Skattasniðganga Kristrúnar, herferð RSK-miðla

Formaður Samfylkingar, Kristrún Frostadóttir, er sek um skattasniðgöngu, ef ekki alvarlegri brot. Kristrún notaði RSK-miðla til að koma játningu sinni á framfæri klukkan tíu í gærmorgun. Tilgangurinn er að gera lítið úr skattamisferlinu, halda Kristrúnu á floti sem stjórnmálamanni.

Tilfallandi blogg vakti athygli á því fyrr um morguninn að Kristrún ein formanna allra starfandi stjórnmálaflokka hafði ekki sagt aukatekið orð um Íslandsbankamálið. Grunsamlegt enda þekkt að formaður Samfylkingar tekur til máls af lítilfjörlegustu tilefnum, t.d. viðveru ráðherra á alþingi. Hlédrægni Kristrúnar stafaði af skattasniðgöngunni. Hún þorði ekki að blanda sér í Íslandsbankaumræðuna af ótta við að upp kæmist um strákinn Kviku-Tuma með krumlurnar á kafi í skattabrellum til að borga ekki í sameiginlega sjóði landsmanna. Kristrún er upptekin af hugrekki. Hún sakaði Bjarna Benediktsson um hugleysi í fjölmiðlasviðsetningu RSK-miðla í vetur. 

Kristrún og ráðgjafar hennar voru tilbúnir með játningu í samstarfi við RSK-miðla. Heimildin reið á vaðið, RÚV kom í kjölfarið. Blaðamaðurinn sem skrifaði fyrstu fréttina er Arnar Þór Ingólfsson, sakborningur í byrlunar- og símastuldsmálinu. Fréttin var ekki skrifuð í gærmorgun til birtingar klukkan tíu. Fréttin var tilbúin en beið eftir réttri tímasetningu. RSK-miðlar sérhæfa sig í verklaginu. Þegja sumar fréttir, möndla með aðrar og gera þess á milli fimm hænur úr einni fjöður.

Eitt einkenni siðlausra fjölmiðla er að þeir starfa eins og almannatenglar. Birta fréttir samkvæmt hagsmunum verkkaupa. Í tilfelli Kristrúnar er RSK-miðlum umhugað að koma sér upp talsmanni sem er formaður stærsta stjórnmálaflokksins, samkvæmt fylgiskönnunum, og líklegur til ríkisstjórnarsetu. Spillingin í opinberri umræðu hér á landi er fyrirsjáanleg. RSK-miðlar vilja halda stjórnmálamanni á floti sem gæti orðið næsti dómsmálaráðherra, yfirmaður lögreglunnar.

RÚV notaði sömu fyrirsögn og Heimildin. Kristrún er sögð hafa fengið ,,tilmæli" frá Skattinum um að hún væri í skuld með opinber gjöld. Tilfellið er að Kristrún taldi rangt fram, kom sér undan að borga skatt.

Þegar aðrir fjölmiðlar tóku við fréttahönnun RSK-miðla var Kristrún komin með sterka stöðu í umræðunni, þökk sé fréttahönnun RSK-miðla. ,,Málinu er lokið fyrir mína parta," segir hún með þjósti við Morgunblaðið. Kristrún ætlast til að eftir fréttahönnun RSK-miðla sé málinu lokið. Nú á að þegja.

Skattasniðganga Kristrúnar felst í að hún greiddi fjármagnstekjuskatt en átti að greiða tekjuskatt, sem er meira en helmingi hærri. Formaðurinn vildi spara sér um 25 milljónir króna á kostnað almennings. 

Kristrún er staðin að ósannindum um hlut sinn í Kviku með játningu sinni í Heimildinni í gær. Fyrir síðustu kosningar sagði formaðurinn:

Því eftir að ég flutti heim úr námi og hóf störf í Kviku setti ég stóran hluta af persónulegum sparnaði mínum og mannsins míns í réttindi fyrir hlut í bankanum. Upphæð sem okkur munaði mjög mikið um. Þarna erum við hjónin nýkomin úr námi og vinnu, með lítið á milli handanna, en tókum þá ákvörðun um að leggja í þessa fjárfestingu. 

Ef Kristrún hefði í raun og sann keypt hlutafé í Kviku fyrir sparnað sem hún átti fyrir hefði hún ekki þurft að greiða tekjuskatt. Það vita allir sem hafa keypt hlutbréf. Maður greiðir fjármagnstekjuskatt af hagnaði af hlutabréfum. Venjulegir launaþrælar hafa áður greitt tekjuskatt af launatekjunum sem mynduðu sparnaðinn. Forréttindafólkið hefur aftur aðra möguleika en alþýðan að maka krókinn.

Það sem gerðist í raun er að Kristrún fékk dulda launahækkun í formi réttinda til að kaupa hlut í Kviku á ákveðnu gengi, oftast lægra en markaðsgengi. Hún var innherji og bjó að upplýsingum sem aðrir fjárfestar hafa ekki. Vissi að hverju hún gekk og það hafði ekkert með heppni að gera. 

Í stað þess að játa að hún sé hluti af fjármálaelítunni vill Kristrún fá almenning til að trúa að hún hafi tekið af brauðpeningum fjölskyldunnar og sett í áhættufjárfestingu. ,,Svo datt ég í lukkupottinn," segir formaðurinn til að útskýra 100 milljón króna hagnað sem hún í ofanálag vildi ekki greiða af rétta skattprósentu.

Kaupin í Kviku voru bæði með belti og axlaböndum, ekki áhættufjárfesting heldur öruggur hagnaður, aðeins spurning hve mikill. Lukkupottur formanns Samfylkingar er fjölmiðlaherferð RSK-miðla sem vilja eiga greiða inni hjá væntanlegum ráðherra.

Fjárfestingin var ,,upphæð sem okkur [hjónunum] munaði mjög mikið um" segir Kristrún í tilvitnun hér að ofan. Til að komast undan ámælum vegna skattasniðgöngu segist formaður Samfylkingar vera áhættufíkill er leggur heimilið undir með hlutabréfabraski. Síðan hvenær var heppilegt að áhættufíklar færu með landsstjórnina? RSK-miðlar vilja aftur sjá áhættufíkla sem ráðherra, einkum þá sem þeir eiga hönk upp í bakið á.

Misgjörð Kristrúnar gæti verið alvarlegri en skattasniðganga. Kristrún og Heimildin birta engin gögn máli formanns Samfylkingar til staðfestingar, aðeins munnlegan framburð geranda. 

Birna á miðvikudag. Hvenær Kristrún?

 


mbl.is „Málinu er lokið fyrir mína parta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórdís Björk Sigurþórsdóttir

Og margir láta að því liggja að hún hafi ekki vitað betur, kona úr fjármálaheiminum sem vill verða forsætisráðherra. Eflaust hefur hún verið með endurskoðanada sem taldi fram fyrir hana, þó að hún hafi að sjálfsögðu nóga kunnáttu til þess að gera það sjálf. 

Þórdís Björk Sigurþórsdóttir, 30.6.2023 kl. 11:35

2 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Þessir skattar og skattalagaflækja, eru útaf fyrir sig siðfræðileg skömm Öfgaríkisins.

Guðjón E. Hreinberg, 30.6.2023 kl. 13:42

3 Smámynd: Atli Hermannsson.

Það hefði farið betur á því ef einhver sem nyti örlítillar virðingar og einhvers smá trúveruleika hefði skrifað þennan pistil. Þá hefði verið hægt að taka mark á honum. 

Atli Hermannsson., 30.6.2023 kl. 17:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband