Þriðjudagur, 16. maí 2023
Vitalía, Edda, Jóhannes og vegferð fjölmiðla
Engin frétt er betri en heimildin fyrir henni. Ef heimildin er ótrúverðug verður fréttin ótrúverðug. Ef heimildin lýgur er fréttin ósönn.
Þrjár heimildir raðfrétta um menn og málefni hafa reynst ósannar og hefðu aldrei átt að vera metnar trúverðugar af fjölmiðlum.
Vítalía var heimild fyrir ofsóknum fjölmiðla gagnvart fjórum mönnum. Flest bendir til að hún hafi farið með þvætting í auðgunarskyni. Edda Falak var áhrifavaldur sem Heimildin gerði að blaðamanni. Hún bjó til vettvang þar sem æra manns og annars var kurluð en reyndist sjálf lygalaupur og ritþjófur. Edda léði Vítalíu trúverðugleika sem heimild; lygi elur af sér lygi. Jóhannes Stefánsson uppljóstrari í Namibíumáli RSK-miðla er ógæfumaður sem enginn fjölmiðill vandur að virðingu sinni tæki trúverðugan.
Blaðamenn sem ekki kunna heimildarýni og búa ekki að dómgreind til að aðgreina ótrúverðugar heimildir frá trúverðugum eru ekki starfi sínu vaxnir. Þeir eru ekki hótinu betri en Gróa á Leiti.
Enginn fjölmiðill hefur beðist afsökunar á að hlaupa eftir slúðri og gróusögum þremenninganna. Hvergi sést vottur af sjálfsgagnrýni að ekki sé talað um auðmýkt blaðamanna sem gleyptu hráar tröllasögurnar og gáfu þeim lögmæti.
Á hvaða vegferð eru fjölmiðlar?
Jú, þeirri að draga upp tiltekna mynd af samfélaginu. Að glæpamenn tröllríði húsum, stundi kynferðisglæpi, svik og stórþjófnað.
Hvers vegna gera fjölmiðlar þjóðinni þann óleik að telja henni trú um að mannlífið sé forarpyttur afbrota og óheiðarleika?
Jú, til að valdefla sjálfa sig. Með því að þykjast afhjúpa spillingu og glæpi gera fjölmiðlar sig gildandi og krefjast ríkisfjár að borga ritstjórnum laun að skálda óhæfuverk. Svikamylla þar sem glæpasögur gefa vel í aðra hönd.
Á daginn mun koma að afbrot og lögleysa hafa grafið um sig, ekki í samfélaginu almennt, heldur hjá fjölmiðlum og blaðamönnum. Glæpaleiti er miðstöðin, RSK er lykilorðið.
Athugasemdir
Hreinasta snild .takk Páll
rhansen, 16.5.2023 kl. 10:35
Svo mætti nefna Braga Pál Sigurðarson sem m.a. ítrekað hefur haldið því fram í riti og ræðu að allir sjálfstæðismenn væru haldnir barnagirnd.
Að vísu tókst honum að slátra mótmælafundaröð sem átti að vera vikulega þar til árangur næðist, einfaldlega með því að ganga fram af venjulegu fólki í ræðu sinni svo flestir létu sig bara hverfa af Austurvelli.
Grímur Kjartansson, 16.5.2023 kl. 15:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.