Föstudagur, 16. júní 2023
Venjulegt fólk og hinsegin móðgun
Venjulegt fólk er ekki til nema sem hugtak, strangt tekið. Allir eru einstakir, sérhver er sitt eigið sniðmát. Líklega telur allir þorri fólks sig venjulegt vel vitandi að það einstakt. Almennt flaggar fólk ekki sínum sérkennum, telst háttvísi. Sumir, aftur, segja sig hinsegin.
Kristján Hreinsson skáld ræðir:
Það er gefið í skyn að auðvelt og ómerkilegt sé að vera bara svona manneskja miklu erfiðara og merkilegra að vera hinsegin. Skilgreiningin átti að vera styrkur en hún er veikleiki þegar öllu er á botninn hvolft. Hér þarf enga skilgreiningu við erum öll fólk. Það er væntanlega ekki til neitt sem heitir venjulegt fólk þess vegna erum við öll óvenjulegt fólk.
Alsiða er að fólk taki sér kennimark, segjast Keflvíkingar, KR-ingar, alkahólistar, þjóðkirkjumenn og svo framvegis. Hinsegin fólk markar sér aftur þá sérstöðu að telja sig bera þyngri byrðar en flestir aðrir vegna viðkvæmrar stöðu og krefst nýrra samfélagshátta, menningarlegrar hinseginvæðingar. Það vill banna hversdagslegt orðfæri og sýpur hveljur yfir íslenskri málfræði. Hinseginviskan fær áheyrn. Skáldið útskýrir:
Hinn heimski meirihluti vill helst ekki rugga bátnum og leyfir þess vegna hinum heimska minnihluta að ákveða hvernig orðræðu skal háttað. Fólk hefur komist að þeirri niðurstöðu að best sé að banna öll orð sem hugsanlega geta fengið okkur til að móðgast fyrir hönd annarra. Í nafni pólitísks rétttrúnaðar viljum við skipta út kyni orða og helst banna orðið maður vegna þess að það er í karlkyni.
Móðgunargirni er þáttur í mannlífinu og hefur löngum verið. Íslenskuprófessor sagði fornmenn ,,orðsjúka" er þeir hefndu fyrir kviðlinga er sneyddu heiður og sóma. Orðaviðkvæmni samtímans er af öðrum toga. Móðgun fyrir hönd annarra gefur vel af lækum á samfélagsmiðlum, einkum þeim snöggir eru upp á lagið og tísta snemma, þeirra færslum er deilt. Á sjónvarpsöld var 15 mínútna frægð æðst gæða hégómans, nú gilda læk og deilingar.
Orðsjúku forfeður okkar móðguðust á eigin reikning. Þeir báru skynbragð á heiður og sóma. Hinsegin móðgun er að sýnast betri en aðrir, sérgrein góða fólksins.
Athugasemdir
Ungri stúlku er nóg boðið. Hún samdi ljóð.
Helga Dögg Sverrisdóttir, 16.6.2023 kl. 08:59
Ítalskir skór.
Höfundar: Henning Mankell, Hilmar Hilmarsson þýddi. Fredrik Welin býr einn á eyju í sænska skerjagarðinum með gömlum hundi .
Hann, Fredrik, á dóttir sem heitir Louise.( Bl. 150 )
( Jamm, það er þetta með venjulegt fólk )
„Hversvegna er ekkert venjulegt fólk hérna?“ sagði ég þar sem stóðum og skoðuðum matseðilinn.
„Hversvegna eru allir sem við rekumst á eitthvað skrýtnir. Ítali sem býr til skó, eða gammall rokkari sem talar um Jussi Björling?“
„Það er ekki til neitt venjulegt fólk“ sagði Lousie.
„Það er bara ranghugmynd sem stjórnmálamenn vilja að við trúum á. Að við séum hluti af einhverjum endalausum venjulegheitum og að við, hvorki getum né viljum vera öðruvísi. Það er fáránlega mikið talað um venjulegheit, sem eru bara ekki til. Kannski er það bara leið sem stjórnmálamenn hafa fundið til að niðurlægja fólk“
Haukur Árnason, 16.6.2023 kl. 12:24
Ég er ekki venjulegur.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 17.6.2023 kl. 02:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.