Afhelgun, íslam og kristið umburðalyndi

Múslímar taka það heldur óstinnt upp er teikningar eru birtar af spámanninum og þegar helgur texti trúarinnar, kóraninn, er brenndur opinberlega.  

Í vestrinu tekur ekki að brenna biblíuna á götum og torgum, enginn kippir sér upp við það. Ekki heldur þá Jesú er sýndur transkona. Kallast umburðarlynd veraldarhyggja að láta sér fátt um finnast helgispjöllin.

Nú leita norræn ríki úrræða að koma í veg fyrir að íslömsk trúartákn séu vanvirt. Háttvís hugsun en böggull fylgir skammrifi.

Ef lög vernda múslímsk trúartákn en ekki kristin er íslömsk trúarmenning sett skör hærra en sú kristna. Ef krossinn og kristni fá sömu lagavernd og kóraninn og spámaðurinn er hoggið að rótum málfrelsis.

Engin eftirspurn er á vesturlöndum, almennt séð, eftir takmörkunum á rétti til tjáningar af tillitssemi við trúarsannfæringu.

Meginmunur á kristin eftir frönsku stjórnarbyltinguna annars vegar og hins vegar íslam er sá að trú er einkamál í síðkristni. Múslímar á hinn bóginn eru þeirrar hyggju að trú sé hornsteinn samfélags, tryggi góða siðu og háttu í samskiptum manna. Líkt og kaþólska kirkjan taldi á miðöldum.

Í lok viðtengdrar fréttar er eftirfarandi efnisgrein:

Sádi-Ar­ab­ía og Írak hafa boðað til fund­ar, sem bú­ist er við að hald­inn verði á morg­un, með sam­tök­um um íslamska sam­vinnu, OIC, í Jeddah til að ræða af­helg­un Kór­ans­ins bæði í Svíþjóð og Dan­mörku.

Samtök íslamskra ríkja, OIC, skrifa ekki upp á mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem er arfur amerísku og frönsku byltinganna á 18. öld. Samtök íslamskra ríkja samþykktu fyrir rúmum 30 árum sérstaka trúar- og mannaréttindayfirlýsingu, kennd við borgina Kairó. Í Kairó-yfirlýsingunni er mannréttindum sett trúarlegar skorður.

Jafnrétti kynjanna er t.d. ekki á dagskrá. Sjötta grein kveður að konan skuli njóta virðingar en karlmaðurinn sé höfuð heimilisins og beri ábyrgð á velferð fjölskyldunnar.

Afhelgun kristni hófst við lok miðalda. Múslímar telja ekki tímabært að feta sömu slóð. Þeir eru ekki sannfærðir að vestrænn áttaviti siðagilda vísi rétta veginn og halda nokkuð fast í opinberun spámannsins.

Umburðalyndið, sem vestrið státar af, er kristin einstaklingshyggja. Hún verður til með ávarpi uppreisnarmunksins Marteins Lúter 18. apríl 1521. ,,Hér stend ég, annað er mér ekki fært, svo hjálpi mér guð. Amen." Einstaklingurinn í fyrsta sæti, guð í öðru.

Framvindan er ekki á reikning helsta kennimanns mótmælendatrúar en þó afleiðing uppreisnar gegn kennivaldi miðlægs almættis. Nú er sérhver sinn eigin guð. Karlkyns í dag, kvenkyns á morgun og fertugasta kynið daginn eftir. Skurðgoðadýrkun í augum múslíma. Verkefni spámannsins á sjöttu og sjöundu öld eftir Krist var að kveða skurðgoðadýrkun í kútinn.

Trú og vantrú fá ekki samræmst nema undir formerkjum kristinnar einstaklingshyggju.

 


mbl.is Leita leiða til að koma í veg fyrir Kóranbrennur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Þór Emilsson

það var nú gott að þessi lönd fluttu allt þetta fólk inn sem aðlagaði sig svona vel að menningu nýja landsins.

Ég stóð í þeirri meiningu að flóttamenn væru að forðast vanda heimavið en þeir virðast taka hann með sér. Til hvers þá að flýja ?

Emil Þór Emilsson, 31.7.2023 kl. 08:37

2 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

31 Þess vegna segi ég yður:

Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin, en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið.

32 Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum, verður það fyrirgefið, en þeim sem mælir gegn heilögum anda, verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda.

Matt. 12.

Guðmundur Örn Ragnarsson, 31.7.2023 kl. 08:38

3 Smámynd: Baldur Gunnarsson

,,Þeir eru ekki sannfærðir að vestrænn áttaviti siðagilda vísi rétta veginn .."

Og skyldi engan undra. 

Baldur Gunnarsson, 31.7.2023 kl. 19:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband