Þriðjudagur, 1. nóvember 2022
Fjárkúgun Gulla er ekki vandamálið
Guðlaugur Þór heimtaði af Bjarna fjármálaráðuneytið ellegar myndi hann skora Bjarna á hólm í einvígi um formennsku Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór er með sterkt bakland í flokknum. Í mörg herrans ár er hann duglegri en flestir dauðlegir að taka í hendur flokksmanna og sitja stærri og smærri fundi. Dugnaðurinn skilar sér í persónufylgi.
Á blaðamannafundi, þar sem Guðlaugur Þór kynnti framboðið, og á samfélagsmiðlum, mátti finna fyrir ýktu persónufylgi þar sem aðdáendur ákalla goðið eins og poppstjörnu.
Ég hef tvisvar eða þrisvar tekið í hönd goðsins og varð ekki uppnæmur. Ekki fyrir það, Gulli er ábyggilega þekkilegur strákur.
Vandamál Gulla er að hann er til sölu. Það hefur afleiðingar sem ég varð sjálfur vitni að.
Fyrir prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík haustið 2006 fékk Guðlaugur Þór fúlgur fjár frá auðmönnum, einkum Jóni Ásgeiri kenndum við Baug. Markmiðið var að fella Björn Bjarnason þáverandi dómsmálaráðherra í prófkjörinu. Guðlaugur Þór var með 500 til 700 manns í vinnu fyrir sig. Samkvæmt úttekt DV 23. apríl 2010 var Guðlaugur Þór ,,mestur fjáraflamanna" úr röðum stjórnmálamanna á árunum fyrir hrun.
Guðlaugur Þór felldi Björn Bjarnason úr öðru sætinu og varð ráðherra í hrunstjórninni skammlífu.
Eftir hrun tók við vinstristjórn Jóhönnu Sig. sem stefndi á ESB-aðild. Ég starfaði í Heimssýn, samtökum andstæðinga aðildar. Breski stjórnmálamaðurinn Daniel Hannan, góðvinur Guðlaugs Þórs, og eitilharður ESB-andstæðingur kom í heimsókn. Á fundi með Heimssýn var rætt um að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-umsóknina, sem þá var farin til Brussel. Hannan taldi hugmyndina góða enda var vinstristjórnin ekki með umboð þjóðarinnar til að sækja um aðild.
Tvísýnt var um baráttuna fyrir fullveldinu á þessum tíma. ESB-sinnar réðu ferðinni. Flugvélaframar af áhrifafólki fóru vikulega til Brussel að kynnast gósenlandinu og framselja fullveldið. Aðlögunarferlið innlimaði Ísland sneið fyrir sneið, bút fyrir bút. Það skipti máli hvort menn voru heilir í afstöðu sinni eða ekki.
Guðlaugur Þór var alfarið á móti tillögu sem tefldi pólitískri framtíð hans sjálfs í tvísýnu. Hann sagði að ef það yrði þjóðaratkvæðagreiðsla gæti vinstristjórnin sprungið og þá yrði efnt til þingkosninga. Hann mætti ekki við kosningum núna, vegna umræðunnar um fjárstuðninginn sem hann fékk frá auðmönnum fyrir hrun.
Það hefur afleiðingar að selja sig. Æ síðan ég varð vitni að þessum ummælum Guðlaugs Þórs hef ég vantreyst honum. Þegar hann barðist fyrir innleiðingu þriðja orkupakkans sem utanríkisráðherra velti ég fyrir mér hvaða tök Norðmenn hefðu á Guðlaugi Þór. Það var norskt hagsmunamál en ekki íslenskt að taka orkupakkann inn í EES-samninginn.
Guðlaugur Þór má mín vegna haga sér eins og pólitískur gangster og stunda fjárkúgun á samherjum. En aldrei, aldrei treysti ég manni sem selur fullveldið fyrir pólitískan frama.
Segir Guðlaug hafa velt fyrir sér breytingum á verkaskiptingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ja hérna hér.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 1.11.2022 kl. 08:13
Kristrún í Samfylkingunni vill fá fjármálaráðuneytið fyrir að vinna með Sjálfstæðisflokknum. Fjárkúgun í pólitík er bara tól sem margir nota, það er misaugljóst.
Ég er reyndar alveg sammála þér að mér leizt ekkert á Guðlaug Þór þegar hann stóð með orkupakka 3. En ég get fyrirgefið og ég tel að menn geti breyzt. Á þeim tíma var Guðlaugur Þór í þeim fasa að sanna sig sem þægur strákur. Vonandi er hann þroskaðri núna, eða það sýnist manni stundum þegar hann fer í viðtöl. Bjarni Ben og fæstir sjálfstæðismenn settu sig alvarlega upp á móti orkupakka 3. Guðlaugur Þór var einn af stórri og samlitri hjörð.
Guðlaugur Þór fékk stuðning frá Baugi fyrir hrun. Hvað með það? Fá ekki allir stjórnmálamenn (sigurvegarar) sem eru efstir á blaði fjárstuðning eða þá að þeir komi úr ríkum fjölskyldum? Þetta er eins og í Bandaríkjunum, það er ekki tekið mark á þér nema þú sért ríkur, og sigurvegari forsetakosninga í Bandaríkjunum safnar fé og er ríkur, eins er það hér. Lýðræðið svonefnda er auðræði meðfram. Þetta eru ekki nýjar fréttir.
Auk þess, Baugur er ekki neinn gildur skítastimpill lengur frekar en Jón Ásgeir. Útrásarvíkingarnir voru ofsóttir af erlendum glæpamafíum sem ekki máttu sjá neina sjálfstæða fjármálaógn hér eða annarsstaðar. Langríkasta elítan erlendis hefur stolið gríðarlegum fjármunum á heimsvísu af milliríkum vesalingum. Íslenzkt fjármálasjálfstæði eins og Baugur stóð fyrir var gott, þótt of geyst hafi verið farið fyrir hrunið.
En þú hefur margt til þíns máls í þessum pistli. Guðlaugur Þór þarf að losna við þennan ESB stimpil af sér, og mistökin við 3. orkupakkann, sem ég hef heldur ekki verið hlynntur.
Björn Bjarnason styður skiljanlega ekki Guðlaug Þór. Hann vitnar í grein Katrínar Sigríðar Þorsteinsdóttur Bachmann, sem telur tíma Guðlaugs Þór liðinn og að Áslaug Arna og Þórdís Kolbrún muni yfirtaka Sjálfstæðisflokkinn 2024.
Bjarni Ben, Björn Bjarnason og svona menn, þeir gera allt fyrir völdin, hugsjónir flokksins skipta minna máli. Áslaug Arna, Þórdís Kolbrún, allt þetta lið breytir Sjálfstæðisflokknum í femínismaflokk, kommúnistaflokk innanfrá. Þá verður flokkurinn endanlega dauður. Guðlaugur Þór er kannski síðasta vonin um að endurreisa Sjálfstæðisflokkinn, þótt hann sé gallaður og ekki fullkominn.
Ingólfur Sigurðsson, 1.11.2022 kl. 13:35
Tek undar allt hjá Páli.
Sigurður Kristján Hjaltested, 1.11.2022 kl. 14:46
Það geri ég líka Sigurður,en að Guðlaugur lýsi yfir framboði til formanns sjálfstæðisflokksins,líkist mest nútíma Slembi-framboðs leyfi ég mér að kalla svona í líkingu við skákkeppni.Hann fellir ekki kónginn umvafinn drottningum.
Helga Kristjánsdóttir, 1.11.2022 kl. 16:04
"Guðlaugur Þór heimtaði af Bjarna fjármálaráðuneytið ellegar myndi hann skora Bjarna á hólm í einvígi um formennsku Sjálfstæðisflokksins." Nú hefur komið í ljós að þetta var falsfrétt. Annars held ég að flokkurinn geti varla sokkið neðar, þó að hann sé í mínum huga enn það skásta sem býðst, hægrisinnaðasti miðjuflokkur landsins. Eitthvað þarf að gera til að breyta stöðu mála, hvort sem Guðlaugur Þór geri það 2022 eða Þórdís Reykfjörð hin vestfirska 2024.
Snorri Bergz, 2.11.2022 kl. 06:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.