Aðalsteinn stefnir bloggara, krefst 2 m. kr. og ritskoðunar

Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður á Heimildinni og varaformaður Blaðamannafélags Íslands stefnir tilfallandi bloggara fyrir átta ummæli í tengslum við byrlunar- og símastuldsmálið þar sem brotaþoli er Páll skipstjóri Steingrímsson.

Stefnan kemur í kjölfar fjárkröfu Aðalsteins, ein milljón króna, að viðlagðri hótun um málssókn.

Aðalsteinn vill tvær milljónir í miskabætur og málskostnað. Auk kröfu um ómerkingu átta ummæla gerir Aðalsteinn kröfu að tilfallandi bloggari fjarlægi af bloggsíðu sinni ummælin, að viðlagðri dagsekt upp á 50 þús. kr. Starfandi blaðamaður, varaformaður Blaðamannafélagsins í ofanálag, vill fá stuðning dómstóla til ritskoðunar. Ásamt bloggara er Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, stefnt til réttargæslu en án dómskröfu.

Í stefnu lögfræðings Aðalsteins, Gunnars Inga Jóhannessonar, segir að blaðamaðurinn sé margverðlaunaður, fékk m.a. ,,Pulitzer-verðlaun fyrir umfjöllun um hið svonefnda Panama-mál."

Fjölmiðlastórstjarna, hlaðin alþjóðlegum viðurkenningum, hefur ekki útskýrt fyrir almenningi, og heldur ekki fyrir lögreglu, vitneskju sína um byrlun Páls skipstjóra og stuld á síma hans. En lögmaður Aðalsteins viðurkennir í stefnunni að blaðamaðurinn var með stolin gögn, sem voru fengin með byrlun.

Aðalsteinn skrifaði fyrstu fréttina upp úr síma Páls þann 21. maí 2021 og birti á Stundinni. Sama dag og nánast á sömu klukkustund birti Kjarninn hliðstæða frétt. ,,Óumdeilt er að um var að ræða gögn sem komu frá starfsmanni Samherja og einum liðsmanni skæruliðadeildarinnar, Páli Steingrímssyni, sem starfað hafði sem skipstjóri á einu fiskiskipa Samherja," segir í stefnunni.

Játning lögmannsins er á skjön við fyrri yfirlýsingar Aðalsteins. Í viðtali í Kastljósi 20. september 2022 segir Aðalsteinn orðrétt: ,,Fyrir það fyrsta að þá liggur
ekki fyrir að gögnin sem að ég notaði til grundvallar fréttarskrifa um skæruliðadeild Samherja hafi komið úr farsíma." Í sama viðtali sagðist Aðalsteinn ætla að kæra til Mannréttindadómstóls Evrópu að hann væri sakborningur. En hann kærði aldrei til Mannréttindadómstólsins. 

Ef Aðalsteinn hefði upplýst alþjóð um hvernig hann komst yfir gögnin og hvað hann veit um málið hefði tilfallandi bloggari ekki þurft að fjalla um tengslin. Nú segir lögfræðingur Aðalsteins að óumdeilt sé að hann fékk stolin gögn. Hvers vegna upplýsir Aðalsteinn ekki aðkomu sína að málinu? Hann hætti skyndilega störfum á RÚV morguninn 30. apríl 2021, þrem dögum áður en skipstjóranum var byrlað. Eftir hádegi var Aðalsteinn kominn í vinnu hjá Stundinni og sagði ,,Ég er ekki hættur í rannsóknablaðamennsku." 

Er rannsóknablaðamennska að skrifa fréttir upp úr stolnum gögnum sem fengin eru með byrlun? Jú, á Íslandi er málum þannig háttað, samkvæmt varaformanni Blaðamannafélagi Íslands. Varaformaðurinn verðlaunaði sjálfan sig 1. apríl 2022 (fyndin dagsetning). Tilfallandi bloggari vann sér það til óhelgi að vekja athygli á málinu daginn eftir og skrifaði:

Þrír blaðamenn Stundarinnar og Kjarnans sem fengu verðlaun Blaðamannafélags Íslands eru sakborningar í lögreglurannsókn. Verðlaunin fengu þeir fyrir fréttir sem aflað var með glæpum, byrlun og gagnastuldi.

Arn­ar Þór Ing­ólfs­son og Þórður Snær Júlí­us­son, blaðamenn á Kjarn­an­um, og Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni eiga aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans. Málsgögn, þau sem hafa verið gerð opinber, hníga öll í þá átt að skipulag glæpsins og miðstöð framkvæmdar hafi verið á RÚV.

Tilvitnunin er fullkomlega eðlilegur fréttatexti. En það má ekki skrifa fréttir hér á landi þegar blaðamenn eru sakborningar. Annars fá menn á sig málssókn. Arnar Þór og Þórður Snær stefndu bloggara fyrir ofangreind orð og nú kemur Aðalsteinn í kjölfarið.

Tilgangur Aðalsteins og félaga er að koma í veg fyrir umfjöllun um refsimál þar sem þeir eru sakborningar. Fyrsta grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands hljómar svona:

1. grein
Blaðamaður hefur sannleikann að leiðarljósi, stendur vörð um tjáningarfrelsið og frjálsa fjölmiðlun og rétt almennings til upplýsinga, svo veita megi nauðsynlegt aðhald í lýðræðisþjóðfélagi.

 

Tilfallandi bloggari veitir blaðamönnum aðhald með umfjöllun um sakamál. Tjáningarfrelsið er varaformanni Blaðamannafélagsins svo dýrmætt að hann stefnir bloggara og krefst ritskoðunar. Almenningur á aðeins rétt á upplýsingum frá blaðamönnum. Aðrir eiga að þegja.   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Lagahernaður (Lawfare) heims-marxista ... sýndarréttarhöld Stalíns eru staðallinn sem unnið er eftir.

Guðjón E. Hreinberg, 23.6.2023 kl. 15:53

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þeir þurfa ekki að kvarta lögmennirnir vegna skorts á salti í grautinn. 

Ragnhildur Kolka, 23.6.2023 kl. 18:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband