Fimmtudagur, 15. júní 2023
Hvað varð um menntun?
Atli Harðarson prófessor skrifar tímabæra grein, Hvað varð um stúdentsprófið? Atli veit hvað hann syngur, var kennari og skólastjóri framhaldsskóla áður en hann tók doktorspróf til háskólakennslu.
Atli telur útþynningu stúdentsprófsins síðustu áratuga varhugaverða þróun. Stúdentspróf fyrir alla varð ríkjandi stefna á níunda áratug síðustu aldar, birtist m.a. með stofnun fjölbrautaskóla. Lýðræðishugsun og jafnréttissjónarmið stóðu að baki.
Það sem er fyrir alla verður hvorki fugl né fiskur. Lokaorð Atla:
auðvelt [er] fyrir skóla með fámennar stúdentsbrautir að gera hvort tveggja í senn, að segja nemendum og foreldrum að boðið sé upp á alls konar stúdentsnám og segja fjárveitingavaldinu að ekki séu kenndir neinir fámennir og óhagkvæmir áfangar. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé eitt dæmi af ótalmörgum um það hvernig markaðsvæddur nútíminn brosir jafn glaðhlakkalega við öllum, líka þeim sem hann gefur steina fyrir brauð.
Stúdentspróf er einkum undirbúningur fyrir háskólanám, að flestra áliti. Útþynning stúdentsprófs gildir ekki um alla skóla, eins og Atli rekur. Sumir skólar, stundum kallaðir bóknámsskólar eða úrvalsskólar, þó ekki í opinberum gögnum, þykja undirbúa nemendur betur fyrir háskólanám en aðrir. Þeir fá flestar umsóknir um skólavist.
Afleiðingin verður, samkvæmt Atla, afturhvarf til tímans fyrir hugsjónina um stúdentspróf fyrir alla.
Atli segir ekki, en tilfallandi getur leyft sér það, að hugmyndin um stúdentspróf fyrir alla felur í sér háskólapróf fyrir alla. Stúdentspróf er jú undirbúningur háskólanáms, einkum og sérstaklega.
En það getur ekki verið rétt. Það hentar ekki öllum að takast á við háskólanám, liggur í hlutarins eðli.
Kannski er reyndin sú að framhaldsskólar séu í tvöföldu hlutverki hvað menntun áhrærir. Í einn stað undirbúa þeir nemendur fyrir háskólanám en í annan stað þátttöku í lífinu almennt. Frá þessum sjónarhóli verður spurningin: hvað varð um menntun? Áður en þeirri spurningu er svarað verður að liggja fyrir hvað við viljum kalla menntun. Yfir til þín, Atli.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.