Jóhann kemur við Kviku Kristrúnar

Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar situr í fjárlaganefnd alþingis. Hann vill að nefndin fundi um Íslandsbankamálið. Kristrún formaður flokksins er aftur ekki spennt fyrir háværri Íslandsbankaumræðu. 

Tilfallandi nefndi þögn Kristrúnar Samfylkingarformanns fimmtudagsmorguninn 29. júní, fyrir rúmri viku. Tveim klukkutímum síðar kom skýring á fámæli Kristrúnar. Hún játaði skattasniðgöngu á 100 milljóna króna hagnaði af nýlegum hlutabréfaviðskiptum.

Hagnaður Kristrúnar af hlutabréfum í Kviku fjárfestingabanka er viðkvæmt mál. Kvika var í samrunaferli með Íslandsbanka með samþykki og velvilja Kristrúnar en hún var aðalhagfræðingur Kviku, hætti þar gagngert til að verða þingmaður Samfylkingar. 

Kristrún er innvígður og munstraður talsmaður stórkapítalista sem sækja stíft í ríkiseigur. Eftir að hún náði kjöri sem formaður Samfylkingar haustið 2022 óx vegur flokksins í skoðanakönnunum. Áfram gakk í átt að hægristjórn til að liðka fyrir stórvesírum fjármálageirans. Þeir eru svo snjallir að búa til ímynduð verðmæti, sem eru froða þegar að er gáð. Kristrún kallar froðuæfinguna að detta í lukkupottinn

Formaður sem skaffar fylgi, þótt ekki sé nema kannanafylgi, getur skipað málum að vild innan flokks. Kristrún jaðarsetti Jóhann Pál og Helgu Völu, sem fannst fátt til nýstirnisins koma og hugnaðist ekki hægrislagsíðan. Sumum þingmönnum, ekki síst á vinstri vængnum, líður betur með mikil völd í litlum flokki en lítil í stórum. Neitunarvald er vanmetinn þáttur í pólitík, er oftar en ekki virkjað á bakvið tjöldin.

Skattasniðganga Kristrúnar gefur Jóhanni Páli og Helgu Völu tækifæri til að veikja pólitík formannsins án þess að mikið beri á. Það gera þingmennirnir með hávaða um Íslandsbankamálið sem kemur við Kvikuna á Kristrúnu.

Formaðurinn getur illa beitt sér, kysi helst rólegt pólitískt sumar til að vera ekki krafin um nánari skýringar á skattauppgjöri vegna 100 milljón króna hagnaðar af hlutabréfaviðskiptum. Samtímis getur formaður Samfylkingar ekki lagst gegn atlögu að Sjálfstæðisflokknum og fjármálaráðherra þegar skotmörkin eru í dauðafæri.

Í orði kveðnu er Samfylkingin jafnaðarmannaflokkur en ekki þriðja hjólið undir vagni fjármálaelítunnar. Kristrúnarleiktjöldin eru hönnuð til að viðhalda ímynd um að jöfnuður fáist með ójöfnuði. Kristrún er í pólitík það sem fyrrum yfirmaður hennar, Marinó Örn Tryggvason, er í fjármálum. Samkeppni, sagði forstjóri Kviku, eykst með fákeppni. Kristrúnarpólitík er að jöfnuður aukist með ójöfnuði. Hvítt er svart og svart hvítt. 

Pólitíkin í Íslandsbankamálinu er í grunninn hvort það sé áfram gakk í átt að nýrri hrunstjórn eða ekki. Neitunarvaldið er í höndum liðsfélaga Kristrúnar Frostadóttur formanns Samfylkingar. Sjálf er Kristrún löngu skattasniðgengin í 100 milljóna króna björg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Nær þrjúsund manns hafa lesið pistilinn, en enginn segir orð.

Hvað hræðast menn?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 10.7.2023 kl. 03:52

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Aldrei trufla óvininn þegar hann er að eyða sjálfum sér.

Ragnhildur Kolka, 10.7.2023 kl. 09:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband