eru 4-5 sinnum fleiri en Úkraínumenn. Mannþurrð sverfur fyrr að Garðaríki en Bjarmalandi.

Hugmynd starfsmannastjóra framkvæmdastjóra Nató er til marks um að vestrinu sé farið að lengja eftir stríðslokum. Nató telur möguleika Úkraínu takmarkaða að sækja land í greipar Rússa.

Öllum stríðum lýkur með friði. Flestum vonum seinna. 

  


mbl.is Rússland stefnir í efnahagsöngþveiti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Rússar munu aldrei sætta sig við þessar hugmyndir, og þeir munu fyrr eyða Evrópu og sjálfum sér en að gefa eftir þau svæði sem kusu í fyrra að gerast Rússnesk. Ef ESB/NATÓ elítan semur ekki frið fljótlega, og samþykkir að Úkraína verði hlutlaus, verður allsherjar stríð í Evrópu. Þetta er óumflúið.

Ekki má gleyma að frá 2014 til 2022 drápu Úkraínumenn frá 13 til 19 þúsund almenna borgara í Donbass héruðunum.

Guðjón E. Hreinberg, 17.8.2023 kl. 08:50

2 Smámynd: Hólmgeir Guðmundsson

 Þessi orð féllu reyndar í umræðuþætti í norska ríkissjónvarpinu NRK sem blaðið VG greinir frá. Í gærkvöldi var hann aftur í NRK og át ummælin ofan í sig, hinn iðrunarfyllsti. Hann hefði ekki orðað hugsun sína nógu skýrt og svo frv.

Hólmgeir Guðmundsson, 17.8.2023 kl. 09:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband