Óbirt Namibíufrétt RSK-miðla

RÚV og Heimildin (áður Stundin/Kjarninn), RSK-miðlar, sérhæfa sig í Namibíumálum, eins og alþjóð er kunnugt frá Kveiksþættinum alræmda í nóvember 2019. Samherji var þar ásakaður um mútugreiðslur til namibískra embættismanna til að komast yfir kvóta í hrossamakríl.

Nú stendur yfir dómsmál þar syðra. Enginn Samherjamaður er sakborningur og enginn lögaðili tengdur útgerðinni á sakabekk. Aðalsakborningurinn er Bernhard Esau fyrrum sjávarútvegsráðherra. Í þriggja daga gamalli frétt útgáfunnar Namibian er sagt frá skýrslugjöf Esau í dómssal.

RÚV og Heimildin, RSK-miðlar, vitna reglulega í Namibian en ekki kemur stakt orð um yfirheyrslur yfir Esau. Hvernig víkur því við að aðalsakborningurinn í Namibíumálinu, sem RSK-miðlar kalla alltaf Samherjamálið, er ekki fréttaefni þeirra íslensku miðla sem sérhæfa sig í málinu?

Skýringin er vitanlega sú að skýrslugjöf Esau fyrir dómi sýnir svart á hvítu að Samherji var fórnarlamb en ekki gerandi í sakamálinu sem nefnist Fishrot þar syðra.

Í fréttinni kemur fram að yfirmenn opinberrar stofnunar, Fishcor, seldu Samherja kvóta en stungu undan greiðslum sem Samherji innti af hendi. Samherji var í góðri trú, keypti kvóta af opinberri stofnun.

Namibísk lög gera ráð fyrir að Fishcor selji kvóta og noti afraksturinn í uppbyggingu innviða og þróunaraðstoðar innanlands.

Nafn Jóhannesar Stefánssonar, fyrrum yfirmanns Samherja í Namibíu, síðar uppljóstrari, kemur fyrir í fréttinni. Þar segir frá tölvupósti forstjóra Fishcor, Sacky Shanghala, til Jóhannesar um að nýta sameiginleg fiskimið Angóla og Namibíu.

Vörn Esau er að embættismenn hafi misnotað nafn hans og ráðherraembætti til að auðgast sjálfir. Saksóknari heldur fram aðild Esau að umboðssvikum.

RSK-miðlar þegja í hel frásögnina af dómsmálinu í Namibíu. Hún afhjúpar að fjölmiðlahávaðinn, sem hófst í nóvember 2019, var falsfréttamennska eins og hún gerist verst. Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks, sá sem kom á sambandi milli Jóhannesar uppljóstrara og RSK-miðla, mætti glaðbeittur í viðtal á mbl.is. Eftir honum var haft:

Wiki­leaks birti í gær yfir 30.000 skjöl tengd starf­semi Sam­herja í Namib­íu, auk þess sem Stund­in og Kveik­ur fjölluðu ít­ar­lega um málið. Í um­fjöll­un­um þeirra er Sam­herji m.a. sagður hafa greitt hundruð millj­óna króna í mút­ur til ein­stak­linga tengd­um Bern­h­ard Easu, sjáv­ar­út­vegs­ráðherra Namib­íu, til að tryggja aðgang að fisk­veiðikvóta í land­inu.

Eina sem rétt er í efnisgreininni er að Wikileaks birti skjöl og Bernhard Esau var sjávarútvegsráðherra. Þúsundir skjala sýndu enga mútugreiðslur Samherja. Rannsóknir saksóknara á Íslandi og Namibíu fundu ekkert saknæmt hjá útgerðinni.

Margt bendir til að Kristinn og RSK-miðlar hafi vitað að þeir voru ekki með neitt mál í höndunum  en töldu sig hafa efni í fjölmiðlasýningu þar sem ásökun jafngilti sekt. Í fréttinni á mbl.is er haft eftir Kristni:

 „Þetta verk­efni sýn­ir nauðsyn þess að stunda góða, vandaða og yf­ir­grips­mikla rann­sókn­ar­blaðamennsku. Ég held líka al­mennt séð að þessi birt­ing og þessi um­fjöll­un sé ákveðinn próf­steinn og prófraun á ís­lenskt sam­fé­lag, og einnig á ís­lenska fjöl­miðla, hvernig þeir mat­reiða og verka þessi mál, sér­stak­lega með til­liti til þess hvernig eign­ar­haldið er þar víða.“

Matreiðsla og verkun á ósannindum, sem sagt, til að hlutirnir líti þannig út að saklaus sé sekur.

Með leyfi að spyrja: Dettur nokkrum með óbrjálaða dómgreind í hug að fjölmiðlar sem stunda siðlausa falsblaðamennsku eigi að fá ríkisfé til að halda lygafabrikkunni gangandi?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Rekstur Wikileaks rúllar áfram á tuga miljarða framlögum frá almenningi
(sbr. þær bætur sem þeir fengu frá kortafyrirtækjunum hér um árið)
Það er því lísnauðsynlegt fyrir Wikileaks að "búa til" eitthvað svo peningarnir haldi áfram að streyma inn í kassan

Grímur Kjartansson, 1.6.2023 kl. 09:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband