Kristrún skilgreinir spillingu

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingar skilgreindi spillingu í þingræðu 30. mars 2022, rúmri viku eftir að sala á hlutabréfum ríkisins í Íslandsbanka fór fram. Gefum Kristrúnu orðið:

Einn aðili keypti fyrir 55 millj. kr., annar 27, sá þriðji fyrir 11. Þetta er bara það sem við vitum út af tilviljanakenndum upplýsingum. Eru þetta langtímafjárfestar? Eru þeir að taka á sig umtalsverða markaðsáhættu fyrir almenning til að koma þessum banka á markað? Ég frábið mér þann málflutning að þetta sé einhvers konar eðlilegt fyrirkomulag. Það er það ekki. Tilgangurinn með tilboðsfyrirkomulaginu var ekki að leyfa nokkrum fagfjárfestum sem eru að fjárfesta fyrir sitt persónulega bókhald að fá smá afslátt. Svona upphæðir, litlar upphæðir sem vekja minni athygli, geta nefnilega oft gefið til kynna að um spillingu sé að ræða. (undirstrik. pv)

Víkur nú sögunni að persónulegu bókhaldi Kristrúnar. Hún starfaði sem aðalhagfræðingur Kviku fjárfestingabanka í þrjú ár, 2018-2021, en hætti til að verða þingmaður Samfylkingar og formaður flokksins.

Launakjör eru almennt góð hjá fjárfestingabönkum. Auk hárra launa fékk Kristrún kauprétt í hlutabréfum Kviku undir markaðsverði, líkt og tíðkaðist við sölu á ríkishlutnum í Íslandsbanka.

Kristrún keypti hlutafé í Kviku fyrir þrjár milljónir á þriggja ára starfstíma, eina milljón á ári. Kaupauki formanns Samfylkingar er á kostnað hluthafa og viðskiptavina Kviku fjárfestingabanka, segir Vilhjálmur Bjarnason fjárfestir og fyrrverandi þingmaður. Löglegt en siðlaust, eins og frægur íslenskur jafnaðarmaður orðaði það á síðustu öld.

Þriggja milljón króna kaupauki Kristrúnar varð að 101 milljón króna hagnaði þar sem hlutabréf Kviku hækkuðu skarpt. Mál manna var að Kvika fjárfestingabanki myndi eignast Íslandsbanka með samruna. Sem þingmaður og formaður Samfylkingar var Kristrún hlynnt yfirtöku Kviku á Íslandsbanka.

Hlutabréf Kviku fjárfestingabanka hækkuðu m.a. vegna væntinga um að Kvika myndi eignast Íslandsbanka, sem er viðskiptabanki. Við þekkjum ferlið úr aðdraganda hrunsins. Viðskiptabankar geta búið til miklu meiri peninga en fjárfestingabankar. Hluthafar fá ofsagróða i skamman tíma en þjóðin tapar stórkostlega til lengri tíma. Formaður Samfylkingar er með í leiknum og fær sinn hlut refjalaust. Vill þó ekki borga skattinn sinn, líkt og launaþrælarnir Jón og Gunna.

Þegar Kristrún taldi fram til skatts 101 milljón króna hagnað sinn af kaupaukanum hjá Kviku borgaði hún 22 prósent skatt, eins og um fjármagnstekjur væri að ræða. En hagnaðurinn var hluti af launakjörum Kristrúnar hjá Kviku fjárfestingabanka og átti að bera 46,25 prósent skatt.

Formaður Samfylkingar sparaði sér persónulega 25 milljónir króna með röngu skattframtali. Kristrún er með sín persónulegu fjármál á gráu svæði sem kallast skattasniðganga.

Gefum formanni Samfylkingar aftur orðið á alþingi Íslendinga. Svona talar Kristrún 16. nóvember 2022:

Áframhaldandi skortur á trausti almennings gagnvart stjórnmálunum er á ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar. Hæstv. ríkisstjórn hefur alið á uppgjöf og ég er hrædd um að fólk sé orðið ansi dofið fyrir þessu prinsippleysi. Í skjóli þessa doða stjórnar ríkisstjórn hæstv. Katrínar Jakobsdóttur. Væntingarnar til þeirra eru engar þegar kemur að málum sem þessum. Ég spyr því hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra: Eru engin prinsipp? Snýst þetta allt um persónur, ráðherrastóla og pólitíska leiki fremur en traust til embætta og stofnana sem hér eru undir?

Jæja, Kristrún. Nú fær formaður Samfylkingar tækifæri til að sýna að hann stendur fast á prinsippum og axlar ábyrgð á spillingunni þegar upp um hana kemst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Böðvarsson

Flaggskip og stolt samfylkingarinnar rak upp í stórgrýtið og brotnaði í spón svo nær engu varð bjargað..

Guðmundur Böðvarsson, 2.7.2023 kl. 11:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband