Laugardagur, 6. maí 2023
Kynjatvíhyggja og fjölbreytileiki
Samtökin 78 mótmæla með undirskriftarsöfnun málflutningi Samtakanna 22. Í yfirlýsingu segir:
Samtökin 22 hafa talað gegn starfsemi hinna raunverulegu hagsmunasamtaka hinsegin fólks, Samtakanna 78 og aðildarfélögum þeirra, ýtt undir kynjatvíhyggju og virðast í raun fyrst og fremst stefna að upplausn hinsegin samfélagsins eins og við þekkjum það í dag.
Hugtakið ,,kynjatvíhyggja" vísar til þess að kynin séu tvö. Samtökin 22 aðhyllast þau almennu sannindi. Samtökin 78 mótmæla og boða sérvisku með innbyggðri mótsögn.
Í einn stað tala Samtökin 78 fyrir trans, að skipta um kyn, karlar verði konur og konur karlar. Það er játning á kynjatvíhyggju enda þótt kyn sé gert valkvætt. Í annan stað segja sömu samtök að kynin séu óteljandi. Ef kynin eru legíó er fullkominn óþarfi að skipta um kyn. Hver og einn er það kyn sem hann kýs sér hverju sinni.
Hér er mótsögn. Ef kynjatvíhyggja vísar í hlutlægan veruleika skiptir máli af hvoru kyni einstaklingurinn er. Afneitun kynjatvíhyggju felur í sér að kynin séu óteljandi. Þá skiptir kyn engu máli. Karl að morgni en kerla að kveldi, ef því er að skipta.
Fjölbreytileiki er merkingarlaus án takmarkana. Gildir bæði í vísindum og mannlífinu. Ef tveir plús tveir geta verið þrír, fimm eða seytján verður stærðfræði merkingarlaus. Ef 63 ára karl getur verið þrítug kona eða fermingarbarn af fertugasta kyni er hugtakið maður merkingarlaust.
Maðurinn er þannig gerður að fjölbreytileiki til hugar er eitt en til handar annað. Leikskólabörn eru hvött til hlutverkaleikja, það fjörgar ímyndun og auðveldar að setja sig í spor annarra. Í leikskóla er sjálfsagt að trúa á jólasveina einn og átta. Barnatrúin á hindurvitni verður utan gátta á fullorðinsárum hjá þeim sem læra að greina á milli ímyndunar og veruleika. Kallast þroski.
Það er önnur umræða, en ekki síður áhugaverð, að yfirvöld sum hver kalla til ,,leiðbeinandi samtals" fullorðna einstaklinga og biðja þá að ganga í barndóm; trúa að kynin séu óteljandi en ekki tvö. Helga Dögg Sverrisdóttir kennari var kölluð í slíkt samtal af Akureyrarbæ.
Þegar yfirvöld þola ekki frjálsa orðræðu er komið í óefni. Forsenda fyrir fjölbreyttu samfélagi er fjölbreytileiki skoðana. Þær skoðanir sem best koma heim og saman við veruleikann sigra að lokum. Út á það gengur málfrelsi.
Athugasemdir
Hvernig fólk nennir að hlaupa eftir þessari vitleysu. Við fæðumst með ákveðin fjölda litnina. Þeir segja til um hvort við teljums vera stúlka eða drengur. Flestir ættu að vera sáttir við það. Einstaka sinnum fá einstaklingar með svokallað trisomy 21 að fæðast (Downs syndrome) hér á landi, en eg hef ekki orðið vör við að eftirsókn sé að fylla þann flokk. Því er haldið fram að tísku fyrirbærið trans sé brenglun í heilastarfsemi, nokkurs konar nútíma anorexía. Hvort það er rétt veit ég ekki en þessi áhersla á að brengla hugsun barna vekur mér óhug.
Ragnhildur Kolka, 6.5.2023 kl. 19:06
Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.
Og Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau: Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.(1. Mós. 1:27-28).
Vitið þér eigi, að þér eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í yður? Ef nokkur eyðir musteri Guðs, mun Guð eyða honum, því að musteri Guðs er heilagt, og þér eruð það musteri. (1. Kór. 3:16-17).
Þótt tíðarandinn í samfélaginu samþykkir að við afskræmum eða jafnvel eyðum okkar eigin líkama og annarra, þá er það stór synd í augum Guðs.
Biblían varar menn við, sem eru að íhuga að fá sér húðflúr á líkamann, hvað þá ef þeir fara í kynskiptaaðgerðir.
Og þér skuluð eigi skera skurði í hold yðar fyrir sakir dauðs manns, né heldur gjöra hörundsflúr á yður. Ég er Jehóva. (3. Mós. 19:28).
Guðmundur Örn Ragnarsson, 6.5.2023 kl. 21:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.