Mánudagur, 17. apríl 2023
Þóra keypti afritunarsíma í apríl, Páli byrlað í maí
Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV keypti Samsung síma í apríl 2021 og skráði á hann númerið 680 2140 í sama mánuði. Síminn er sömu gerðar og sími Páls skipstjóra sem hefur númerið 680 214X. Aðeins munar síðasta tölustaf á númerunum tveim. Til afritunar var nauðsynlegt að hafa síma sömu gerðar og skipstjórans, Samsung. Símarnir eru lagðir saman og afritunarforrit er ræst. Aðgerðin tekur nokkrar mínútur.
Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað 3. maí 2021, stuttu eftir símakaup Þóru. Nýr ónotaður sími með símanúmer líkt númeri skipstjórans beið á Efstaleiti. Ráðabruggið lá fyrir. Aðeins átti eftir að byrla og stela.
Staðsetningarbúnaður síma skipstjórans sýnir að á meðan Páll lá milli heims og helju á gjörgæslu Landspítala dagana 4. til 6. maí var síma hans stolið og farið var með hann á Efstaleiti, höfuðstöðvar RÚV. Þar var innihald síma skipstjórans afritað yfir á Samsung-síma Þóru.
Fréttamaður á Kveik og undirmaður Þóru, Aðalsteinn Kjartansson, var fyrirvaralaust fluttur af RÚV yfir á Stundina 30. apríl, þrem dögum áður en Páli var byrlað. Snögg vistaskipi Aðalsteins undirstrika að skipulagið skyldi vera á Efstaleiti en fréttaflutningur á Stundinni og Kjarnanum.
Stolnum síma Páls var skilað á sjúkrabeð hans áður en hann komst til meðvitundar. Skipulag RSK-miðla (RÚV, Stundin og Kjarninn) gerði ráð fyrir að skipstjórinn væri grunlaus.
Úr afritaða símanum á RÚV með númerið 680 2140 voru einkagögn Páls send á Kjarnann og Stundina, m.a. skjáskot sem voru tekin af tölvupóstum skipstjórans. Skrifaðar voru fréttir á Efstaleiti með samræmdum boðskap um að skæruliðadeild starfaði hjá Samherja og skipstjórinn væri höfuðpaurinn. Kjarninn og Stundin birtu samtímis fréttir úr síma Páls 21. maí, rúmum hálfum mánuði eftir þjófnaðinn. RÚV birti ekkert.
Ástæða tafarinnar á birtingu fréttanna er að blaðamenn RSK-miðla vildu bíða í tvær vikur til að ekki væri hægt að fletta upp í staðsetningarforriti síma skipstjórans. Búnaðurinn geymir staðsetningu símans aðeins tvær vikur aftur í tímann. Eftir 19. maí voru ekki upplýsingar í síma skipstjórans um staðsetningu tækisins 4. og 5. maí. Eða svo töldu blaðamenn.
En Páll skipstjóri sá að átt hafði verið við símann þegar hann tók til við að nota tækið. Hann slökkti á símanum, sem þýðir að staðsetningarbúnaður geymdi upplýsingar um ferðalag tækisins í þjófahöndum. Skipstjórinn kærði málið 14. maí, viku áður en Stundin og Kjarninn birtu fyrstu fréttirnar upp úr símanum.
Lögreglurannsókn leiddi til þess að fjórir blaðamenn fengu stöðu sakborninga 14. febrúar 2022. Þóra á RÚV og blaðamennirnir sem birtu fréttir úr síma skipstjórans; Þórður Snær, Arnar Þór og Aðalsteinn. Síðar var fimmta sakborningi bætt við, Inga Frey Vilhjálmssyni. Allir starfa þeir á sama miðlinum, Heimildinni, sem varð til með yfirtöku Stundarinnar á Kjarnanum nýliðin áramót.
Afritaða símann notuðu blaðamenn til ýmissa samskipta, bæði sín á milli og við byrlara Páls skipstjóra. Þegar hringt var úr afritaða símanum í byrlara Páls kom nafnið ,,ÞAK" sem lögregla telur að standi fyrir Þóra Arnórsdóttir Kveikur. Líklegt er að síminn hafi verið í fórum annarra en Þóru a.m.k. um stundarsakir. Það er t.d. ekki vitað til þess að Þóra hafi skroppið á fótboltamót á Akranesi sumarið 2021, en þar var síminn notaður skv. upplýsingum úr staðsetningarbúnaði.
Þar sem símanúmer Páls skipstjóra og númerið á afritunarsímtækinu eru keimlík var auðveldara að fela slóðina. Yfirlit um símtöl, t.d. á reikningum, sleppa tveim síðustu tölustöfum símanúmera af persónuverndarástæðum.
Rannsókn lögreglu beindist fyrst að meðferð blaðamanna á einkagögnum og brot á friðhelgi. Lögreglan vissi fljótlega hver byrlaði og stal símanum, andlega veik kona tengd Páli. Eftir því sem rannsókninni vatt fram vöknuðu grunsemdir um að RSK-blaðamenn höfðu komið að skipulagningu byrlunar og þjófnaðar.
Upplýsingar um Samsung símann sem Þóra keypti í apríl 2021 urðu lögreglu kunnar þegar leið á rannsóknina. Í janúar síðastliðinn staðfesti Stefán útvarpsstjóri að símanúmerið 680 2140 væri á Kveik, sem Þóra ritstýrði. Þar með liggja fyrir upplýsingar um aðdraganda tilræðisins gegn skipstjóranum. Blaðamenn í félagi við andlega veika konu lögðu á ráðin. Blaðamannafélag Íslands veitti verðlaun fyrir tiltækið. Fjölmiðlar þegja um málsatvik.
Hlutdeild í byrlun og þjófnaði er alvarlegra afbrot en meðferð og hagnýting stolinna gagna. Byrlun er líkamsárás, ef ekki banatilræði.
Athugasemdir
Þú ert með þetta allt á hreinu.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 17.4.2023 kl. 11:50
Lengi vel var einna ótrúverðugast í atvikalýsingu þinni, að Aðalsteinn hefði skipt um starfsvettvang fyrir meinta byrlun og stuld á síma Páls skipstjóra.
Að mögulega hefðu hinir grunuðu blaðamenn nýtt sér ógæfuverk eiginkonu Páls en ekki átt aðild að því fyrirfram.
Séu nú þessi atvik sem þú lýsir rétt, þ.e. staðreyndir málsins. Þá benda þau vissulega enn fremur til sektar blaðamannanna.
En þar sem ekki er farið að rétta í málinu þá hafa engir blaðamenn aðgang að þessum upplýsingum sem þú hefur væntanlega með einum eða öðrum hætti frá nafna þínum skipstjóranum og því skiljanleg þögn sú sem um málið ríkir.
Eru annars einhverjar af þessum upplysingum orðnar opinberar fyrir utan að viðkomandi blaðamenn hafi réttarstöðu grunaðra? (sem má víst varla segja).
Meint áhugaleysi fjölmiðla gæti semsagt stafað af því að þeir hafi nákvæmlega ekkert í höndunum annað en óstaðfestar fullyrðingar á bloggi, um þetta mál!
Annars er ég viss um að góður fjölmiðlamaður eins og t.d. Egill Helgason myndi taka það til alvarlegrar umræðu segjum í Silfrinu! ;-)
Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 17.4.2023 kl. 14:11
Sakborningarnir og fjölmiðlar þeirra eru með þessar upplýsingar. Auk þess vita blaðamennirnir hvað þeir gerðu og ættu að þola spurningar frá öðrum fjölmiðlum sem ættu vitanlega að bregða ljósi á málið.
Eða er það meginregla í íslenskum fjölmiðlum að afbrotamál liggi í þagnargildi á meðan lögreglurannsókn stendur yfir?
Páll Vilhjálmsson, 17.4.2023 kl. 14:33
Það er ýmislegt hægt að gera áhugavert fyrir kr. 8.000.000.000.- á ári. Einn farsími er einungis dropi í botnlausa hítina. Nú ætti RÚV að láta skrímsladeildina í fríði og einhenda sér í að fjalla um framsal fullveldisins til ESB með tilheyrandi brotum á stjórnarskránni. Það yrði þörf tilbreyting.
Júlíus Valsson, 17.4.2023 kl. 16:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.