Sunnudagur, 6. ágúst 2023
Skoðanalöggan, veiðileyfið og minnihlutafrekjan
,,Svo verður ekki horft fram hjá því að það er stórhættulegt hvernig skoðanalöggur halda umræðunni í heljargreipum. Þess vegna er svo margt sem erfitt er að ræða; allt frá íslenskri tungu yfir í kristindóminn og allt þar á milli. Þegar við bætist að fjölmiðlum fækkar þá verðum við að tala og tala hátt og ekki láta þessa skoðanakúgun stjórna umræðunni."
Ofanritað er tilvitnun í orð Kristrúnar Heimisdóttur í spjalli við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Helgarmogga.
Skoðanalöggur gefa aldrei upp nafn og númer. Tilfallandi man ekki eftir neinu dæmi um að einhver hafi gengist við skoðanalöggæslu. Enginn hreykir sér af iðjunni, enda er hún lítilmótleg og einkum tíðkuð af hugleysingjum sem fela sig í fjöldanum.
Skoðanalöggæsla fer þannig fram að einhver fær gefið út á sig veiðileyfi fyrir að segja eitthvað um heilagar kýr, s.s. samfélagshópa eða tískuskoðanir. Veiðileyfið er virkjað með því að fleiri fjölmiðlar taka undir, fréttir endurunnar á samfélagsmiðlum og stjórnmálamenn og umræðufrægir taka undir.
Í virkjuðu veiðileyfi kemst skotspónninn ekki að í umræðunni sem gengur út á að kaffæra það sem raunverulega var sagt en leggja út á versta veg skrumskælda útgáfu. Flestum er annt um álit samborgaranna á sér og taka nærri sér umtalið. Menn biðjast afsökunar eða fara í felur, verða hræddir. Til þess er leikurinn líka gerður.
Mörg veiðileyfi eru gefin út en aðeins fáein virkjuð. En þau eru nógu mörg til að halda fólki í þögn, segja ekki upphátt hugsanir sínar af ótta við að veiðileyfi verði gefið út og það virkjað. Mannorð og stundum atvinna er í hættu.
Skoðanalöggur starfa í tveim deildum. Efri deildin er skipuð fólki úr starfstétt fjölmiðlamanna, stjórnmálamanna og álitsgjafa, sem kallaðir eru umræðufrægir hér að ofan. Þessi deild er fámenn og lagskipt, samtals kannski 150 manns, gróft reiknað. Neðri deildin er fjölskrúðugri og greinist í fjölmarga undirhópa sem eiga þó flestir sameiginlegt að vera á vinstri væng stjórnmálanna. Í fjölda er neðri deildin tí- eða tvítugföld efri deild.
Verkaskiptin milli efri og neðri deilda skoðanalöggæslu er að efri deildin gefur út veiðileyfi en neðri deildin virkjar leyfið.
Skoðanalöggæsla starfar í menningarástandi sem kallast má-ekki-bjóða-þér-að-brjálast og er í grunninn frjálslynd afstæðishyggja. Ef mér finnst eitthvað hlýtur það að vera rétt og þeir sem andmæla mér særa tilfinningar mínar og eru vont fólk sem ætti að missa æru og helst líka lifibrauðið.
Þeir sem hallir eru undir þetta viðhorf eru blindir á að réttur einstaklingsins til persónulegrar sannfæringar getur aldrei vegið þyngra en málfrelsi þeirra sem eru andstæðrar skoðunar. En, nei, tilfinningar skulu trompa bæði andstæðar skoðanir og staðreyndir. Móðgist einhver gróflega er það talið til marks um heilsteyptan málflutning. Grátur með móðgun neglir niðurstöðuna.
Sagnfræðingurinn Eric Hobsbawm kom auga á þessa þróun í uppgjöri við 20stu öld. Um miðjan tíunda áratug liðinnar aldar skrifaði hann að andfélagsleg einstaklingshyggja tröllriði húsum, bæði sem opinber og óopinber hugmyndafræði, jafnvel hjá þeim sem hörmuðu afleiðingar hennar.
Um helgina mátti lesa frásögn karlmanns sem gerðist kona á fimmtugsaldri. Karlkonan sagðist hafa áttað sig á því fjögurra ára, segi og skrifa 4 ára, að hafa fæðst í röngum líkama. Allir sem vita eitthvað um lífið vita það tvennt að ekki er hægt að fæðast í röngum líkama og hitt að fjögurra ára barn veit fjarska lítið um sjálft sig og enn minna um lífið almennt. Karlkonan hefði allt eins getað sagt: ég vissi fyrir fæðingu að mér yrði úthlutað röngum líkama. Í hugmyndafræði andfélagslegrar einstaklingshyggju eru augljóslega vitfirrtar skoðanir teknar góðar og gildar sem trúverðug frásögn um veruleikann.
Einstaklingar haldnir einni eða annarri útgáfu af andfélagslegri einstaklingshyggju rotta sig iðulega saman og smíða sér minnihlutahóp vilja helst fá sérstökum dögum úthlutað á almanaksárinu. Sérviska þeirra andfélagslegu þarf áróðursstöðu og sýnileika. Í krafti þess að vera kúgaður minnihlutahópur gerir sérviskan sig gildandi í samfélagi sem býr ekki lengur að siðferðislegri kjölfestu, sbr. það sem áður sagði um frjálslynda afstæðishyggju, heldur er upp á náð og miskunn sérvitringahópa með skoðanalöggur á sínum snærum.
Í viðtalinu við Kolbrúnu kemur Kristrún inn á frekju minnihlutahópana (án þess að nota orðasambandið) og segir
Það var sagt að ekki mætti innræta börnum neitt. Ef við horfum í kringum okkur þá er fjöldinn allur af aðilum sem hafa frítt spil til að innræta börnum allt mögulegt. Spurningin sem stendur eftir er: Af hverju í ósköpunum mega börn ekki vita eitthvað um Jesúm Krist? Af hverju er það svona hættulegt? Menn þurfa að svara þeirri spurningu.
Tilfallandi amen á eftir efninu.
Undarleg þögn um Jesúm Krist | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er mjög góð skilgreining hjá þér á ástandu í landinu.
Dominus Sanctus., 6.8.2023 kl. 08:41
Á málþingi Samtaka 22 verða fyrirlesarar sem fengu skotleyfi á sig. Önnur átti hættu á fangelsisvist fyrir að segja að karlmenn geti ekki verið lesbína. Hin missti vinnuna fyrir svipaðan málflutning.
Málþingið verður í sal Þjóðminjasafnsins kl.11 laugardaginn 12. ágúst og verður áhugavert að hlusta á erindi þessara kvenna.
Hvet þá sem láta sér málfrelsið sig varða að mæta. Hinsegin samfélagið hefur andskotast út í málþingið, heggur nærri þeim sem kjósa ekki málfrelsi, frekar heilaþvott.
Helga Dögg Sverrisdóttir, 6.8.2023 kl. 09:27
Betur verður þetta ekki skilgreint.
Ragnhildur Kolka, 6.8.2023 kl. 10:19
Fólk verður að muna að það setja ekki allir sömu merkingu í liti.
Stjórnmálaflokkar og gaypride-göngufólk hefur ekki einkarétt á litum.
-------------------------------------------------------------------------
Ég gæti klæðst bláúm lit af því að ég er fylgjandi BOÐORÐUNUM 10 sem að Þjóðkirkjan boðar og þeirra logomerki er blátt:
https://is.wikipedia.org/wiki/%C3%8Dslenska_%C3%BEj%C3%B3%C3%B0kirkjan
----------------------------------------------------------------------------
Ég gæti klæðst RAUÐUM LIT av þvíað ég er fylgjandi JAFNARI LÍFSKJÖRUM ÖLLUM TIL HANDA. Það hefur ekkert með gaypride-fánann að gera.
https://www.asi.is/
--------------------------------------------------------------------------------
Ég hef klæðst appelsínugulum jakka af því að ég hef
starfað undir LOGOMERKI LANDSBJARGAR;
það hefur ekkert með gaypride-fána-sjónarmiðin að gera:
https://issuu.com/landsbjorg
-----------------------------------------------------------------------------
Ég klæðist oft GRÆNUM FATNAÐI af því að ég er fylgjandi GRÆNUM UMHVERFIS-LAUSNUM OG GRÆNUM ÍSLENSKUM LANDBÚNAÐI.
Það hefur ekkert með gaypride-sjónarmiðin að gera.
https://www.holar.is/
---------------------------------------------------------------------------------Samkvæmt SÁLFRÆÐINNI að þá táknar FJÓLUBLÁI LITURINN DULSPEKI, HÁTÍÐLEIKA OG MJÖG HÁ-ANDLEGAN BOÐSKAP. BESTA DÆMIÐ UM ÞAÐ ERU VINNUSKYRTUR BISKUPA.
Það tengist hvorki feminisma né gaypride-sjónarmiðum:
https://www.ruv.is/frettir/menning-og-daegurmal/vildi-ekki-kasta-hjonabandinu-a-sorphaugana
Dominus Sanctus., 6.8.2023 kl. 10:46
Það er ekkert hægt að lýsa þessu betur.
Takk fyrir frábæran pistil.
Sigurður Kristján Hjaltested, 6.8.2023 kl. 11:49
,,réttur einstaklingsins til persónulegrar sannfæringar getur aldrei vegið þyngra en málfrelsi þeirra sem eru andstæðrar skoðunar."
Hefur þetta ekki nokkurn veginn hikstalaust verið haft fyrir satt á Vesturlöndum í bráðum 250 ár?
Hvers vegna ekki lengur?
Hvað gerðist eiginlega?
Baldur Gunnarsson, 6.8.2023 kl. 12:19
Þetta er í eðli sínu trúarbragðastríð þar sem gömlu trúarbrögðin skulu víkja og ný innleidd með kennivaldi og bannfæringu.
Helgi Viðar Hilmarsson, 6.8.2023 kl. 22:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.