Fimmtudagur, 13. apríl 2023
Þóra varpar grun á aðra Kveiks-menn
Afritaður sími Páls skipstjóra Steingrímssonar fékk númerið 680 2140. Númerið er skráð á RÚV/Kveik, sem Þóra Arnórsdóttir ritstýrði þangað til febrúar í ár. Í yfirheyrslu lögreglu 16. mars s.l. var Þóra spurð hver hafði símann undir höndum vorið og sumarið 2021 þegar Páli skipstjóra var byrlað, síma hans stolið og hann afritaður á Efstaleiti.
Samkvæmt lögregluskýrslu sagði Þóra að átta starfsmenn væru á Kveik og síminn hafi gengið manna á milli, ,,eftir því hvaða verkefni væri verið að vinna."
Verkefnið vorið og sumarið 2021 var fyrst og fremst að afrita síma skipstjórans, koma gögnum úr símanum yfir á Stundina og Kjarnann til birtingar. Páli skipstjóra var byrlað 3. maí. Hann kærði til lögreglu 14. maí. Stundin og Kjarninn birtu fyrstu fréttir úr afritaða símanum 21. maí. RÚV birti enga frétt. Ríkisfréttamennirnir gáfu vinnu sína til Stundarinnar og Kjarnans. Opin spurning er hvort það hafi verið með vitund og vilja útvarpsstjóra.
Auk Þóru eru, svo vitað sé, fjórir aðrir sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu. Þórður Snær Júlíusson, Arnar Þór Ingólfsson, Aðalsteinn Kjartansson og Ingi Freyr Vilhjálmsson. Allir eru þeir blaðamenn á Heimildinni, eftir sameiningu Stundarinnar og Kjarnans.
Með því að Þóra varpar grun á alla starfsmenn Kveiks gæti sakborningum fjölgað. Lögreglan þarf að ganga úr skugga um hverjir höfðu símann undir höndum á þegar lykilsamskipti fóru fram.
Afritaði síminn með númerið 680 2140 var sumarið og haustið 2021 notaður m.a. til að reyna að komast inn á bankareikninga Páls skipstjóra sem og reikninga hans á samfélagsmiðlum. t.d. Facebook. Þá var síminn notaður í samskipti við andlega veiku konuna sem byrlaði Páli, stal síma hans og kom í hendur blaðamanna.
Ein 85 samskipti við veiku konuna eru skráð á afritaða símann. Í þeim samskiptum sem hafa komið fram í yfirheyrslum yfir sakborningum er m.a. lagt á ráðin að eyða gögnum og dularfull skilaboð um að hafa samband við embætti héraðssaksóknara, sem þó fer ekki með rannsókn málsins.
Í yfirheyrslu lögreglu 16. mars s.l. segir Þóra að mörg hundruð símtöl komi inn á þennan síma og kallar hún það ,,heimildarmenn" sem hringi inn og þeir njóti lagaverndar. En símanúmerið 680 2140 er óskráð. Á heimasíðu Kveiks eru gefin upp símanúmer starfsmanna, 680 2140 er þar hvergi að finna. Ekki heldur var númerið skráð á heimasíðuna árið 2021 þegar allur þorri samskipta við veiku konuna fóru fram.
Hvernig geta meintir ,,heimildarmenn" hringt í símanúmer sem hvergi er skráð?
Athugasemdir
Það þyrfti að setja þetta lið í gæzluvarðhald, held ég. Þá myndu línur skýrast mjög fljótlega...
Guðmundur Böðvarsson, 13.4.2023 kl. 10:52
Er of seint að hringja í 6802140 með upplýsingar ef svo er, hvert er númerið sem rannsóknarblaðamenn Kveiks svara?
Heimir Lárusson Fjeldsted, 13.4.2023 kl. 14:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.