Laugardagur, 1. júlí 2023
Birna, Kristrún og sala Íslandsbanka
Fjárfestingabankinn Kvika ætlaði að eignast ráðandi hlut ríkisins í Íslandsbanka. Til að viðskiptin mættu ganga eftir varð að tryggja stuðning tveggja hagaðila. Í fyrsta lagi urðu æðstu stjórnendur Íslandsbanka að vera hlynntir yfirtöku Kviku.
Birna bankastjóri og Finnur Árnason stjórnarformaður eru oddvitar yfirstjórnar bankans. Þau samþykktu formlega yfirtöku Kviku í febrúar síðastliðnum, undir formerkjum samruna.
Ráðandi stjórnmálaöfl eru hinn hagaðilinn sem varð að blessa yfirtöku á Íslandsbanka. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, og þar með ríkisstjórnin, voru tilbúin að láta samruna Kviku og Íslandsbanka ganga fram. Frjálshyggjusjónarmið frá fyrir hrun, um að ríkið ætti ekki að stunda fjármálastarfsemi, réðu mestu. Sjónarhornið tekur ekki mark á þeirri lexíu að á meðan allir bankar á Íslandi voru ríkisreknir stóðum við aldrei frammi fyrir þjóðargjaldþroti. Eftir að einkaaðilar eignuðust bankakerfið um aldamótin voru aðeins átta ár í hrun. Einkaaðilar á Fróni ráða ekki við freistnivandann sem fylgir rekstri viðskiptabanka.
Eina pólitíska aflið sem er í færum að setja fram valkost við yfirtöku Kviku á Íslandsbanka er Samfylkingin. En þar er formaður Kristrún Frostadóttir fyrrum aðalhagfræðingur Kviku og handhafi 100 milljón króna hagnaðar af hlutabréfaviðskiptum með Kviku-bréf. Hún er enn í liðinu sem gerði hana sterkefnaða á aðeins þremur árum.
Eftir að samrunaferli Kviku og Íslandsbanka var kynnt í febrúar þagði Kristrún þunnu hljóði. Með þögninni samþykkti formaður Samfylkingar að fyrrum atvinnuveitandi eignaðist Íslandsbanka. Auðvelt hefði verið að gera pólitík úr málinu og bjóða upp á þann valkost að ríkið eigi áfram hlut í bankakerfinu á meðan fjármálamenn ná þroska til að ráða við umsýslu viðskiptabanka. En Kristrún var Kvikubundin og þagði.
Þar með var allt klappað og klárt.
Allt breyttist á mánudag síðast liðinn. Skýrsla er birt um forsölu ríkishluta í Íslandsbanka. Lög voru brotin og farið illa með eigur almennings. Útvaldir fengu sérmeðferð við hlutafjárkaup, alþýðan horfði á sjónarspilið úr fjarlægð. Aðfaranótt miðvikudags varð Birna bankastjóri að segja af sér vegna óróa í samfélagsumræðunni.
Enn var þó pólitísk samstaða um að Kvika eignaðist Íslandsbanka. En svo gerðist það á fimmtudagsmorgun að Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingar játaði skattasniðgöngu með 100 milljón króna hagnað sinn af Kviku-bréfum. Um leið opinberast að Kristrún er pólitískt fyrirbrigði sem grunnt er á í Samfylkingunni en kemur alltaf fram í dulargervi smælingjasamúðar. Frjálshyggjujafnaðarmaður sem græðir á daginn og skattasniðgengur á kvöldin. Heiðarlegir frjálshyggjumenn grilla á kvöldin eftir dagsverk á markaði, eins og Hannes Hólmsteinn minnti á fyrir margt löngu.
Síðdegis á fimmtudag varð Kvika banki að játa sig sigraðan. Baklandið brast, bæði í Íslandsbanka, með afsögn Birnu, og í pólitíkinni með afhjúpun á skattasniðgöngu formanns Samfylkingar. Engin pólitísk sátt, engin yfirtaka Kviku-manna á Íslandsbanka. Tilkynningin um slit á samrunaferli er loðin og teygjanleg. Talað er um ,,umræðuna" sem er annað orð yfir pólitískar aðstæður og látin í ljós von um að seinna meir mætti taka upp þráðinn að nýju.
Á bakvið tjöldin er allt á fleygiferð þótt fæst sé gert opinbert. Það sást til stjórnarmanns Íslandsbanka stika stórum fyrir framan heimili sitt og tala í farsíma, líklega til að trufla ekki heimilisfriðinn. Maðurinn sem var að nóttu til gerður að bankastjóra Íslandsbanka fór að kvöldlagi á fimmtudag á fund forstjóra Fossa fjárfestingabanka, sem er ráðgjafi um sölu á eignahlut ríkisins í Íslandsbanka. Er spurðist út að allsherjarklúðrið ylli ekki enn meiri óskunda en orðið var tók hlutabréfamarkaðurinn kipp í gær og sýndi grænt eftir erfiða viku. Enn er opin spurning hvort sakamálarannsókn verði opnuð vegna lögbrota stjórnenda Íslandsbanka. Markaðurinn þolir það.
Viðskiptalífið kyngdi og lætur gott heita í bili. Stjórnmálaheimurinn er annars eðlis. Þar tekur lengri tíma að skilaboð samfélagsins sökkvi niður á það dýpi, að ekki sé sagt fen, þar sem póltíkin ræður ríkjum.
Á vinstri væng stjórnmálanna eru menn með böggum hildar. Vonarstjarnan Kristrún Frostadóttir er afhjúpuð sem skattasniðgangari. Leiðin liggur niður á við fyrir fylkinguna með bestu mælinguna í skoðanakönnunum síðustu misseri. Grein Vilhjálms Bjarnasonar fyrrverandi þingmanns er aðeins byrjunin. Fjölmiðlakonan Snærós Sindradóttir missti það út úr sér á Rás 2 í gærmorgun (1:12:30) að líklega væri ekki heppilegt að jafnaðarmenn hefðu á sínum snærum ,,auðkonu í stjórnmálum." Snærós er dóttir Helgu Völu þingmanns Samfylkingar.
Vikan var aftur hagfelld íhaldsmönnum sem vilja stíga ofurvarlega til jarðar við sölu á hlut ríkisins í fjármálakerfinu. Íhaldsmenn muna hrunið betur en frjálshyggjujafnaðarmenn og búa að siðferðislegri kjölfestu sem ekki er mæld í krónum og aurum.
Kvika slítur samrunaviðræðum við Íslandsbanka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Kristrún kom, sá og sigraði en nú sleikir Helga Vala útum. Með 5. herdeildina hjá RÚV er aldrei að vita nema formannsstóllinn sé innan seilingar. Það er þó ekki á vísan að róa því vinstrimenn eiga auðvelt með að gleyma eigin afglöpum. Kristrún getur enn risið úr öskustónni.
Ragnhildur Kolka, 1.7.2023 kl. 10:13
Eru kjósendur nógu upplýstir til að sjá samhengið við Samfylkinguna og Kristrúnu?
Birgir Loftsson, 1.7.2023 kl. 13:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.