Mánudagur, 8. maí 2023
Maurizio og Ragnar Þór, krúnan og lýðveldið
Maurizio Tani mótmælti bresku krúnunni um helgina. Næstu helgi boðar Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR mótmæli gegn íslenska lýðveldinu.
Rísum upp er slagorðið. Mótmælin eru gegn vöxtum, bankakerfinu, ástandi helbrigðisþjónustu, erfiðum húsnæðismarkaði og versnandi afkomu. Síðan segir Ragnar Þór:
Eða hefur þú fengið nóg af einhverju öðru sem betur má fara í okkar samfélagi?
Lýðveldið, sem sagt, frá toppi til táar, er tilefni mótmæla Ragnars Þórs.
Maurizio Tani segist lýðveldissinni og vill afskaffa breska konungsdæmið. Ragnar Þór er sennilega ekki konungssinni þótt hann vilji allt feigt sem lýðveldinu tilheyrir.
Ragnar Þór tilheyrir hópi fólks sem skreið undan steini við hrunið og fær ekki nóg af skálmöldinni sem tröllreið húsum árin eftir. Stjórnmálasamtök, Píratar og Viðreisn, færðu í formlegan búning andófið en urðu í leiðinni hluti af stofnanaveldinu og þiggja ríkisstyrk.
Mótmælasinnar eins og Ragnar Þór hafa alltaf verið til. Hér í den var Birna Þórðardóttir í þessu hlutverki. Munurinn er sá að Birna var vanalega með á hreinu hverju skyldi mótmælt. Ísland úr Nató, herinn burt var eftirminnilegt slagorð.
Í dag heitir það mótmælum, bara einhverju. Allt er hvort eð er að fara til fjandans. Hvers vegna ekki að drífa sig að öskra á allt og alla?
Mótmælti einn og ætlar ekki að gefast upp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvernig er vaxtaokur hluti af lýðveldinu?
Guðmundur Ásgeirsson, 8.5.2023 kl. 12:13
Yfirleitt er ég ekki sammála Ragnari en þetta virðist eiga rétt á sér. En það er ekki nóg að mótmæla einhverju en vilja svo ekki gera það sem þarf til að laga það.
1. Vaxtaokrið er í höndum yfirvalda vegna þess að lífeyrissjóðirnir eru búnir að draga allar tennur úr almenningi. Sparifé tekið með valdi af fólki sem gerir það að verkum að almenningur er mjög skuldsettur. Ef Ragnari væri alvara þá legði hann til að lífeyrissparnaði fólks mætti nota til íbúða kaupa sem er trygging fyrir því að þessi sparnaður nýtist réttum eiganda og húsnæðisvandinn leystur í leiðinni. Ég held að hann sé ekki samkvæmur sjálfum sér. Yfirvöld hafa sogað til sín óeðlilega mikið vald sem þeir misnota svo reglulega. Það er veisla hjá bönkunum núna en almenningur engist sundur og saman í boði seðlabankans. Nú er svo komið að helmingur vinnandi fólks nær ekki endum saman í landi sem státar af því að vera í 5. sæti í heiminum yfir hæstu þjóðartekjur. Þetta er að sjálfsögðu til háborinnar skammar.
2. Heilbrigðiskerfið er reyndar orðinn kapituli út af fyrir sig. Það er eins og þjónustan versni með hverri krónu. Það eru orðnar ansi margar sögurnar um að fólki sé vísað frá þó að um alvarleg mál sé að ræða enda þótti við hæfi að gera grín að þessu í áramótaskaupi.
Það er ekki ofsögum sagt að yfirvaldið er versti óvinur almennings.
Seðlabankinn lætur líta út fyrir að ef fátæklingum er gert ókleyft að kaupa sér íbúð og haldi sig í dýru leiguhúsnæði þá hverfi eftirspurnin og verðbólgan lækkar. Er þetta ekki rétt skilið hjá mér?
Kristinn Bjarnason, 8.5.2023 kl. 17:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.