Mánudagur, 20. mars 2023
Stefán benti á Þóru - verður hann vitni?
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri staðfesti við lögreglu í janúar síðast liðinn að Þóra Arnórsdóttir var með afritaðan síma Páls skipstjóra Steingrímssonar. Afritaði síminn fékk númerið 680 2140. Þóra valdi þetta símanúmer með það í huga að aðeins munar einum tölustaf á því og stolnum síma Páls, sem hefur númerið 680 214X.
Þóra notaði afritaða símann til að eiga í samskiptum við konuna sem byrlaði Páli skipstjóra 3. maí 2021, stal síma hans og afhenti RÚV til afritunar. Með því að númerið sem Þóra valdi er keimlíkt símanúmeri Páls, aðeins munar síðasta tölustaf, kemur ekki fram á almennum yfirlitum um símnotkun hvor síminn er notaður. Yfirlitin sleppa tveim síðustu tölustöfum símanúmera.
Lögreglan, á hinn bóginn, styðst ekki við almenn yfirlit, heldur sértækari gögn sem sýna reglulega notkun Þóru á afritaða símanum, bæði í samskiptum við konuna og blaðamenn RSK-miðla. Frá Þóru fór efni úr afritaða símanum til blaðamanna á Stundinni og Kjarnanum. Lögreglan er með upplýsingar um frekari dreifingu. Allt eru þetta einkagögn Páls skipstjóra.
Afritaður sími skipstjórans var einnig notaður í tilraunir til að komast inn á reikninga skipstjórans s.s. samfélagsmiðla og viðskiptabanka.
Fyrstu viðbrögð Stefáns útvarpsstjóra, eftir að hann fékk fyrirspurn lögreglu, var að tefja og þæfa málið. Hann bar m.a. fyrir sig ,,friðhelgi einkalífs" Þóru. Sérkennilegar mótbárur í ljósi þess að starfsmenn Stefáns, Þóra og fleiri, eru grunaðir um að hafa stórkostlega brotið á einkalífi Páls skipstjóra með afritun á síma hans og dreifingu persónugagna.
Stefán fékk lögfræðiálit og hugðist ekki veita lögreglu upplýsingar. En svo rann upp fyrir útvarpsstjóra að lögreglan var með gnótt upplýsinga. Líklega hefur Stefán, sem er fyrrum lögreglustjóri, kannað málið betur, mögulega með óformlegum samtölum, og komist að þeirri niðurstöðu að snara réttvísinnar væri komin um háls útvarpsstjóra ef hann torveldaði lögreglurannsókn á refsiverðu athæfi.
Stefán benti á Þóru um miðjan janúar og sagði að hún bæri ábyrgð á símanúmerinu 680 2140 - afrituðum síma skipstjórans. Seinni hluta janúar urðu frekari samskipti milli Þóru og útvarpsstjóra. Stefáni var ljóst að hann sjálfur myndi ganga plankann með Þóru ef héldi áfram sem horfði.
Þann 6. febrúar var tilkynnt að Þóra hætti á RÚV. Tilkynningin var snubbótt eftir 25 ára starf Þóru á ríkisfjölmiðlinum. Þegar Stefán útvarpsstjóri kvaddi Helga Seljan fyrir rúmu ári var það með þessum orðum:
Hvað Helga Seljan varðar sérstaklega þá er það sigur fyrir íslenska þjóð og blaðamennsku að þessi öflugi blaðamaður haldi áfram sínum störfum.
Þóra fær engin kveðjuorð frá útvarpsstjóra. Hún er selflutt umyrðalaust frá Glæpaleiti yfir á Háaleiti, til Landsvirkjunar, eins og hver annar ómagi. Tvær ríkisstofnanir henda á milli sín heitri kartöflu meðan sú þriðja, á heiðinni kenndri við Hólm, er eingöngu ætluð körlum.
Í væntanlegu dómsmáli er Stefán útvarpsstjóri líklegt vitni. Hann verður spurður hvers vegna Þóra var ekki látin fara 14. febrúar í fyrra þegar upplýst var að hún væri grunuð í sakamáli. Hvers vegna beið Stefán í tæpt ár með ráðstafanir?
- Jú, ég áttaði mig á því í janúar 2023 að böndin bárust að mér og fannst að ég yrði að gera eitthvað i málinu til að verja sjálfan mig og stofnunina.
Mun Stefán svara á þessa lund? Tæplega, enda heiðarlegt svar. Stefán mun róa að því öllum árum að vera ekki kallaður í vitnastúkuna. Útvarpsstjóri hefur ekki svarað grunnspurningunni í málinu:
Hvers vegna, Stefán Eiríksson, greipst þú ekki í taumana sumarið og haustið 2021 er þau tíðindi spurðust út að fréttamenn RÚV, í félagi við Stundina og Kjarnann, voru skýrt og ótvírætt bendlaðir við glæpsamlegt athæfi, byrlun og gagnastuld? Hvers vegna upplýstir þú ekki, með innanhússrannsókn, aðild starfsmanna RÚV að alvarlegu lögbroti?
Útvarpsstjóri lítur svo á að RÚV sé stofnun í þágu starfsmanna og hans hlutverk sé að leggjast á árarnar með lögbrjótum ef því er að skipta. En RÚV er opinber stofnun og á skilyrðislaust að starfa innan ramma laganna. Yfirmaður stofnunarinnar ber ábyrgðina. Stefán brást skyldum sínum sem útvarpsstjóri.
Athugasemdir
Hefur sagan á Íslandi sýnt, að það sé heilladrjúgt að beina ásökunum að þeim sem lagalega bera ábyrgð? Ekki aldeilis! Aular í stjórnunarstöðum á Íslandi hafa verið varðir fram í rauðan dauðann, sér í lagi af flokknum, sem á blaðið sem óbeint leyfir þér daglega að vera með þínar skoðanir á matseðlinum fyrir bloggið sem tengist blaðinu óbeint - og auðvitað líka beint þegar menn eru ritskoðaðir. Valdastéttir Íslands gefa ekki yfirlýstum óvinum aðgang að bloggforsíðunni, þó ýmsir rugludallar fái þar að láta ljós sitt skína. Ég var t.d. tekinn út af sakramentinu fyrir helgi fyrir helgispjöll. Þar með sagt, tel ég þó ekki ólíklegt að söguþráður þinn sé sennilegur. Dómstólar eiga eftir að mæla. Þó Raus og Rugl fari öðru hvor til Úkraínu með sokka handa Sela, er ekki þar með sagt að á Íslandi sé lýðræði. Dómur í þínu máli gæti því orðið stórfurðulegur líkt oft áður á Íslandi.
FORNLEIFUR, 20.3.2023 kl. 08:24
Páll, þeim sem fylgst hafa með skrifum þínum um málið ætti að vera ljóst að útvarpsstjóri hefur hylmt yfir glæpinn. Hann hefur vitað hvað var í gangi í það minnsta frá því lögreglurannsoknin hófst. Hann hefur hrakist undan með uppsögnum hér og þar eftir sem meira og meira kom í ljós.
Menn hafa verið látnir fjúka fyrir minna.
Ragnhildur Kolka, 20.3.2023 kl. 08:41
Algjörlega sammála Ragnhildi KOlka ,i þessai furðulegu glæpasögu !
rhansen, 20.3.2023 kl. 11:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.