Vísindamenn biðja um meiri hræðsluáróður

Nær 100 vísindamenn ítalskir, þarf af einn nóbelsverðlaunahafi, ákalla fjölmiðla að flytja kröftugri áróður fyrir heimsendi af völdum manngerðs veðurfars, segir í viðtengdri frétt.

Svo ítalski nóbelsverðlaunahafinn sé strax afgreiddur er þess að geta að nýlega sagði annar nóbelsverðlaunahafi í eðlisfræði, John F. Clauser, að meint fræði um manngert veður séu húmbúkk, gervivísindi. Auðvitað var Clauser úthýst af hamfaraiðnaðinum. Sannleikann má ekki segja upphátt.

Leggjum vísindin til hliðar enda tala vísindamenn út og suður. Horfum á staðreyndir og beitum einfaldri rökfræði. Kenningin um manngert veður hvílir á þeirri fullyrðingu að útblástur koltvísýrings, CO2, af mannavöldum valdi gróðurhúsaáhrifum sem aftur hækkar hitastigið á jörðinni. Koltvísýringur hindrar útöndum jarðar og veldur hækkun hita.

Koltvísýringur er náttúruleg lofttegund, nauðsynleg fyrir allt líf á jörðinni. Ljóstillífun plantna krefst koltvísýrings. Án CO2 væri jörðin eyðimörk. 700 vísindamönnum fannst nauðsynlegt að benda á þessa einföldu staðreynd. Segir töluvert um ástand umræðunnar.

En, sleppum vísindum og ræðum hráar staðreyndir. Spurningin verður hve mikið magn af koltvísýring er í andrúmslofti jarðar og hver er hlutur mannsins af heildarmagninu?

Heildarmagn koltvísýrings, CO2, í andrúmslofti jarðar er áætlað 750 gígatonn. Af þessum 750 gígatonnum ber maðurinn ábyrgð á 29 gígatonnum, segir á vefsíðu Evrópusambandsins sem talar fyrir manngerðri hlýnun og ætti ekki að draga  úr ábyrgð mannsins á ástandi mála. 

29 af 750 eru tæp 4 prósent. Maðurinn ber sem sagt ábyrgð á tæpum fjórum prósentum af öllum koltvísýringi í andrúmslofti jarðar. Náttúran stjórnar 96 prósentum af koltvísýringi andrúmsloftsins.

Ef við eigum að trúa að maðurinn valdi hlýnun jarðar verðum við jafnframt að trúa að náttúrulegur koltvísýringur valdi ekki hlýnun. En röklega gengur það ekki upp. Ef CO2 er gróðurhúsalofttegund, þ.e. veldur hækkun hita, er um að ræða náttúrulega ferla sem óháðir eru mannlegum athöfnum. Aftur: maðurinn er ábyrgur fyrir fjórum prósentum en náttúran 96 prósentum. Hamfarasinnar trúa að fjögur prósent sé meiri orsakavaldur en 96 prósent. Bullið nær því ekki einu sinni að vera mótsögn.

Einhverjir kynnu að andmæla, sbr. vefsíðu ESB, sem vitnað var til að ofan, og segja að 29 gígatonn mannsins séu viðbót við ,,náttúrulegt" magn koltvísýrings. En það er ekki svo að náttúrulegt magn koltvísýrings sé fasti sem breytist ekki. Í náttúrunni er flókið samspil milli losunar koltvísýrings og bindingu lofttegundarinnar, t.d. í gróðri.

Tilfallandi benti á að litla gosið á Reykjanesi framleiðir daglega magn CO2 sem jafnast á við heildarlosun íslenska hagkerfisins. Óvirk eldstöð, Katla, losar daglega ívið meira. í jarðsögunni eru dæmi um að hlutfall CO2 í andrúmslofti hafi verið mun meira en í dag. Árstíðir breyta hlutfalli koltvísýrings. Á norðurhveli jarðar binst CO2 að vori og sumri með ljóstillífun plantna en að hausti og vetri losnar CO2 með lífrænni rotnun. 

Hlýnun getur ekki stafað af mennskri losun koltvísýrings. Einfaldlega vegna þess að 4 eru töluvert minni tala en 96. Mæld hlýnun síðustu 200 ár er um ein gráða á Celcíus á öld. Náttúruleg þróun, t.d. í fornveðurfari, sýnir mun örari hitabreytingar en þær mælingar sem við höfum frá upphafi iðnbyltingar, fyrir 200 árum. Allt ber að sama brunni. Í veðurfari, hitastigi jarðar, er maðurinn ekki einu sinni aukaleikari, heldur statisti. Náttúran er í aðalhlutverki.

Neðanmáls er þess að geta að kjörvöxtur plantna er við 1200-1400 ppm koltvísýrings í lofti (t.d. í gróðurhúsum). Koltvísýringi er oft dælt inn í gróðurhús, til að fá betri uppskeru. Plöntur eru betri mælikvarði á kjörhlutfall CO2 en hamfarasinnaðir vísindamenn. Gefur auga leið; plöntur geta ekki verið hálfvitar.

Meðalmagn koltvísýrings í andrúmslofti jarðar er talið 400 ppm. Það væri betra fyrir plöntulíf, og þar með jarðlíf, að meira yrði af koltvísýringi. Jörðin yrði betri staður að búa á með meiri plöntufæðu - og minni hamfaratrú. Vísindamenn sem segja annað ættu að skammast sín.


mbl.is Fjölmiðlar verða að útskýra málið betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Þeir ættu að prófa að segja að við séum öll þegar dauð úr veðri.

Slíkt verður ekki toppað.

Ásgrímur Hartmannsson, 28.7.2023 kl. 18:08

2 Smámynd: Guðrún Bergmann

Þetta með að "deyja úr veðri" - kemst á lista með "dó óvænt" eftir ástungu(r).

Guðrún Bergmann, 1.8.2023 kl. 20:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband